Sunday, April 29, 2007

 

Ef ég ætti eina ósk

Þá væri hún að það fyndist lækning við krabbameini. Það er bara allt of mikið af ungu fólki sem greinist með og deyr úr þessum hræðilega sjúkdóm. Ég sjálf er dauðhrædd við þennan sjúkdóm, enda dó pabbi minn úr honum aðeins 46 ára gamall. Amma mín er með sömu tegund af krabbameini og pabbi minn dó úr, þannig að þessi skratti virðist vera ættgengur.

Það sem er svo hræðilegt við krabbamein, er að það virðist ekki vera nein vörn við því. Það geta allir fengið krabbamein, frá ungum börnum upp í gamalmenni. Ég fylgist reglulega með bloggi tveggja ungra kvenna sem berjast við krabbamein. Þetta eru hetjur í mínum augum og ég dáist af krafti þeirra og jákvæðni.

Friday, April 27, 2007

 

Skólahreysti

Það var stórkostleg stemmning í Höllinni þegar Lindaskóli burstaði Skólahreysti 2007. Ég horfði að sjálfsögðu á krakkana "mína" í beinni útsendingu á Skjá 1. Spennan var svo mikil fyrir hraðabrautina að ég varð að fara inn í eldhús og pússa keramikhelluborðið til að fá útrás. Já, ég leyfi mér að kalla þessa krakka "mína", því hún dóttir mín er búin að vera í þessum skóla frá því í fyrsta bekk og ég því búin að þekkja tvo af keppendunum í mörg ár.

Til hamingju Fríða, Gummi, Rakel og Haraldur. Þið eruð langflottust.

Wednesday, April 11, 2007

 

41 árs

Jú, mikil ósköp, maður á víst afmæli í dag. Ég er að hugsa um að vera bara 40plús í nokkur ár. Vaknaði í morgun og var fremur þungbúin yfir því að vera orðin árinu eldri. Það lagaðist fljótlega eftir að ég mætti í vinnuna og afmæliskveðjum fór að rigna inn. Það var bara fullt af fólki sem mundi eftir afmælinu mínu. Mér hlýnaði hreinlega um hjartarætur og leið strax miklu betur.

Sonur minn var strax á því að við ættum að halda partí. Móðir hans var ekki alveg til í það en sættist á að fara út að borða og leigja DVD. Ég tek það fram að "útaðborða" í hans huga er að fara á Fridays eða Ruby Tuesday.

Ég held bara að þetta verði góður afmælisdagur.

Tuesday, April 03, 2007

 

Draumar

Suma morgna verð ég bara hreinlega að "snúsa" vekjaraklukkuna mína og halda áfram að dreyma. Það er þegar ég er í miðju verkefni í draumnum og þar sem ég er vel upp alin vil ég að sjálfsögðu klára verkefnið.

Það var einmitt þannig draumur, sem mig dreymdi í morgun. Ég þurfti að finna mömmu á ættarmótinu, af því að það var síminn til hennar. Ég var sem sagt stödd á ættarmóti, á Broadway og þurfti að finna mömmu til að hún gæti staðfest það við lögregluna að ég væri sú sem ég segðist vera. Ég var með fullt af gömlum námsbókum í poka, sem ég ætlaði svo að skipta á skiptibókamarkaðinum (sem var einhverra hluta á ættarmótinu á Broadway), áður en það lokaði hjá þeim.

Stundum eru draumar alger steypa. Af hverju var mig að dreyma svona rugl.

Sunday, April 01, 2007

 

Kattarmál

Stundum vildi ég óska þess að ég kynni að tala kattarmál. Þá gæti ég sagt hluti eins og:

"Nei, þú færð ekki að fara út núna. Það er komin nótt"
"Það er bannað að setja hluti í niðurfallið á sturtunni"
"Hættu að brýna klærnar á mottunni"

Og lífið væri almennt miklu auðveldara.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?