Monday, December 29, 2008

 

Þar höfum við það, part 2

Í apríl árið 2005, þegar ég var orðin fráskilin og einhleyp, tók ég próf þar sem ég átti að finna út hvernig týpu af karlmanni ég ætti að leita eftir. Ég fann þetta þegar ég var í letikasti yfir jólin og fór að lesa mig í gegnum gömul blogg og gat ekki annað en brosað. Það mætti halda að ég hafi haft þetta til hliðsjónar við val á nýjum kærasta. Þetta var sem sagt niðurstaðan:

Intellectual - You seek out intelligence. Idle chit-chat is not what you are after. You prefer your date who can stimulate your mind.
Adventurous - You are looking for someone who is willing to try new things and experience life to its fullest. You need a companion who encourages you to take risks and do exciting things.
Practical - You are drawn to people who are sensible and smart. Flashy, materialistic people turn you off. You appreciate the simpler side of living.

Tuesday, December 23, 2008

 

Jólakveðja

Jæja, þá eru víst jólin alveg að fara að bresta á, enn eitt árið. Það er alveg merkilegt að þegar maður eldist, er eins og jólin séu nýbúin þegar þau skella á aftur. Ástandið í ár er nú ekki svo slæmt. Það er búið að kaupa allar jólagjafir, skrifa jólakort og baka. Það á í raun bara eftir að þrífa og skreyta.

Ekki svo slæmt.

Þar sem það gefst víst lítill tími til að skrifa, þegar maður er með skúringartuskuna í einari, þá ætla ég bara að kasta á ykkur jólakveðju og vona að þið hafið það gott yfir hátíðarnar.

Gleðileg jól!


Friday, December 12, 2008

 

Að segja sannleikann

Ég var ósköp tvístígandi í gær. Í gær var nefnilega fyrsti í "skóútígluggann" og ég gat bara ekki ákveðið hvort ég ætti að segja syni mínum sannleikann, eða ekki. Ég velti þessu máli fyrir mér frá öllum hliðum. Hann er orðinn tíu ára og kannski kominn tími til að þess að hann vissi hver setti í skóinn. Ég var rög við að eyðileggja þessa stemmningu fyrir honum, en hafði að sama skapi áhyggjur af því að hann myndi verða fyrir aðkasti í skólanum. Hann er svo saklaus þessi elska og trúgjarn, en líka mjög viðkvæmur. Ég var því eiginlega búin að ákveða að segja þetta við hann "Sko ég veit ekkert um það hvort jólasveinninn sé til eða ekki, en ég set í skóinn"

En svo þegar hann kom til mín, fullur eftirvæntingar og var að spá í hvaða skó hann ætti að setja út í gluggann, féllust mér hendur. Ég bara fékk mig ekki til þess að segja neitt.

Þannig að málið er ennþá í biðstöðu og verður endurskoðað í dag.

Wednesday, December 10, 2008

 

Brjálað að gera

Desember virðist ætla að vera mánuður, þar sem mikið er að gera í vinnunni. Það hentar ekki vel, þar sem ég vil hafa Desember rólegan og geta notið þess að undirbúa jólin. Það er kannski ástæðan fyrir því að ég er ekki komin í jólaskap. Ég er bara of stressuð.

Ég er svo sem búin að skipuleggja ýmislegt í kollinum, sem snýr að jólunum. Ég þarf bara að finna tíma til að framkvæma skipuleggingarnar.

Á einhver auka klukkustundir aflögu??

Monday, December 01, 2008

 

Jóla-hvað!

Í dag eiga að vera 23 dagar til jóla. Það er ekki farið að örla á jólaskapi hjá mér. Ekki ögn. Ég hafði mig í það að setja upp jólaljós í gærkvöldi, hálf frosin og bölvaði þessu bara í sand og ösku. Fann aðventukransinn og kerti í hann, en gleymdi svo að kveikja á fyrsta kertinu. OG í dag er 1.desember og ég er ekki búin að græja dagatalið fyrir soninn. Þegar jólalögin hljóma í útvarpinu, slekk ég hreinlega á þeim. Ekki einu sinni reyna að minnast á jólagjafirnar við mig, nú eða smákökubakstur og jólahreingerningar. Ég verð bara pirruð.

Á þessum tíma hef ég yfirleitt verið sönglandi jólalög og farin að skipuleggja allt viðkomandi jólunum. Ég held bara að það sé ekki í lagi með mig í ár. Vill einhver senda mér smá jólaskap....plíííísss.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?