Thursday, December 30, 2004

 

Uppselt!

Miðvikudagar eru orðnir mjög sérstakir hjá okkur mæðgunum. Við reynum yfirleitt að gera eitthvað skemmtilegt saman og förum td. oftast eitthvert að fá okkur að borða.

Gærdagurinn var engin undantekning. Við skelltum okkur á Serrano í Kringlunni og fengum okkur Burritos. Rosalega gott og ódýrt. Síðan var ákveðið að skella sér í bíó. Stefnan var tekin á Sambíóin í Mjódd og átti nú virkilega að hlamma sér niður, fá sér popp og horfa á Bridget Jones. EN það var UPPSELT. Myndin búin að vera í sýningu í langan tíma, en samt uppselt. ARGGG við vorum heldur svekktar.

Oh jæja, það kemur alltaf annar miðvikudagur.

Thursday, December 23, 2004

 

Taxi Driver

Það gerist margt skrýtið í jólastressinu. Í gærkvöldi uppgötvaði ég að ísskápurinn var galtómur. Það var ekki um marga kosti að ræða, svo ég skaust niðrá Select til að kaupa amk. jógúrt og ost.

Anyway..

Þegar ég var að ganga inn í Select, vatt sér að mér ungur maður og spurði mig "Get ég fengið far með þér?". Mér brá hálf við og það eina sem mér datt í hug var að segja drengnum að hann græddi nú lítið á því, þar sem ég byggi nánast í næsta húsi. Það sem ég fattaði eftirá var að ég hefði að sjálfsögðu átt að segja "Já, hvert viltu fara?". Maður er bara kannski búin að finna leið til að vinna sér inn smá aukapening. Vantar einhvern far???

Thursday, December 16, 2004

 

Strike a pose

Ég fór með börnin í myndatöku í gær. Það var rosalega gaman. Þar sem ég kannaðist við ljósmyndarann var andrúmsloftið létt og skemmtilegt. Börnin voru fremur afslöppuð, þó dóttirinn kvartaði aðeins undan því að geta ekki skilið ljósmyndarann. Sonur minn átti ekki í vandræðum með það og brá fyrir sig enskunni "no problem".

Dóttirinn var rosalega fín og sæt á myndunum sínum og ekkert mál að taka af henni myndir. Sonurinn setti aftur á móti í galsagírinn og setti sig í hinar ýmsu stellingar. Hann var bara eins og vant módel, þegar hann var reiður, hissa, glaður, hugfanginn og svo framvegis. Ljósmyndarinn hló mikið af uppátækjunum og fékk leyfi til að setja mynd af honum upp á vegg hjá sér.

Nú er aðal hausverkurinn eftir. Ég þarf að velja úr öllum þessum fínu myndum þær myndir sem ég vil láta stækka. Hvort á ég að velja uppstillta mynd eða karaktermynd?

Monday, December 13, 2004

 

Jóla-hvað!

Það er alveg ótrúlegt hvað sumir jólasveinar geta verið örlátir þegar þeir gefa í skóinn. Það gerir það að verkum að hinir jólasveinarnir sem eiga kannski eins mikinn pening, eru bara hallærislegir.

Þegar ég mætti með son minn í skólann í morgun, voru krakkarnir að bera saman bækurnar um hvað jólasveinninn hefði fært þeim. Einn fékk bílabraut, annar Spiderman Lego, þriðji fótboltaspil og svo framvegis. Þeir sneru sér að syni mínum og spurðu hvað hann hefði fengið í skóinn. "Jólablýant" sagði sá stutti, heldur skömmustulegur.

Þetta finnst mér soldið too much...

Sunday, December 12, 2004

 

Skrítið

Ég er orðin bloggfíkill. Ég hef gaman af því að ferðast um og skoða alls kyns blogg. Sumir blogga undir dulnefni, aðrir undir gælunafni og þeir djörfustu blogga undir fulla nafni og setja jafnvel myndir af sjálfum sér til frekari útskýringar. Maður skyggnist inn í daglegt líf fólks og áhugamál. Sumir eru meira að segja skáldlegir og setja saman heilu sögurnar í sínu bloggi.

Hvað með það.

