Tuesday, January 31, 2006

 

Tækjasjúklingur

Ég verð að viðurkenna að ég á við ákveðinn veikleika að stríða. Ég er tækjasjúklingur. Ég á flest rafmagnstæki sem hægt er að kaupa fyrir eldhús og svo er ég hrifin af tækjum tengdum tónlist og bíómyndum. Ég verð eins og krakki með nýtt dót, þegar ég er búin að kaupa mér nýtt tæki.

Í gær keypti ég mér nýja ísvél og þar á undan keypti ég nýjan mixara, því ég náði að bræða úr þeim gamla. Ókei, það virðast hvíla á mér álög. Rafmagnstæki endast aldrei lengi hjá mér. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að ég noti þau vitlaust eða af því að ég er svo sparsöm að ég kaupi ekki dýr tæki.

Næst langar mig í I-pod, eða nýtt flott sjónvarp, eða heimabíó, eða nýjan GSM síma, eða...

Wednesday, January 25, 2006

 

Í fullkominni veröld

Myndu börnin mín vakna sjálf á morgnana. Þau myndu klæða sig og bursta tennur og sjá sjálf um að fá sér morgunmat. Þau væru svo tilbúin í útifötum fyrir klukkan átta og myndu mæta á réttum tíma í skólann.

Maður getur alltaf látið sig dreyma, er það ekki.

Friday, January 20, 2006

 

Dancing Queen

Það er lagið sem ég er með á heilanum þessa dagana. Kannski ekki skrýtið þar sem það er verið að æfa það fyrir vorprógramið. Prógramið verður sem sagt á léttum nótum; Abba, Sound of music, Grease, Fiðlarinn og fleira.

Ekki leiðinlegt að æfa þessi lög. Sumum finnst það ekki nógu professionalt, en mér er nett sama. Ég fíla alla tónlist, tja eða flestalla skulum við segja.

Allir saman nú, "You are the dancing queen". Það kunna nú allir þennan texta.

Tuesday, January 17, 2006

 

Sævar Pálsson RIP

Í dag hefði hann Sævi minn átt afmæli. Í 10 ár var hann partur af minni tilveru. Ég var að vinna á skrifstofunni hjá Háskólabíó og þar var Sævi þekktur. Allir sem hafa stundað vinnu eða nám í Háskólabíó hér í den, vita hver Sævi var. Hann fór ekki framhjá neinum. Á hverjum morgni tók hann á móti mér með útbreiddan faðm og yfirleitt klappaði hann um leið og hann sá mig og kallaði "Veiga mín, elskan mín, ertu komin". Hann var sérstök sál hann Sævi. Hann bjó á sambýli við Rauðarárstíg, en kom á hverjum morgni í vinnuna með leið 3. Hann var dyntóttur og ekki alltaf auðvelt að fá hann til að vinna sín verk. Þegar hann sá mig nálgast með pósttöskuna, faldi hann sig yfirleitt bak við súlu og stundum þverneitaði hann að fara. Hann sá þó oftast að sér og endaði með að samþykkja förina. Hann var óspar á kaffið og vildi alltaf sækja það fyrir mann, en stundum væri bollinn orðinn hálfur þegar hann komst á skrifborðið. Börn voru í miklu uppáhaldi hjá Sæva og þau elskuðu hann.

Ekki veit ég hvort Sævi hefði verið ánægður með veðurfarið á afmælisdeginum, því Sævi þoldi ekki snjó. Þegar snjóaði, stormaði Sævi í símasjálfsalann í andyrinu og skipaði Guði að láta hætta að snjóa. Ég gat því ekki annað en brosað þegar mér var hugsað til hans Sæva míns, þar sem ég braust í gengum skaflana í morgun.

Eitt er víst. Ég er ríkari manneskja að hafa þekkt hann og ég mun aldrei gleyma honum. Blessuð sé minning hans.

Monday, January 16, 2006

 

Bloggfíkill + matarfíkill

Ég er bæði. Í dag er fyrsti dagurinn minn í matarátaki. Ég ætla að fara að miklu leyti eftir DDV kúrnum, en þó ekki alveg. Markmiðin eru þessi.

1. Drekka meira vatn
2. Borða morgunmat
3. Borða 3oo gr grænmeti 2x á dag
4. Hætta að borða sykur
5. Hámark 2 sneiðar af brauði á dag
6. Takmarka pasta og kartöflur þe. ekki meira en 75 gr. á dag

Átakið byrjaði kannski ekki vel, en ég læt nú ekki smá byrjunarerfiðleika setja allt úr skorðum. Þar sem ég er bloggfíkill, verð ég að sjálfsögðu með hliðarsíðu fyrir átakið. Hún verður meira á persónulegu nótunum og þar ætla ég að halda matardagbók. Ég held að það hjálpi mér mikið.

