Friday, September 30, 2005

 

Rúmið mitt

er fjölskylduvænt rúm. Í nótt sváfu í því: Ein móðir, einn unglingur, eitt barn og ein kisa. Geri aðrir betur!

Thursday, September 29, 2005

 

The end

Þá er maður búin að setja ferðasöguna á blað. Þetta gerði ég bara fyrir sjálfa mig, því minnið getur verið gloppótt.

Ef það er eitthvað sem ég lærði í ferðinni, þá er það eftirfarandi:

1. Ég verð að fara aðra ferð til Stokkhólms, sá allt of lítið þar.
2. Næst verð ég að taka með mér stærri tösku, svo ég þurfi ekki að troða.
3. Það er hægt að borða 4 rétta máltíð í rúmlega 60 manna hóp á 45 mínútum.
4. Kvennakórinn er alveg magnaður félagsskapur.

Svo tekur hversdagsleikinn við. Tónleikar á laugardaginn og síðan verður jólaprógramið æft.

 

7. dagur


Síðasti dagurinn í ferðinni hefði eiginlega mátt vera tvöfalt lengri. Það var svo margt sem ég hefði viljað getað skoðað betur í Stokkhólmi.

Hvað um það. Við byrjuðum á Strandveginum á heimili Svavars sendiherra og Guðrúnar konu hans. Það voru virkilega hlýlegar móttökur sem við fengum þar, soldið afslappaðri andrúmsloft heldur en í Helsinki. Eftir hressingu fór Guðrún með okkur í skoðunarferð um borgina og gerðist leiðsögumaðurinn okkar. Hún var hress og sagði skemmtilega frá. Það var óvenjuheitt í Stokkhólmi, yfir 20 stiga hiti. Því miður var tími okkar í Stokkhólmi mjög takmarkaður, því við urðum að halda til Uppsala. (Svíar segja Úbsala, finnst það alveg magnað).

Tónleikarnir tókust mjög vel, nokkuð vel sóttir og megnið Íslendingar. Við vorum orðnar heldur sjóaðar í söngnum og það var ekki laust við að við vögguðum soldið með, eftir velting næturinnar. Eftir tónleika var farið í sal, þar sem mikið var borðað, sungið og drukkið. Nokkur skemmtiatriði voru flutt, hvert öðru betra.

Það var frekur þreytulegur hópur sem steig um borð í FI313. Mikil ókyrrð var í lofti þannig að ekki var mikið sofið. Ég var heldur þreytt þegar ég skreið heim, en mikið fékk ég nú hlýjar móttökur. Eini fjölskyldumeðlimurinn, sem var heima, tók fagnandi á móti mér og vék ekki frá mér.

 

6. dagur

Frídagur að mestu leyti. Þennan dag fóru þær verslunarþyrstu í búðarráp, en við hinar röltum rólega milli handverksbúða í góða veðrinu. Við vorum alltaf heppnar með veður og þakka ég því að ég tók regnhlífina með.

Klukkan fjögur var svo farið frá hótelinu og keyrt niður á höfn. Þar blasti við dallur mikill "Regina Baltica", sem átti að flytja okkur yfir til Stokkhólms. Alger dallur og klefarnir pínulitlir, en allir staðráðnir í að láta það ekkert á sig fá. Því er þó ekki að neita að smá innilokunartilfinning gerði vart við sig, enda vorum við í klefum á neðstu hæð. Smá Titanic stíll á þessu, fátæka fólkið á neðsta dekki. Mikið af ruddalegum karlmönnum um borð, vel við skál og keðjureykjandi. Ekki alveg til að auka öryggistilfinninguna. Þess má geta, að "dallurinn" strandaði svo tveimur dögum síðar í innsiglingunni í Stokkhólmi.

 

5. dagur


Þessi dagur var örlítið stressaður. Um morguninn var brunað á æfingu í kirkjunni, þar sem við hittum norskar kórsystur okkar. Það var 120 manna "prjoect" kór sem átti að syngja með okkur um kvöldið. Æfing hófst á því að okkur var blandað saman og svo kenndum við þeim að syngja "Ísland farsælda frón". Það var gaman að heyra þessar norsku spreyta sig á íslenskunni. Síðan var æfð norsk vögguvísa, mjög einföld sem var sungin í þéttum keðjusöng. Eftir æfingu var rölt niður í bæ, til hádegisverðar. Þar sem ekki var mikill tími, varð þetta hálf stressaður hádegismatur.

Eftir hádegi var svo haldið aftur til kirkju, þar sem við tók "workshop", með þessu norsku. Eistneskt tónskáld kenndi okkur tvö lög á Eistnesku og var greinilega fagmaður þar á ferð. Gaman að fá að spreyta sig og öllum kórum var blandað saman, þannig að maður var umkringdur af þeim norsku.

