Thursday, September 30, 2004

 

Beinn og breiður vegur

Á hverjum morgni þarf ég að taka ákvörðun. Á ég að fara hægförnu, skynsamlegu leiðina eða á ég að taka áhættuleiðina. Já, ég er enn og aftur að tala um umferðina. Fyndið hvað fólk talar um umferðina, ef það hefur ekkert annað að tala um. Ég neita nefnilega alfarið að tala um veðrið.

ANYWAY. Það eru tvær aksturleiðir í vinnuna mína. Önnur leiðin liggur um Smárann og svo Kringlumýrarbrautina. Hún er hægfara og nokkuð safe. Á hinni leiðinni verður á vegi manns stór og myndarleg lykkja eða slaufa. Þar eru fleiri akreinar og það þýðir lítið að vera sofandi á þeim vegi. Undanfarið hef ég fundið fyrir því að í minni skynsömu sál, býr daredevil. Ég hreinlega fæ kikk út úr því að taka áhættusömu leiðina. Það er kannski eins gott að fjárhættuspil eru ekki leyfð á Íslandi. Ég yrði gjaldþrota á einu kvöldi.

Monday, September 27, 2004

 

Kisa er dýr

Þessa dagana er ég í fasteignahugleiðingum. Ég er að leita mér að 4 herbergja íbúð í Lindahverfi, ef einhver á slíkt á lausu.

Þetta er ekki svo auðvelt viðfangsefni. Þar sem einn af fjölskyldumeðlimunum er kisa, verð ég að kaupa íbúð þar sem kisa kemst inn og út að vild. Það takmarkar mig við jarðhæð eða lága 1.hæð. En það er ekki allt og sumt. Samkvæmt lögum er bannað að vera með kött í fjölbýlishúsum og verður að fást undanþága frá íbúðum blokkarinnar, ef það á að ganga. Samt þarf ekki nema að einn nýr flytji í blokkina, sem getur krafist þess að ég losi mig við kisu. Með þetta í huga er ég í klípu. Ég get keypt mér íbúð í blokk á 18 milj., eða borgað 19.5 milj. fyrir sérhæð í húsi, þar sem kisa er víst öllu óhultari. Fasteignasalanum mínum finnst þetta vera orðin heldur dýr kisa.

Friday, September 24, 2004

 

Tvær valíum takk

Ég á tvö börn. Dóttirin, unglingurinn, er tólf ára. Hún er á þessum viðkvæma aldri gelgjunnar, þar sem minnsta orð getur komið af stað reiði, sárindum, tárum og bara öllum skalanum. Sonurinn, prakkarinn, er sex ára. Hann er á þessum aldri þar sem hann heldur að hann geti sigrað heiminn. Hann er uppátækjasamur, stríðinn og hefur orku á við stóra spennustöð. Þessi tvö saman, eru eins og olía og eldur.

Í gær var farið í skóleiðangur. Ég þurfti að kaupa skó á þau bæði. Ég ætlaði að vera rosalega fljót að þessu og taka þau bæði með mér. Það voru mikil mistök. "Ég vil strigaskó með blikkljósum", sagði sonurinn. Þegar ég reyndi að segja honum að hann væri of gamall fyrir þannig skó, var hann þotinn. "Oj, ég kaupi sko ekki skó í Hagkaup, þeir eru hallærislegir", fékk ég frá dótturinni og svo var hún rokin í burtu. Þarna stóð ég í skódeildinni, með skó í höndunum, en ekkert barn til að máta. Ég held ég geti með sanni sagt að ég hafi aldrei þurft eins mikið á róandi lyfjum að halda. Ég fann hvernig taugaáfallið var að hellast yfir mig. EN ég var ekki ráðalaus. Eins og venjulega var eina ráðið að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði. Ég fór bara að skoða mig um í rólegheitunum og viti menn, þau sneru bæði til baka. Sonurinn samþykkti ódýrari skó, með hreyfanlegri fótboltamynd og dóttirinn samþykkti að fara sjálf í Smáralindina í dag, jafnvel með vinkonur til ráðgjafar. Þær hafa líka miklu meira vit á skóm heldur en mömmur.

Thursday, September 23, 2004

 

Vanmetinn eiginmaður

Það eru ekki liðnar tvær vikur frá því að maðurinn minn flutti út og nú þegar eru konurnar víst farnar að slást um hann. Ég hef greinilega ekkert áttað mig á því hvers konar dýrgrip ég var með í höndunum.