Friday, January 13, 2006

 

Allir að kjósa Telmu











Ég er aðdáandi þessarar stúlku. Mér finnst hún hafa allt til að bera til að verða Ædolstjarna. Hún er falleg, brosmild og syngur vel. Hún tekur sig mjög vel út í mynd og hljóði. Mér fyndist alger synd ef hún fengi ekki að spreyta sig í Smáralindinni.

Þess vegna hvet ég alla til að sjá og hlusta á hana í kvöld og senda inn eitt, helst tvö eða fleiri atkvæði í hennar númer.

Áfram Telma!

Tuesday, January 10, 2006

 

Brett upp ermar

Ég er ennþá að bíða eftir því að byggingaransk.verktakinn komi og klári ýmislegt smávægilegt í íbúðinni minni. Ég talaði við lögfræðing hjá Félagi Fasteignasala og fékk eftirfarandi leiðbeiningar:

1. Senda ábyrgðarbréf á byggingarverktakann og fasteignasöluna þar sem ég gef þeim ca. 3 vikur til að koma og klára atriðin sem voru talin fram í afsali. Ef þeir komi ekki innan frestsins, komi ég til með að hafa samband við iðnaðarmenn og fá tilboð í verkin.

2. Ef það gengur ekki. Fá tilboð í verkin (helst 2-3), og senda sömu aðilum annað ábyrgðarbréf, þar sem ég tiltek upphæðir á lægstu tilboðum. Gefa þeim aftur ca 3 vikur til að koma og klára, annars taki ég þessum tilboðum og verkin verði kláruð á kostnað byggingarverktaka. Ef kostnaður fer fram úr 200 þús. sem var haldið eftir, þá á ég kröfu á byggingarverktaka.

Lögfræðingurinn talaði um að það væri nauðsynlegt að ég passaði upp á að fara nákvæmlega þessa leið. Þannig væri ég með gögn ef málið endaði fyrir dómstólum.

Vona að þetta dugi, svo ég geti kannski farið að flísaleggja forstofuna hjá mér.

Sunday, January 08, 2006

 

DDV

Ég þekki tvær konur sem eru búnar að vera á DDV kúrnum síðan í nóvember. Þær standa sig báðar alveg frábærlega og fara minnkandi með hverjum deginum. Ég dáist af krafti þeirra og dugnaði og vildi óska að ég hefði þennan óbilandi viljastyrk þeirra.

Ég er nefnilega ein af þeim sem stend á þröskuldinum og þori ekki inn. Ég hef lengi verið of þung og þyrfti nauðsynlega að losna við allavega 20 kíló. Ég þori ekki að reyna, hreinlega af því að ég veit hversu lítinn sjálfsaga ég hef og er hrædd um að ég gefist upp á fyrstu viku. Ég hef nefnilega alltaf gefist upp og verið svo örg út í sjálfa mig. Ég veit að það er kjánalegt, en ég þekki sjálfa mig manna best. Þess vegna er ég að hugsa um að byrja rólega og fyrsta skrefið verður að hætta að borða sykur. Ég er nefnilega alger sykurfíkill og verð stundum óróleg ef ég fæ ekki minn skammt. Þetta finnst mér vera nóg til að byrja með og ætla að láta það duga í 2-3 vikur. Ef þetta gengur vel, er kannski auðveldara að stíga skrefið til fulls.

Friday, January 06, 2006

 

Þrettándabrenna

Ég hef verið að leita á netinu og í blöðunum að upplýsingum um þrettándabrennu í Víðidalnum. Yfirleitt hefur þetta verið heljarmikið skemmtun, álfar og tröll og fullt af hestum. Þar sem ég hef ekki fundið neinar upplýsingar, var ég að velta því fyrir mér hvort þeir væru hættir að vera með brennu hjá Fák.

Svo er náttúrulega spurning hvort það sé nokkuð veður til að hafa brennur almennt.

Monday, January 02, 2006

 

Jútú

Ég tók þá ákvörðun um áramótin að ég yrði að komast á U2 tónleika. Við virðumst vera mjög samrýmd systkinin, því þau tóku sömu ákvörðun og var því ákveðið að skella sér saman á tónleika í næsta Evróputúr hljómsveitarinnar.

Þangað til væri alveg upplagt að skella sér bara á Sálina. Ég á systur og bróður sem eru samanlagt búin að fara á næstum alla Sálartónleika sem haldnir hafa verið. Kannski ég skelli mér bara með næst. Ég kann amk. nokkuð í textunum þeirra og gæti örugglega skemmt mér vel.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?