Friday, January 26, 2007

 

Merkingar í símaskrá

Ég er alveg hætt að skilja af hverju maður er að hafa fyrir því að láta sérmerkja sig í símaskrá. Þetta rauða merki virðist ekki hafa nein áhrif á símasölufólk. Ég er orðin þreytt á þessu endalausa peningabetli, bókaklúbbum og könnunum. Ég er svo dónaleg, að ég leyfi fólki ekki einu sinni að bera upp erindið, heldur segi strax "nei takk" og legg á. Það er mitt mottó að kaupa aldrei neitt, ganga ekki í klúbb eða styrkja neinn, sem nálgast mig á þennan hátt. Ef ég vil styrkja málefni, ganga í klúbb eða kaupa eitthvað, þá ber ég mig eftir því sjálf. Ég þarf ekki að láta trufla mig með símhringingum til þess.

Ef merkingin virkar ekki, til hvers er hún þá?

Thursday, January 25, 2007

 

Púsluð

Ég virðist vera mjög æði-gjörn í janúar. Fyrst var það teið. Ég er búin að kaupa ótal marga te-pakka og er alltaf að smakka eitthvað nýtt.

Núna eru það púsluspil. Systir mín, elskuleg, lánaði mér mjög skemmtilegt púsluspil. Það er flóknara en venjulegt púsluspil, þar sem þú sérð ekki myndina sem þú ert að púsla. Þú sérð annað sjónarhorn, en myndin á kassanum segir til um. Myndin á púslina er í raun það sem fólkið á myndinni er að horfa á.

Anyway, mjög skemmtilegt og helv. ávanabindandi.

Friday, January 19, 2007

 

Te-æði

Ég er nýbúin að uppgötva rosalega gott te frá Celestial Seasonings. Það heitir Red Safari Spice og á víst að vera allra meina bót. Ég veit ekki hvort ég á að þora að segja það, en ég held að mér finnist það bara betra en kaffi. Þetta er svokallað rautt te, koffínlaust og mjög bragðgott.

Ég mæli með því.

Thursday, January 18, 2007

 

Spurningar um e-bay

Ég er í smá vandræðum. Jólagjöf dóttur minnar sem var keypt í Bandaríkjunum, reyndist of lítil og nú er ekki hægt að kaupa vetrarvörur lengur hjá þessari verslun. Dóttirin að sjálfsögðu mjög svekkt, þannig að ég ákvað að kanna hvort það væru einhverjir möguleikar á að fá þessa úlpu á netinu.

Það er nóg til af henni á e-bay (nýjar úlpur). Vandamálið er bara að ég er frekar óvön að versla á netinu og veit ekki hvort ég á að treysta þessari síðu. Þeir vilja fá upplýsingar um kreditkort, þegar maður ætlar að skrá sig sem notanda og það eru upplýsingar sem ég er frekar treg að gefa upp.

Þess vegna ákvað ég að athuga hvort einhver sem les þetta blogg, hefur verslað á e-bay.

Saturday, January 13, 2007

 

Best of 2006

Þar sem þetta er hálfgerð dagbók fyrir mig, þá ætlaði ég alltaf að gera svona "best of" lista fyrir árið.

Bíómynd ársins
Walk the line - Þetta er mynd sem ég get horft á aftur og aftur

Bók ársins
Understanding ADHD Þetta verður ár ADHD handbókana og þessi var langbest.

Lag ársins
Crazy / Gnarls Barkley Það er eitthvað við þetta lag sem kemur mér alltaf í gott skap

Sjónvarpsviðburður ársins
HM í knattspyrnu Það viðurkennist hér og nú að ég hef gaman af fótbolta
Rockstar/Supernova Ég get ekki neitað því að ég fylgdist með Magna

Frétt ársins
Að mínu mati er það brotthvarf Varnarliðsins.

Það verður ekki lengra. Það er svo við þetta að bæta að hápunkturinn í mínu lífi á síðasta ári var auðvitað fertugsafmælið mitt. Ég hef sjaldan skemmt mér eins vel, algert stelpupartí og mikið stuð. Þetta verður að vísu líka árið sem ég fékk grand mal kastið. Ég verð bara að krossa fingur og vona að það komi aldrei fyrir aftur.

Friday, January 12, 2007

 

Traust

Einhverra hluta vegna á ég mjög erfitt með að treysta bifvélavirkjum og fasteignasölum. Ég hef það alltaf á tilfinningunni að það sé verið að plata mig.

Bremsurnar á bílnum mínum hafa verið að angra mig undanfarið. Mér hefur fundist vera eitthvað aukahljóð í þeim og hef því verið frekar stressuð í umferðinni. Hljóðið lýsir sér helst eins og það sé verið að sarga saman tveimur járnum.

Það var því ekki um annað að ræða að harka af sér og fara með bílinn á verkstæði í morgun. Eitthvað á það nú eftir að kosta mig.

Tuesday, January 09, 2007

 

Fyrsti í Ritalín

Ég get ekki neitað því að ég var orðin mjög stressuð í morgun, þegar kom að því að gefa syninum fyrstu töfluna. Ég var eiginlega farin að efast um að ég væri að gera rétt og kannski gæti hann alveg plummað sig sjálfur. En eins og við ákváðum, þá verður þetta reynt í einn mánuð og svo tekin ákvörðun um framhaldið.

Hann var svo sætur, blessaður, þegar hann var nýbúinn að kyngja töflunni og sagði mér að þetta væri bara allt annað líf. Hann gæti alveg setið kyrr núna.

Thursday, January 04, 2007

 

Stolt af ömmu

Amma mín var í hópi þeirra sem fékk Fálkaorðuna á Nýársdag. Hún varð að sjálfsögðu mjög glöð þegar hún fékk fréttirnar, því þetta er ein æðsta viðurkenning sem óbreyttum borgara getur hlotnast. Þessi orðuveiting hefði líka ekki getað komið á betri tíma, því hún er búin að vera hálf vængbrotin eftir að afi flutti á Droplaugarstaði.

Hún fór í sínu fínasta pússi og eina lærða söngkonan í fjölskyldunni fékk að fara með á Bessastaði. Nei, það var ekki ég, ég hef aldrei lært að syngja. Myndin sem birtist í Mogganum var svo lítil að ég ætla ekki að líma hana við póstinn, en bara svona til fróðleiks þá er hún fyrir miðri mynd.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?