Friday, September 24, 2004

 

Tvær valíum takk

Ég á tvö börn. Dóttirin, unglingurinn, er tólf ára. Hún er á þessum viðkvæma aldri gelgjunnar, þar sem minnsta orð getur komið af stað reiði, sárindum, tárum og bara öllum skalanum. Sonurinn, prakkarinn, er sex ára. Hann er á þessum aldri þar sem hann heldur að hann geti sigrað heiminn. Hann er uppátækjasamur, stríðinn og hefur orku á við stóra spennustöð. Þessi tvö saman, eru eins og olía og eldur.

Í gær var farið í skóleiðangur. Ég þurfti að kaupa skó á þau bæði. Ég ætlaði að vera rosalega fljót að þessu og taka þau bæði með mér. Það voru mikil mistök. "Ég vil strigaskó með blikkljósum", sagði sonurinn. Þegar ég reyndi að segja honum að hann væri of gamall fyrir þannig skó, var hann þotinn. "Oj, ég kaupi sko ekki skó í Hagkaup, þeir eru hallærislegir", fékk ég frá dótturinni og svo var hún rokin í burtu. Þarna stóð ég í skódeildinni, með skó í höndunum, en ekkert barn til að máta. Ég held ég geti með sanni sagt að ég hafi aldrei þurft eins mikið á róandi lyfjum að halda. Ég fann hvernig taugaáfallið var að hellast yfir mig. EN ég var ekki ráðalaus. Eins og venjulega var eina ráðið að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði. Ég fór bara að skoða mig um í rólegheitunum og viti menn, þau sneru bæði til baka. Sonurinn samþykkti ódýrari skó, með hreyfanlegri fótboltamynd og dóttirinn samþykkti að fara sjálf í Smáralindina í dag, jafnvel með vinkonur til ráðgjafar. Þær hafa líka miklu meira vit á skóm heldur en mömmur.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?