Mér finnst þetta nú ekki vera meðmæli með kvennfólki. Aldrei myndi ég ganga að karlmanni og bjóða honum að ég skyldi fara frá eiginmanninum, ef hann væri tilbúinn að taka við mér. Eða bjóða nýfráskildum manni, húsnæði með hlunnindum. Eru þessar konur að sýna sjálfstæði og frumkvæði, eða eru konur bara svona desperat að ná sér í kall. Snýst lífið kannski bara um það að eiga kall og þær sem eiga engan eru bara worthless.

Þeir sem hafa áhuga á eiginmanninum mínum geta sem sagt tekið númer og farið í röð, ef þær vilja.

 

Móðgun

Ja hérna hér. Ég er bara farin að móðga fólk á blogginu mínu. Fyrst móðgaði ég dóttur mína og núna er ég farin að móðga kennara.

Ég held nú samt að ég fari ekkert að ritskoða það sem ég skrifa. Ég er og verð hóflega hreinskilin og þannig verður það bara að vera.

Wednesday, September 22, 2004

 

Heima í verkfalli

Ég gafst upp á því að reyna að láta dóttur mína passa. Sonur minn er allt annað en auðveldur og hefur reynst hinum færustu barnapíum hin erfiðasta skapraun. Eftir að hafa reynt að stilla til friðar í gegnum síma í 20 mínútur, varð ég að viðurkenna ósigur.

Nú er maður sem sagt neyddur til að vera heima og eyða þessum 6 sumarfrísdögum sem eftir eru. Sorry, kennarar fá bara enga samúð frá mér. Við hin ættum bara að fara í verkfall þegar þeir eru komnir úr verkfalli. Þá gætu þeir ekki keypt bensín, verslað mat eða gert nokkuð skemmtilegt. Við skulum sjá hvernig þeim líkar við það að vera í þessari aðstöðu. Lets give them a taste of their own medicine.

Monday, September 20, 2004

 

Kennaraverkfall

Kennarar fá nú ekki mikla samúð frá mér. Ég er orðin svo þreytt á þessu voli í þeim. Ég get ekki séð að þeir hafi það nokkuð verr en margir í svipaðri stöðu. Það er heldur ekki okkur að kenna að þeir hafi samið svona illa síðast.

Ég er rosalega vond mammma á meðan verkfallið stendur yfir. Ég hreinlega skikka dóttur mína til að passa bróður sinn. Svona hafa tímarnir breyst. Ekki datt manni í hug að kvarta yfir því að vera látin passa. Það hvarflaði líka ekki að manni að fá borgun fyrir þessa vinnu. Ætli næsta skref sé ekki að hún fari í verkfall??

Sunday, September 19, 2004

 

Cry me a river

Eins og margar geðheilbrigðar konur vita, er stundum gott að gráta til að losa um uppsafnaða spennu. Ég hef gegnið í gegnum ýmislegt álag undanfarið og fannst orðin brýn þörf á að skella á eins og einni góðri flóðbyglju.

Oft er gott að horfa á einhverja bíómynd til að losa um stífluna. Ég hafði lengi heyrt að bíómyndin "Monster" væri mögnuð og ákvað því að leigja hana í gærkvöldi. Ég sat svo tilbúin með tissjúin, en ekkert gerðist. Ég horfði á Charlize Theron, plaffa niður saklausa karlmenn hægri og vinstri og lýsa sinni ömurlegu ævi, en ekki einu sinni eitt tár lét sjá sig. Ég var eiginlega bara orðin þreytt á þessu væli og drápum og langaði bara að hraðspóla myndina áfram.

Nú jæja, ekki átti að gefast upp. Næst var sett í gang mynd, sem ég hef heyrt og lesið að valdi þvílíkum fossum, að varla sé hægt að stöðva táraflóðið. Þessi mynd heitir "The Notebook". Ég setti mig aftur í stellingar og horfði á þessa annars ágætu mynd, en ekkert gerðist. Mér vöknaði aðeins um hvarma svona rétt í lokin, en stíflan var langt frá því að bresta.

Nú er mín bara farin að panikka. Er ég komin með steinhjarta og ekki fær um að gráta lengur. Hvað á ég þá að gera til að losa um þessa stíflu. Æ kannski ég reyni bara hina leiðina og fái mér góðan.....göngutúr.

Thursday, September 16, 2004

 

In memorian

Það eru nákvæmlega 13 ár síðan pabbi minn dó. Hann var bara 46 ára þegar hann lést úr krabbameini, eftir harða baráttu. Ég var hjá honum þegar hann dó og hélt í hendina á honum. Ég hef alltaf verið stolt af því, þar sem ég trúi því að það auðveldi fólki dauðann.

