Thursday, September 29, 2005
7. dagur
Síðasti dagurinn í ferðinni hefði eiginlega mátt vera tvöfalt lengri. Það var svo margt sem ég hefði viljað getað skoðað betur í Stokkhólmi.
Hvað um það. Við byrjuðum á Strandveginum á heimili Svavars sendiherra og Guðrúnar konu hans. Það voru virkilega hlýlegar móttökur sem við fengum þar, soldið afslappaðri andrúmsloft heldur en í Helsinki. Eftir hressingu fór Guðrún með okkur í skoðunarferð um borgina og gerðist leiðsögumaðurinn okkar. Hún var hress og sagði skemmtilega frá. Það var óvenjuheitt í Stokkhólmi, yfir 20 stiga hiti. Því miður var tími okkar í Stokkhólmi mjög takmarkaður, því við urðum að halda til Uppsala. (Svíar segja Úbsala, finnst það alveg magnað).
Tónleikarnir tókust mjög vel, nokkuð vel sóttir og megnið Íslendingar. Við vorum orðnar heldur sjóaðar í söngnum og það var ekki laust við að við vögguðum soldið með, eftir velting næturinnar. Eftir tónleika var farið í sal, þar sem mikið var borðað, sungið og drukkið. Nokkur skemmtiatriði voru flutt, hvert öðru betra.
Það var frekur þreytulegur hópur sem steig um borð í FI313. Mikil ókyrrð var í lofti þannig að ekki var mikið sofið. Ég var heldur þreytt þegar ég skreið heim, en mikið fékk ég nú hlýjar móttökur. Eini fjölskyldumeðlimurinn, sem var heima, tók fagnandi á móti mér og vék ekki frá mér.