Tónleikar tókust mjög vel, en voru fremur fámennir. Einn aðdáandi var þó á staðnum, vel við skál. Hann lét hrifningu sína óspart í ljós, með klappi og tauti.

Um kvöldið hélt svo öll hersingin í kvöldmat í Peppersack. Þar var öllum komið fyrir á langborðum, en því miður voru þær norsku á annari hæð, þannig að ekki gafst mikill tími til að spjalla við þær. Við skemmtum okkur samt rosalega vel og það var sungið standandi og sitjandi og jafnvel standandi upp á borðum og stólum. Eftir kvöldverð var farið á nærliggjandi krá, þar sem konur (og menn) sátu við drykkju, mislangt fram eftir nóttu.

 

4.dagur


Tallinn er falleg borg. Gamla miðborgin er í miðaldarstíl og margar fallegar byggingar. Margar byggingar bera skemmtileg nöfn, eins og "feita Margrét" og "hái Hermann". Fyrir utan miðborgina er svo tónleikahöll, þar sem haldnir eru risatónleikarnir "Festival of Song". Þegar Eistland var undir valdi Sovétríkjana, var eistneska bönnuð, nema í söng. Þess vegna notuðu bæjarbúar hvert tækifæri til að syngja. Þessi höll getur rúmað 30 þúsund manna kór og það var því fremur fátæklegt þegar 60 kórkonur stilltu sér upp á pöllunum og sungu. Sigrún kórstjóri lét ekki sitt eftir liggja og tók lagið, við fögnuð viðstaddra.

Deginum var að mestu leyti eytt í miðborginni, fyrst í skipulagðri skoðunarferð en síðan á eigin vegum. Um fimmleytið var svo æfing í kirkjunni og voru konur misflinkar að koma sér þangað. Sumar tóku sporvagn í vitlausa átt og hreinlega villtust. Eftir æfingu var brunað í Tónleikahöll Tallinn, þar sem átti að gera tilraun til að nálgast miða á tónleika hjá Kammerkór bæjarins. Það var því miður uppselt og var því rölt í bæinn og stefnan tekinn á veitingastað í miðaldrastíl, Olde Hansa. Þjónustan þar var alveg framúrskarandi og maturinn líka. Stúlkan sem þjónaði okkur til borðs var ríflega verðlaunuð, enda átti hún það skilið.

Tuesday, September 27, 2005

 

3. dagur


Dagurinn byrjaði á skoðunarferð á heimili Pekka Halonen, sem er frægur finnskur málari. Síðan var farið á heimli Jeans Sibeliusar, Ainola. Fallegt hús, þar sem Sibelius samdi sín stærstu tónverk. Þaðan lá leið í lítinn sal, þar sem flutt voru þrjú af verkum Sibeliusar. Tvö verk spiluð á fiðlu og flygil, Waterdrops og Valse Triste og síðan var að sjálfsögðu endað á mögnuðum flutningi á Finnlandia. Eftir þessa stuttu en fallegu tónleika, var haldið í hádegismat. Þar sem dagskrá hafði seinkað, höfðum við nákvæmlega 45 mínútur til að raða í okkur fjögurra rétta máltíð og geri aðrir betur. Súpa (rófur og baunir), fiskur með hrísgrjónum og grænmeti/stroganoff og síðan eplakaka og kaffi. Farastjórinn okkar, hann Veesi, stóð upp á stól og stjórnaði eins og herforingi.

Að kappátinu loknu, var haldið aftur til Helsinki. Leiðin lá í hina frægu klettakirkju, þar sem átti að syngja nokkur lög. Það tókst vel og fólk streymdi inn og út. Nokkrir stoppuðu og stilltu sér upp fyrir framan kórinn og létu taka af sér mynd. Eftir tónleika var haldið beina leið niðrá höfn, þar sem stigið var um borð í ferjuna Romantica Baltica. Þar var byrjað á því að borða kvöldmat en síðan hélt hópurinn sig á diskóteki, þar sem var dansað, drukkið og að sjálfsögðu sungið.

Kvöldið endaði á því að þreyttur hópur tékkaði sig inn á glænýtt hótel í Tallinn, Hotel Schnelli.

 

2. dagur

Eftir morgunverð á hótelinu, vorum við sóttar í rútu. Leiðin lá í stórglæsilegt tónleikahús í Lahti, Sibelius Hall. Húsið er byggt að mestu leyti úr timbri og gleri og er sérhannað með hljómburð í huga. Hljóðeinangrun er að hluta til úr sandi og húsið er algerlega hljóðeinangrað. Þarna var okkur boðið að hlusta á æfingu hjá Sinfóníuhljómsveitinni í Lahti, þar sem hún æfði hluta úr Brandenborgartónverki Bach. Hljómburðurinn var alveg magnaður. OG að sjálfsögðu tókum við lagið.

