Thursday, September 29, 2005
5. dagur
Þessi dagur var örlítið stressaður. Um morguninn var brunað á æfingu í kirkjunni, þar sem við hittum norskar kórsystur okkar. Það var 120 manna "prjoect" kór sem átti að syngja með okkur um kvöldið. Æfing hófst á því að okkur var blandað saman og svo kenndum við þeim að syngja "Ísland farsælda frón". Það var gaman að heyra þessar norsku spreyta sig á íslenskunni. Síðan var æfð norsk vögguvísa, mjög einföld sem var sungin í þéttum keðjusöng. Eftir æfingu var rölt niður í bæ, til hádegisverðar. Þar sem ekki var mikill tími, varð þetta hálf stressaður hádegismatur.
Eftir hádegi var svo haldið aftur til kirkju, þar sem við tók "workshop", með þessu norsku. Eistneskt tónskáld kenndi okkur tvö lög á Eistnesku og var greinilega fagmaður þar á ferð. Gaman að fá að spreyta sig og öllum kórum var blandað saman, þannig að maður var umkringdur af þeim norsku.
Tónleikar tókust mjög vel, en voru fremur fámennir. Einn aðdáandi var þó á staðnum, vel við skál. Hann lét hrifningu sína óspart í ljós, með klappi og tauti.
Um kvöldið hélt svo öll hersingin í kvöldmat í Peppersack. Þar var öllum komið fyrir á langborðum, en því miður voru þær norsku á annari hæð, þannig að ekki gafst mikill tími til að spjalla við þær. Við skemmtum okkur samt rosalega vel og það var sungið standandi og sitjandi og jafnvel standandi upp á borðum og stólum. Eftir kvöldverð var farið á nærliggjandi krá, þar sem konur (og menn) sátu við drykkju, mislangt fram eftir nóttu.