Tuesday, September 27, 2005
3. dagur
Dagurinn byrjaði á skoðunarferð á heimili Pekka Halonen, sem er frægur finnskur málari. Síðan var farið á heimli Jeans Sibeliusar, Ainola. Fallegt hús, þar sem Sibelius samdi sín stærstu tónverk. Þaðan lá leið í lítinn sal, þar sem flutt voru þrjú af verkum Sibeliusar. Tvö verk spiluð á fiðlu og flygil, Waterdrops og Valse Triste og síðan var að sjálfsögðu endað á mögnuðum flutningi á Finnlandia. Eftir þessa stuttu en fallegu tónleika, var haldið í hádegismat. Þar sem dagskrá hafði seinkað, höfðum við nákvæmlega 45 mínútur til að raða í okkur fjögurra rétta máltíð og geri aðrir betur. Súpa (rófur og baunir), fiskur með hrísgrjónum og grænmeti/stroganoff og síðan eplakaka og kaffi. Farastjórinn okkar, hann Veesi, stóð upp á stól og stjórnaði eins og herforingi.
Að kappátinu loknu, var haldið aftur til Helsinki. Leiðin lá í hina frægu klettakirkju, þar sem átti að syngja nokkur lög. Það tókst vel og fólk streymdi inn og út. Nokkrir stoppuðu og stilltu sér upp fyrir framan kórinn og létu taka af sér mynd. Eftir tónleika var haldið beina leið niðrá höfn, þar sem stigið var um borð í ferjuna Romantica Baltica. Þar var byrjað á því að borða kvöldmat en síðan hélt hópurinn sig á diskóteki, þar sem var dansað, drukkið og að sjálfsögðu sungið.
Kvöldið endaði á því að þreyttur hópur tékkaði sig inn á glænýtt hótel í Tallinn, Hotel Schnelli.