Á föstudagskvöldið var ég stödd á tónleikum ásamt vinkonu minni. Það væri varla frásögufærandi nema hvað ég tók eftir konu sem sat á bekknum fyrir framan mig. Ég kannaðist strax við vangasvipinn. Þetta var kona sem ég þekkti frá bloggferðalögum mínum. Kona sem bloggar um sitt daglega líf í bland við miklar ýkjusögur. Hún var sem sagt stödd þarna ásamt syni sínum. Mér fannst þetta hálf skrítin upplifun. Þarna starði ég á konu sem ég vissi svo margt um, en hafði aldrei talað við. Vinkona mín tók eftir þessu og spurði "Þekkirðu þessa konu?" Ég brosti, leit á hana og sagði "nei eiginlega ekki, en samt...."

Friday, December 10, 2004

 

TGIF

Skapið er miklu betra í dag, enda helgi framundan. Börnin að fara til pabba síns og nú á sko að klára 1000 hluti. Þó ég elski börnin mín óendanlega mikið, er samt líka gott að geta verið ein og hlaðið batteríin. Þá er líka oft betra næði til að koma hlutunum í framkvæmd.

Sem sagt, brett upp ermar og "to-do" listinn kláraður.

Góða helgi.

Thursday, December 09, 2004

 

Hálf örg í dag

Þegar ég skilaði af mér manninum mínum, þurfti að ganga frá meðlagsgreiðslum með börnunum okkar. Maðurinn minn var rosalega örlátur í fyrstu og bauð tvöfalt meðlag, en vildi hafa helming á pappírum og helming "undir borðið". Þar sem ég veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér, kom ég með mótboð. Einfalt meðlag og 50% af ýmsum kostnaði. Hann samþykkti það og það var allt skjalfest.

Nú hins vegar sér hann sér leik á borði. Allur aukakostnaður sem hann ber vegna barnana ss. borgar fyrir fótboltamót sem lendir á hans helgi og annað slíkt, ætlar hann að rukka mig um 50%. Það er náttúrulega sanngirni í þessu, en NB hann bauðst til að borga TVÖFALT MEÐLAG og er eiginlega hvort eð er að koma ódýrara út með minni leið. Það þarf varla að taka það fram að hann hefur ríflega tvöfalt hærri tekjur en ég og fyrir einum að sjá.

Life's a bitch and then you die.



Tuesday, December 07, 2004

 

Mér blöskrar

Mæðrarlaun er sá styrkur sem er hálfgerður brandari. Ef þú ert einstök móðir með 2 eða fleiri börn á framfæri, þá færðu heilar 4.600 kr. í mæðralaun frá Tryggingastofnun. Ekki há upphæð, en ég ákvað að það væri samt þess virði. Þegar ég fékk svo greiðsluna í hendurnar var hún kr. 2.800. Jú skýringin er sú að skatturinn innheimtir sitt!!!

Þegar ég skildi, fékk ég margsinnis að heyra það að þetta yrði nú ekki svo slæmt. "Einstæðar mæður hafa það nú svo gott" var það sem mér var sagt. EN það gleymdist að segja mér hvar ég ætti að sækja um þetta "gott". Það hefur alveg farið framhjá mér. Getur einhver frætt mig um það hvað maður "græðir" á því að vera einstæð móðir???

Thursday, December 02, 2004

 

Bráðum koma blessuð jólin

Jæja, þá er bara skollinn á desember. Ég er bara ekki frá því að ég hlakki til jólanna í ár. Ég verð að vísu að vera töluvert á bremsunum við val á jólagjöfum en það er allt í lagi. Það er hægt að fá fína hluti fyrir lítinn pening.

Ég ætla líka að fara með börnin í jólamyndatöku til hans Neto. Hann rekur ljósmyndastofu á Laugavegi og er mjög fær ljósmyndari. Ég hef séð myndir eftir hann og líkar mjög vel. Svo spillir ekki að hann er ódýr. Þetta verður svo sett í ramma og þar með eru allir afar og ömmur og langafar og langömmur afgreidd á einu bretti.

Ég ætla líka að baka piparkökur fyrir jólin með börnunum mínum. Það er svo mikil jólastemmning fólgin í því að skreyta piparkökur. Ég ólst upp við þetta og finnst þetta ómissandi hluti af jólaundirbúningnum. Svo setur maður að sjálfsögðu upptökur af jólatónleikum síðasta árs í spilarann og syngur með hástöfum. Ég sakna þess SVO MIKIÐ að vera ekki í kórnum núna. Ég ætla að vera með eftir áramót og svo mæti ég að sjálfsögðu á tónleikana. Þeir verða haldnir í Grafarvogskirkju í kvöld og svo á sunnudaginn. Það má enginn missa af svona gæðatónleikum.

Er ég ekki örugglega búin að "plögga" nóg??


This page is powered by Blogger. Isn't yours?