Friday, November 23, 2007

 

Stúfur fékk skoðun

Ég fór með bílinn í skoðun í morgun. Stúfur skrölti í gegn í bókstaflegri merkingu, eitthvað skrölthljóð í honum sem líkist því mest að það sé eitthvað laust undir honum. Ég var mjög fegin, enda átti ég alveg eins von á því að fá ekki skoðun á bílinn.

Það er sonur minn sem á heiður af þessu nafni á bílnum. Hann vildi endilega gefa bílnum nafn, eftir að ég sagði honum sögur af Patta, fyrsta bílnum mínum. Sá bíll var eitthvað svo pattaralegur. Bíllinn okkar er lítill og rauður og þá fannst syni mínum aðeins eitt nafn koma til greina. Hann heitir því í höfuðið á minnsta jólasveininum. Mjög viðeigandi.

Thursday, November 22, 2007

 

Bara miðlungs dramadrottning



Þú ert miðlungssteikt dramadrottning.


Ef dramadrottningar væru hamborgarar sem fengjust á skyndibitastað
værir þú "medium". Miðlungssteiktar dramadrottningar eru konur meðalhófs. Þær eru skynsemisverur miklar, hafa sterka réttlætiskennd og vilja öllum vel. Í raun myndu flestar miðlungssteiktar dramadrottningar frekar vilja vera baunabuff en hamborgari því þá hefðu engin saklaus dýr þurft að líða fyrir samlíkinguna.

Miðlungssteiktar dramadrottningar hafa algera stjórn á dramatíska hluta heilans. Í raun verður sjaldan vart dramatískrar hegðunar hjá hinni miðlungssteiktu. Ekki einu sinni slæmur hárdagur getur raskað ró hennar.

Miðlungssteiktar dramadrottningar eru hæglátar, yfirvegaðar en fylgispakar. Þær eru trúar leiðtoga sínum sem er gjarnan léttsteikta dramadrottningin og fylgja henni oft í blindni. Þegar á reynir er hún hins vegar ekki tilbúin til að hvika frá sannfæringu sinni og á það til að vera samviska þeirrar léttsteiktu og halda henni á jörðinni.

Hversu mikil dramadrottning ert þú?

Monday, November 12, 2007

 

Kaggahljóð

Það eru sko kaggahljóð í bílnum mínum núna. Púströrið fór á laugardaginn og þar af leiðandi keyri ég um götur bæjarins með tilheyrandi hávaða. Mér finnst þessi hávaði alveg hræðilegur og ætla að láta gera við þetta sem fyrst.

Þannig að ef þið sjáið manneskju á rauðum bíl með kaggahljóðum, sem virkar hálf skömmustuleg, þá er það ég.

Wednesday, November 07, 2007

 

Fleiri hnútar

Þetta ætlar að verða einkar skemmtileg vika. Ég byrjaði á því að þurfa að fara til tannlæknis á mánudaginn, í dag er síðan ljósmyndataka og svo endar vikan á starfsmannaviðtali.

Ég þarf varla að taka það fram að mér finnst ekkert af þessu skemmtilegt.

Monday, November 05, 2007

 

Með hnút í maganum

Ég varð fyrir því óláni að brjóta upp úr jaxl um helgina. Það var því ekki um annað að ræða en hringja í tannlækninn og athuga hvort hann gæti bjargað mér. Það var lítið mál, ég fékk tíma kl. 3 í dag, eða nákvæmlega eftir hálftíma. Nú sit ég með kvíðahnút í maganum, því ég veit fátt eins skelfilegt og að fara til tannlæknis.

Þessi tannlæknafóbía hefur hrjáð mig síðan ég var krakki og er tilkomin af þremur ástæðum:
1. Ég var hjá skelfilegum tannlækni sem barn, mjög óþolinmóðum og uppstökkum. Hann átti það til að skamma mig ef ég svo mikið sem kveinkaði mér.
2. Ég datt af vegg þegar ég var rúmlega ársgömul. Við höggið raskaðist vöxtur á kjálkabeinum og ég er því með skakkan kjálka. Það veldur því að ef ég held munninum lengi opnum, þá læsist kjálkinn og ég á mjög erfitt með að loka munninum aftur (nema með braki og sársauka).
3. Ég fékk eitt sinn rótarbólgu, sem var svo slæm að það þurfti að drepa taugina. Ég neyddist til að fara til afleysingatannlæknis, sem gat með engu móti deyft mig. Ég hef aldrei upplifað eins mikinn sársauka (og hef nú samt fætt tvö börn).

Ég hef að vísu fundið mjög góðan tannlækni, sem ég þurfti að leita til í svona neyðartilfelli um árið. Hann náði að deyfa mig almennilega og var mjög snöggur að gera við.

Ég er að hugsa um að fara framvegis til hans.

 

Hrós

Ég má nú til með að hrósa Nings fyrir afgreiðsluna í gær. Ég hringdi til þeirra og sagðist vera með gjafabréf á mat fyrir 10 manns. Ég spurði hvað ég mætti panta út á þetta gjafabréf. Mér var tjáð að ég mætti panta það sem ég vildi af matseðlinum. Ég mátti svo sækja matinn eftir 20 mínútur.

Þegar ég kom, var maturinn klár og ég fékk kók í kaupbæti. Maturinn var vel útlátinn og dugði vel fyrir 11 matargesti og hefði dugað fyrir nokkra í viðbót. Sem sagt, ekkert eldað á mínu heimili í dag, og jafnvel á morgun.

Thursday, November 01, 2007

 

Ammæli

Í gær átti sonurinn afmæli. Hann varð níu ára þessi elska. Hann stækkar bara allt of hratt (eins og systir hans). Það var annar í afmæli í gær, fyrsta veislan var hjá pabba hans um síðustu helgi. Hann fékk alveg að stjórna því hvernig afmælið yrði og hann var nú bara frekar hógvær.

Hann bauð sjö vinum (og vinkonum) í leiki, pizzu, köku og svo var horft á Transformers á DVD. Nei, hún var ekki ólögleg, heldur keypti amma hana í Ameríkunni. Það er stundum gott að eiga ömmu sem getur verslað afmælisgjafir í útlöndum. Krakkarnir voru stilltir og kurteisir en óneitanlega fylgir smá hávaði þegar krakkar á þessum aldri koma saman. Sonurinn var sæll og glaður með afmælið og sofnaði sáttur í gærkvöldi.

Á sunnudaginn verður svo líklega þriðji í afmæli, en þá ætlar nánasta fjölskylda að mæta í kínaveislu. Þá verður leystur út vinningurinn frá Nings sem ég vann í sumar. Mér hefur að vísu verið bent á að ef þessi vinningur er jafn "glæsilegur" og utanlandsferðin, þá verða þetta sjálfsagt bara grjón og sojasósa.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?