Thursday, September 16, 2004

 

In memorian

Það eru nákvæmlega 13 ár síðan pabbi minn dó. Hann var bara 46 ára þegar hann lést úr krabbameini, eftir harða baráttu. Ég var hjá honum þegar hann dó og hélt í hendina á honum. Ég hef alltaf verið stolt af því, þar sem ég trúi því að það auðveldi fólki dauðann.

Pabbi minn var hress og skemmtilegur kall. Hann var þessi týpa sem aldrei verður fullorðinn. Hann var gamall rokkari og var í hljómsveit á bítlaárunum. Hann óx eiginlega aldrei upp úr þeirri ímynd og var td. oft í leðurjakka og gallabuxum og fór meira að segja í ljós. Bestu minningarnar sem ég á af honum, er þegar við fengum okkur smá söngvatn í glas og hann tók upp gítarinn og spilaði gamla slagara. Þá fílaði ég mig eins og grúppíu, sitjandi hrifin og stolt. Hann var miklu meira kúl pabbi en hinar stelpurnar áttu og ég var rosalega stolt af honum, sérstaklega þegar ég var á hinum erfiðu unglingsárum. Kannski hefði ég séð hann í öðru ljósi ef hann væri enn á lífi og ég orðin meira þroskuð. Hann hefði allavega orðið frábær afi, það efast ég ekki um.

Ég man eftir einu skipti þegar við vinkonurnar hittum pabba á Hlemmi. Ég hef verið um 15 ára gömul:

Pabbi: Hæ, hvað segirðu gott
Ég: Allt fínt
Pabbi: Er eitthvað nýtt að frétta?
Ég: Nei, ekkert sérstakt
Pabbi: Þú ert ekkert að fara að gifta þig eða neitt þannig?
Ég (rauð í framan): Nauts
Pabbi: Ertu hætt að reykja?
Ég: Neibb
Pabbi: Æ það er svo óholt að reykja, þú átt frekar bara að fá þér í glas.
Ég (orðlaus)
Nokkrir pönkrarar gengu framhjá í fullum herklæðum.
Pabbi: Vá ef ég væri ungur í dag, væri ég örugglega pönkari. Það virkar svo kúl.
Svo kvöddumst við og hann fór. Eftir stóðu vinkonurnar mjög hissa á svipinn, þangað til ein þeirra stamaði "Vá var þetta pabbi þinn, rosalega ertu heppin, hann er svo kúl". "Já ég veit" var það eina sem kom frá mér með stolt bros.

Comments:
vá. til hamingju með að hafa átt svona kúl pabba. aldrei hefði minn sagt mér að fá mér í glas...
 
Pabbi minn hefði átt afmæli í dag, hefði hann lifað. Hann var líka þessi gallabuxna og leðurjakka týpa og var ennþá klæddur þannig, kominn yfir sextugt. En hann hefði nú seint hvatt mig til að fá mér í glas. :)
 
Ég velti því oft fyrir mér hvort hann hefði breyst eitthvað með aldrinum, hefði hann lifað.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?