Eftir þessa mögnuðu upplifun, var okkur ekið til Ráðhússins í Lahti, þar sem borgarritarinn tók á móti okkur. Hann hélt langan og strangan fyrirlestur um Lahti. Það var eins og maður væri komin aftur á skólabekk og svei mér þá ef nokkrar konur voru ekki farnar að dotta. Eftir þann fyrirlestur tók menningarfulltrúi Lahti við og hélt ANNAN fyrirlestur. Hún fræddi okkur um að Lahti er að reyna að verða fulltrúi Finnlands, sem Menningarborg Evrópu árið 2011. Mjög erfitt að halda einbeitningu og virka áhugasamur.

Þá tók við 3 klst. frjáls tími. Það var hlaupið í bæinn og konur lögðust almennt í búðarráp. Ég stoppaði lengst í H&M, þar sem ég verslaði aðeins á börnin. Keypti mér síðan úlpu í Lindex og kom við í Marimekko. Lengra komumst við ekki, því einhvað urðum við að borða fyrir tónleika.

Klukkan 17:30, var síðan farið með rútu í Hollola kirkjuna þar sem fyrstu skipulögðu tónleikarnir voru haldnir. Hollola kirkjan er gömul steinakirkja frá 14.öld, mjög falleg. Tónleikar tókust vel og voru sendiherrar og fleiri ráðamenn, meðal áheyrenda. Prógraminu var rent í gegn og gekk nokkuð hnökralaust. Íslensku lögunum var vel tekið og svo var rennt í Tangó, sem tókst mjög vel.

Það var orðið dimmt þegar við komum til baka, en engin var tilbúin í svefn. Það var haldið í bæinn og splittaðist hópurinn upp á hina ýmsu veitingastaði. Við vorum heppnar með veitingastað, fengum kalkún og meðlæti fyrir rúmlega 1000 kr. Og að sjálfsögðu var tekinn tappinn úr rauðvínsflösku, eða tveimur, eða þremur.

 

1.dagur

Það voru heldur þreytulegar konur (og nokkrir menn), sem hittust við Bókasafn Kópavogs klukkan hálf fimm á mánudagsmorgni. Spennan og eftirvæntingin skein samt úr hverju andliti. Að sjálfsögðu var verslað í Fríhöfninni og síðan var sest niður og fengið sér smá hressingu.

Flogið var beint til Helsinki, þar sem rútur tóku á móti hópnum. Lagt var í skoðunarferð um borgina, þar sem stoppað var við markverðustu staðina. Auðvitað var lagið tekið, á aðaltorginu og við minnismerki Sibeliusar. Að lokinni skoðunarferð var farið aftur í rútu og nú lá leiðin í sendiráðið að hitta Jón Baldvin og frú. Nokkuð formlegt en mjög skemmtilegt. Drukkin óteljandi glös af góðu hvítvíni, en eitthvað var lítið um veitingar. Það var nákvæmlega einn þjónn með bakka af snittum sem sextíu konur réðust á, enda margar orðnar svangar.

Að því loknu var keyrt af stað til Lahti. Á leiðinni var stoppað á veitingarstað, við stærsta skíðastökkpall sem ég hef séð. Þegar stigið var út úr rútunni, blasti við stórt ljósaskilti sem á stóð: "Womens Choir of Reykjavik, Welcome to Lahti". Það var ekki laust við að maður yrði klökkur. Og mikið var maður svangur.

Síðan var ekið inn í miðborg Lahti, þar sem hópurinn tékkaði sig inn á Hótel Salpaus. Ágætis hótel, fábrotið og snyrtilegt. Sumir fóru beint á barinn, en aðrir beint í háttinn.

Monday, September 26, 2005

 

Tere!

Þá er maður snúin aftur úr þriggja landa fræðgarför. Búin að læra nokkur orð í finnsku og eistnesku og sjá svo margt fallegt. Og búin að læra að syngja með Eistunum!

Okkur var alls staðar mjög vel tekið, farastjórn var til fyrirmynda og maturinn góður. Við sungum fyrir sendiherra frá nokkrum löndum, borgarritara, listafólk, túrista og bara fullt af fólki. Skipulagðir tónleikar voru þrír, en svo var bara sungið við öll tækifæri.

