Monday, February 28, 2005

 

Reykir

Dóttirin kvaddi mig með vandræðalegum kossi í morgun og lagði af stað í ferðalag. Hún er að fara á Reyki í Hrútafirði og verður þar fram á föstudag. Það var mikið stress í gangi í morgun, þegar hún var að fara yfir farangur og athuga hvort allt væri ekki örugglega með. Ég sagði henni að ef hún væri með auka nærbuxur og sokka og tannburstann sinn, þá væri hún í góðum málum.;)

Ég er mjög hrifin af þessari ferð og held að krakkarnir hafi bæði gagn og gaman af henni. Þau læra heilmikið og þurfa að standa í eigin lappir. Ég heyri vonandi sem minnst í henni, því engar fréttir eru víst góðar fréttir.

Thursday, February 24, 2005

 

Eftirlitsferð

Ég fór í reglubundið eftirlit upp í nýju íbúðina í gær. Hún er bara á góðri leið, búið að sparlsa, pússa og byrjað að mála. Ég er bara bjartsýn á að afhendingartími verði á réttum tíma. Ég var soldið fúl yfir að hafa gleymt málbandi, því mig vantar málin af gluggunum fyrir gardínur.

Annars á litla systir afmæli í dag. Hún er bara að verða 28 ára daman. Í tilefni þess ætla ég að senda henni kveðju. "Til hamingju með afmælið, elsku dúllan mín. Lífið væri ansi litlaust án þín"

Monday, February 21, 2005

 

Fimleikar

Á laugardaginn var haldið unglingameistaramót í hópfimleikum í Keflavík. Dóttirin var þar að keppa í annað sinn í svokölluðum miðhóp. Ég var að sjálfsögðu mjög stolt af dóttur minni, þó hún hafi ekki verið jafn ánægð með sína frammistöðu. Hún vill alltaf hafa allt fullkomið sem getur stundum verið erfitt.

Mér finnst alltaf gaman að horfa á fimleika og alveg ótrúlegt hvað sumar stelpurnar eru færar. Keppnisreglurnar eru samt alltaf að flækjast fyrir mér og það er eins og þær breytist með vindáttinni. Það er alltaf verið að setja nýjar reglur um aldurskiptingu í hópana. Inn á vefsíðu FSÍ stendur skýrum stöfum að miðhópur eigi að vera á aldursbilinu 14-16 ára, en á laugardaginn var mér sagt að miðhópur væri 13-18 ára og þar að auki mættu 25% keppenda í hópnum vera yfir þeim aldri. Það var því ekki nema von að tólf ára dóttir mín virkaði eins og peð við hliðina á þessum fullvöxnu konum.

Mér finnst bara verið að gera einfalt mál mjög flókið. Kannski að ég sendi póst til FSÍ og gagnrýni reglurnar. Vera soldið leiðinleg og röfla.

Thursday, February 17, 2005

 

Soldið stressuð

Ég á að halda smá fyrirlestur í kvöld um nýtt forvarnarverkefni sem við erum að fara í gang með í skólanum. Ég er ekki vön að tala fyrir framan fólk, svo það er ekki laust við að ég finni fyrir fiðringi í maganum. Ég veit að ég lifi þetta alveg af, en ég verð líka mjög glöð þegar þetta er búið.

 

Almáttugur !!!

Ég var að gera mér grein fyrir því að það eru bara fimm vikur þangað til að ég fæ nýju íbúðina afhenta. Mér fannst ég hafa svo mikinn tíma og núna nálgast þetta óðfluga. Kassar eru út um allt og ég á eftir að ganga frá svo mörgu.

Ég stressuð, hvurnig dettur þér það í hug.

Tuesday, February 15, 2005

 

Bara í dag

-ætla ég að brosa til þín þegar augu okkar mætast og hlæja þegar mig langar
frekar að gráta..

-ætla ég að leyfa þér að vakna mjúklega, vafinn inn í sængina þína, og halda á þér
í fanginu þar til þú ert tilbúinn fyrir nýjan dag...

-ætla ég að leyfa þér að velja hvaða föt þú ferð í, brosa og hrósa þér fyrir
"fullkomna" litasamsetningu...

-ætla ég að gleyma óhreina tauinu og fara frekar með þér út á leikvöll...

-ætla ég að geyma óhreinu diskana í vaskinum og hjálpa þér að leysa nýja púsluspilið þitt...

-ætla ég að slökkva á símanum og tölvunni og fara með þér út að blása sápukúlur...

-ætla ég að bjóða þér upp á ís í innkaupaferðinni, í stað þess að byrsta mig um leið og þú ferð að suða um hann...

-ætla ég að leyfa þér að baka með mér bollur og ekki hnoða þær allar aftur þegar þú sérð ekki til...

Bara í kvöld....
-ætla ég að halda á þér í fanginu og segja þér frá deginum þegar þú fæddist og
hvers vegna mér þykir svona vænt um þig...

-ætla ég að leyfa þér að busla og skvetta í baðinu og ekki verða reið út af vatninu á gólfinu...

-ætla ég að leyfa þér að vaka lengi og skoða stjörnurnar á himninum...

-ætla ég að kúra hjá þér eins lengi og þú vilt, þó að ég missi þá af
uppáhaldsþættinum mínum...

-ætla ég að dást að þér og vera þakklát fyrir að eiga gersemi eins og þig.

Ég hugsa til mæðra sem hafa misst börn sín vegna veikinda eða slysa og mæðra sem dvelja á sjúkrahúsum með börnum sínum og berjast fyrir lífi þeirra. Ég er svo heppin að eiga þig og bið ekki um neitt........nema annan dag með þér...

Wednesday, February 09, 2005

 

Veikindi

Flensufaraldur hefur geysað á heimilinu. Dóttirin lá veik alla síðustu viku og í gærkvöldi veiktist sonurinn. Hann rauk upp í hita og kvartaði um verki í líkamanum. Sonurinn er að vísu nokkuð sérstakur sjúklingur. Því veikari sem hann verður, því ofvirkari verður hann. Þar af leiðandi vorum við vakandi í nótt, hann með 40 stiga hita og með orku á við þrjá.

Hann er náttúrulega svekktur yfir því að vera veikur á sjálfan Öskudaginn. Amma búin að gefa honum Ninjabúining og allt klárt fyrir ballið. Ég verð einhvern veginn að bæta honum þetta.

Monday, February 07, 2005

 

Vanstillt

Ég þarf eitthvað að læra að stilla þetta útvarp í hausnum á mér. Í allan morgun hefur hljómað lagið "Ó pabbi komdu heim um jólin" og ég bara get ekki losnað við það.

Wednesday, February 02, 2005

 

Það hljómar hvar sem ég fer

Ég er með innbyggt útvarpstæki í hausnum. Þetta kemur sér mjög vel þegar maður þarf að æfa lög fyrir kórinn. Ég get sem sagt verið að sinna minni vinnu og á meðan hljóma lögin sem við erum að æfa og ég fer yfir mína rödd. Í dag hljómar td. í hausnum á mér "Einum unni ég manninum".

Annars er það helst í fréttum að ég er búin að láta laga ljósin á bílnum. Það kom í ljós að það var eitthvað öryggi farið, svo þar fuku 15 þús. krónur. Einnig er ég búin að velja innréttingar í nýja eldhúsið mitt og munu þær verða í mahogny. Dóttirin er á fjórða veikindadeginum, en er og þrjósk ætlar í samræmt próf á morgun. Hún er svo ofur-samviskusöm greyið. Getur varla borðað og er með stöðugan hausverk, en ÆTLAR í prófin. Það finnst mér nú soldið to much.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?