Pabbi minn var hress og skemmtilegur kall. Hann var þessi týpa sem aldrei verður fullorðinn. Hann var gamall rokkari og var í hljómsveit á bítlaárunum. Hann óx eiginlega aldrei upp úr þeirri ímynd og var td. oft í leðurjakka og gallabuxum og fór meira að segja í ljós. Bestu minningarnar sem ég á af honum, er þegar við fengum okkur smá söngvatn í glas og hann tók upp gítarinn og spilaði gamla slagara. Þá fílaði ég mig eins og grúppíu, sitjandi hrifin og stolt. Hann var miklu meira kúl pabbi en hinar stelpurnar áttu og ég var rosalega stolt af honum, sérstaklega þegar ég var á hinum erfiðu unglingsárum. Kannski hefði ég séð hann í öðru ljósi ef hann væri enn á lífi og ég orðin meira þroskuð. Hann hefði allavega orðið frábær afi, það efast ég ekki um.

Ég man eftir einu skipti þegar við vinkonurnar hittum pabba á Hlemmi. Ég hef verið um 15 ára gömul:

Pabbi: Hæ, hvað segirðu gott
Ég: Allt fínt
Pabbi: Er eitthvað nýtt að frétta?
Ég: Nei, ekkert sérstakt
Pabbi: Þú ert ekkert að fara að gifta þig eða neitt þannig?
Ég (rauð í framan): Nauts
Pabbi: Ertu hætt að reykja?
Ég: Neibb
Pabbi: Æ það er svo óholt að reykja, þú átt frekar bara að fá þér í glas.
Ég (orðlaus)
Nokkrir pönkrarar gengu framhjá í fullum herklæðum.
Pabbi: Vá ef ég væri ungur í dag, væri ég örugglega pönkari. Það virkar svo kúl.
Svo kvöddumst við og hann fór. Eftir stóðu vinkonurnar mjög hissa á svipinn, þangað til ein þeirra stamaði "Vá var þetta pabbi þinn, rosalega ertu heppin, hann er svo kúl". "Já ég veit" var það eina sem kom frá mér með stolt bros.

Monday, September 13, 2004

 

Alltaf jafn heppin

Ég gerðist hárgreiðslukona um helgina. Dóttir mín vildi láta setja í sig dökkt skol og ég treysti náttúrulega engum betur í það en sjálfri mér. Ég lét hana setjast á stól inni á baði og svo hófst litunin. Ég las leiðbeiningar í bak og fyrir og setti á mig hanska. Þegar ég byrjaði svo að smyrja litnum í hárið, fann ég að þetta yrði ill framkvæmanlegt með þessa illa hönnuðu hanska. Í fljótfærni, tók ég af mér hanskana og hélt áfram. Ég náði að smyrja þessu jafn og þétt í hárið og tókst bara nokkuð vel. Þegar verkinu var lokið og ég nokkuð ánægð með árangurinn, ætlaði ég að þrífa á mér hendurnar. EN það tókst illa. Hendurnar á mér voru orðnar jafn dökkar og skolið, og líka mjög jafnt litaðar.

Nú voru góð ráð dýr. Fyrst reyndi ég hreinsikrem, svo terpentínu, svo Vanish þvottagel, svo Biotex, svo tvær umferðir af klór, svo naglalakksleysir og að lokum þrjár umferðir af skrúbbkremi. EN hendurnar mínar voru brúnar og verða brúnar. Ég held að það sé spurningin um að ganga með hendur í vösum í nokkra daga. Skolið á að nást af eftir 24 þvotta eða 6 vikur ; )

Friday, September 10, 2004

 

Í fréttum er þetta helst

Í haust kvaddi okkur fótalipur starfsmaður sem svaraði nafninu Maja. Hún var (og er) með eindæmum bóngóð og greiðvikin ung stúlka. Við hin höfum eiginlega aldrei jafnað okkur eftir brotthvarf hennar og þyrstir stöðugt í fréttir af henni. Á kaffistofunni má heyra spurningar eins og "Hvað er að frétta af Maju" og "Veistu hvort Maja er búin að kaupa", ganga á milli manna.

EN í kvöld veður heldur betur bætt úr því. Þá skal haldin matarveisla og umrædd Maja mun mæta á svæðið. Hún mun því sitja fyrir svörum og leysa úr spurningum sem hvílt hafa á okkur hinum. Spennan stigmagnast eftir því sem líður á daginn og spurning hvort maður komi miklu í verk í dag.