Ég ætla a blogga meira um ferðina, til að eiga hana skrifaða. Ég vil ekki gleyma neinu. ÉG spurði bara eins og svo margar aðrar. HVENÆR VERÐUR NÆSTA FERÐ!!!

Friday, September 16, 2005

 

Krónur og evrur

Þá er komið að því að maður þarf að gera sér ferð í bankann að versla gjaldeyrir. Ég er orðin svo spennt fyrir utanlandsferðinni. Dagskráin er þéttskipuð, boð í tvö sendiráð og fullt af tónleikum. Og svo auðvitað nóg af sprelli líka.

Ég er búin að skoða mikið af síðum, til að fræðast um Helsinki og Tallinn. Ég er meira að segja næstum búin að læra fyrsta orðið mitt í finnsku: Juustohampurilainen. Finnskumælandi vinur minn kenndi mér þetta orð og fannst þetta greinilega nauðsynlegt, þegar maður ferðast til Finnlands.

Sunday, September 11, 2005

 

11. september

Í mínum huga verður 11. september alltaf minnistæður, sem dagurinn sem fyrrverandi maðurinn minn gekk út og hjónaband okkar endaði. Við kunnum heldur betur að velja daginn!

Það er skrýtið að hugsa til að nú sé komið heilt ár síðan þetta gerðist. Ég veit ekki hvort ég sé orðin þroskaðri eða vitrari eftir þetta ár, en eitt er alveg víst. Við tókum rétta ákvörðun. Hjónabandið var dautt og það eina sem var jákvætt við þetta hjónaband, eru tvö yndisleg börn sem við eignuðumst saman.

Thursday, September 08, 2005

 

ADHD?

Ég á son sem hefur alltaf verið mjög orkumikill. Hann á erfitt með að sitja kyrr, nema þegar hann horfir á sjónvarp eða er í tölvuleik. Hann byrjaði í 1.bekk í fyrra og það gekk brösulega. Hann var sífellt að trufla með hljóðum og hrekkjum. Ég vonaði að næsti vetur yrði skárri, hann væri búinn að læra hvað væri ætlast til af honum í skólanum og yrði rólegri.

Mér varð ekki að ósk minni. Hann hefur átt mjög erfitt í skólanum og lærir stundum ekkert heilu kennslustundirnar. Kennarinn segir að hann sé kyrr í sætinu, en sífellt að trufla hina. Hún segir að hann geti verið duglegur að læra, en stundum sé bara ekki hægt að tjónka við hann. Hann lætur líka svona heima hjá mér, lokar eyrunum og setur upp glott. Hann þorir síður að láta svona við föður sinn og er honum stundum hótað með því að nú verði sko hringt í pabba. Það svínvirkar.

Ég er hreinlega komin á þá skoðun að það hljóti eitthvað að vera að hrjá barnið. Hann man ekki stundinni lengur hvað er sagt við hann og getur stundum látið eins og brjálæðingur. Ég er að verða ráðþrota og er orðin þreytt á spennunni og svekkelsinu sem fylgir í kjölfarið. Ég er líka með samviskubit yfir hversu örg ég get orðið þegar hann lætur svona. Eitt er á hreinu, við þurfum hjálp!

Tuesday, September 06, 2005

 

Tónleikar 17.september

Þá er starfsárið hafið hjá Kvennakórnum. Það er brjálað að gera hjá okkur í september. Við erum að fara að gefa út disk 17.september og af því tilefni verða haldnir tónleikar þann sama dag. Tónleikarnir verða í Breiðholtskirkju og það er frítt inn!

Tæpum tveimur dögum síðar, verður svo haldið í vikuferð til útlanda. Við byrjum í Finnlandi, tökum svo ferju yfir til Tallinn og endum í Stokkhólmi. Frábært prógram og nóg að gera. Þetta er fyrsta utanlandsferð mín með kórnum og ég er orðin rosalega spennt.

Friday, September 02, 2005

 

Þá trúi ég og treysti á það

Það er mikið hlustað á Sálina á mínu heimili þessa dagana. Ástæðan er sú að unglingurinn, sú sem stjórnar tónlistarflutningi á heimilinu, er nýbúin að taka ástfóstri við Sálina. Það er í góðu lagi, því mér finnast Sálar-lögin mjög áheyrileg.

Annars er ég soddan alæta á tónlist að það má bjóða mér nánast hvað sem er. Var td. mjög sátt við Nirvana, HIM og næstum farin að samþykkkja Marilyn Manson. Það er helst rappið sem þreytir mig. Það má þó finna nokkur áheyrileg lög inná milli. Diskaasafnið mitt er mjög fjölbreytt, allt frá pönki í klassíska tónlist og allt þar á milli.

Kannski er ég bara svona óákveðin.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?