Wednesday, September 08, 2004

 

Útmáluð

Ég er fremur þreytt í vinnunni í dag. Í gær réðst ég á síðasta vígið, sjónvarpsherbergið, með pensil í hönd. Ég sparslaði, skar og rúllaði af mikilli atorku, en um miðnætti var ég algerlega búin. Ég náði að klára eina umferð, svo núna er verkið hálfnað. Við ákváðum að notast við afganga í þetta herbergi, svo við tókum nokkrar málningadollur og helltum saman í eina. Útkoman var nokkuð áhugaverð og hugsa ég að við höfum með þessu, fundið upp nýjan lit.

Annars er ég ein af þeim sem er fremur subbulegur málari. Ég er örugglega sú eina á höfuðborgarsvæðinu sem mætti í vinnu í morgun, með málningarslettur á ökkla, rist og tá. Geri aðrir betur.

Monday, September 06, 2004

 

Mánudagur

Suma morgna fíla ég mig eins og James Bond í umferðinni. Ég krúsa milli akreina eins og ég viti fyrirfram hvernig umferðin hagi sér. Allt gengur smurt og ég get ekið nokkuð greitt miðað við aðstæður. Það liggur við að ég heyri lagið "dundurururundu dundu dundurururundu dundu duru d u r u ru".

Annars held ég að ég gæti aldrei orðið málarameistari. Eftir málningavinnu undanfarna daga er ég reiðubúin að leggja pensilinn á hilluna. Mér finnst þetta bara svo leiðinlegt. EN það er ennþá eftir eitt herbergi svo það dugar ekkert annað en að bretta upp ermar. Það getur svo sem verið að þessi vinna sé ekkert frábrugðin annari vinnu. Það þarf að skipuleggja, ráðast í verkið og dást að útkomu, rétt eins og td. bara í bókhaldi. Eða hvað?

Friday, September 03, 2004

 

Pípari óskast

Pípulagningarmaður óskast til að kíkja á lekanda í húsinu mínu. Þarf að þjást af starfsgleði og vilja helst ekki fá borgun (nema þá kannski kaffi og meðlæti).

Ég er að gefast upp á þessu lekavandamáli í svefnherberginu. Þegar eitt er lagað kemur bara annað upp á öðrum stað. Ég held að það séu púkar í veggjunum hjá mér.

 

Það er leikur að læra

Sonur minn er nýbyrjaður í fyrsta bekk. Fyrstu dagarnir voru rosalega spennandi og ekkert mál að vakna og koma sér á fætur. EN Adam var ekki lengi í paradís. Það er ekki liðinn mánuður og minn maður er strax farinn að kvarta. "Maður fær bara ekkert að vera frjáls í þessum skóla, maður á að sita kyrr og hlusta á hvað kennarinn er að segja. Svo eru stóru krakkarnir að stríða manni í útivist." Það er líka ekki eins auðvelt að vakna á morgnana "Ég er þreyttur, ég nenni ekki í skólann" er strax farið að heyrast og "Ohh þarf ég að vakna svona snemma".

Það toppaði nú samt allt saman í morgun þegar minn maður sagði "Mamma, það er bara eitt leiðinlegt við skólann"..."Það er að þurfa að læra".

Thursday, September 02, 2004

 

Morgunumferð

Ég þoli ekki umferðina á morgnana. Þessi hæggenga, freka umferð, þar sem allir troðast og pirrast og stressast. Það er hálfgert "survival of the fittest" í gangi og enginn ætlar að gefa sig og vera liðlegur. Ég held svei mér að ég hafi ekki séð marga góðlega og greiðvirkna ökumenn, svona í morgunsárið. Ég er nú enginn engill heldur, því ég verð líka bölsótandipirruð og skammast og rífst hástöfum í takt við útvarpið. Svo horfir maður á marga kílómetra að kyrrstæðum bílum sem rétt silast áfram. Minnir mig á atriðið úr "Office Space" þar sem maðurinn með göngugrindina tekur fram úr öllum aulunum, sem sitja fastir í umferðinni.

Annars held ég að best væri að setja í gang áætlun um byggingu neðanjarðarlestakerfið í Reykjavík. Held að það sé ekki spurning að svoleiðis nokk myndi borga sig upp "in the long run". Hvað finnst Þér?

Wednesday, September 01, 2004

 

Harkan sex

Ég er búin að vera fremur framlág síðan á mánudagskvöldið. Svefninn hefur verið minn helsti vinur og svo að drattast um með eymdarsvip. EN ekki lengur. Nú skal lífið tekið á hörkunni og brett upp ermar og svo framvegis. Nú dugar ekki að vera með neinn aumingjaskap (eins og afi myndi kalla það)og skal því snúið aftur til raunveruleikans á morgun.

Þangað til verð ég uppí rúmi að skipuleggja bardaga morgundagsins. Kannski ég leggi mig bara soldið til að safna orku. Life is a bitch and then you die.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?