Saturday, October 30, 2004

 

Allt á fullu, alls staðar

Á morgun á sonur minn sex ára afmæli. Eins og öllum góðum húsmæðrum sæmir, er ég búin að undirbúa afmælið hans í tvo daga. Það verður ekki skortur á kræsingunum hjá mér og leikir og önnur afþreying hefur verið skipulögð. Börnin mæta kl. 2 og þá á ég von á 12 vöskum sveinum. Klukkan 4 mæta síðan foreldrar í kaffi. Ég ákvað að hafa þetta allt á einum degi, snöggt og kaótískt.

EN það er ekki það eina sem ég er að bardúsa þessa dagana. Nú að að selja húsið. Það verður opið hús hjá okkur næsta miðvikudag og þá er eins gott að vera búin að skrúbba allt hátt og lágt. Fasteignasalinn minn vill nefnilega meina að við eigum von á fjölmenni.

SVO er ég að hugsa um að fara til Hveragerðis í nokkra vikra afslöppun og nudd. Nei, það er að vísu bara óskhyggja, það tekur örugglega eitthvað við.

Nóg í bili, verð að halda áfram að baka.

Tuesday, October 26, 2004

 

Nokkrar staðreyndir

* Kennaraverkfall er núna að byrja sína 6.viku. Það verður erfiðara með hverjum deginum að byrja aftur í skólanum, fyrir alla aðila.

* Ég verð í djúpum skít þegar skólinn byrjar aftur, því börnin mín kunna ekki lengur að vakna á morgnana.

* Brad Pitt er hundrað prósent flottur í Troy.

* Maturinn á McDonalds er algert prump, í orðsins fyllstu merkingu.

* Lífið væri leiðinlegra ef það væri ekki til súkkulaði.


Sunday, October 24, 2004

 

Sunnudagsmorgun

Að veiða mýs er góð skemmtun - NOT. Sérstaklega ekki þegar klukkan er 5 um morgun.

Ég gafst upp á kisu kl. 5 í morgun og hleypti henni út. Ég vildi bara fá smá svefnfrið. Hún var rétt farin út, þegar hún skokkaði inn aftur og af skarkalanum að dæma, vissi ég að hún var ekki ein á ferð. Jú, mikið rétt, lítil og saklaus mús sat dauðhrædd úti í horni á herbergi dóttur minnar og Trítla gaf frá sér mikil veiðihljóð. Ég er nú orðin bara þokkalega vön þessu (eftir eina fyrri reynslu), svo ég tók kisu upp á hnakkadrambinu og henti henni inná bað. Svo tók ég fram veiðigræjurnar, Tupperware dós og bökunarplötu og veiddi músina á mettíma. Hún var frelsinu fegin. Ég tók síðan kisu og lokaði hana inni í herbergi dóttur minnar og lokaði svo líka hurðinni á svefnherberginu. Það þýðir nefnilega ekkert að hafa bara eina dyr á milli, því ég sef svo laust. Þetta gekk prýðilega og ég gat sofið til morguns. Alveg til kl. 9, þegar sonurinn vakti mig og heimtaði þjónustu.

Ég er bara orðin þokkalega góður músaveiðimaður, þökk sé Tupperware skálinni og bökunarplötunni. Búin að koma mér upp ákveðinni tækni. Ég gæti kannski bara lagt þetta fyrir mig og grætt á þessu. Ég myndi þá ekki vilja kalla mig meindýraeyðir, því mér finnst mýs bara svo mikil krútt. Gæti þá jafnvel fengið Tupperware sem sponsor. "Músaveiðinn er í boði Tupperware. Tupperware, ekki bara eldhúsáhöld".

Friday, October 22, 2004

 

Þakklát

Ég er þakklát fyrir að hafa líf og heilsu.
Ég er þakklát fyrir að eiga tvö heilbrigð og kraftmikil börn.
Ég er þakklát fyrir að eiga fjölskyldu sem umvefur mig kærleik og styrk.
Ég er þakklát fyrir að eiga vini og kunningja, sem gefa lífinu lit.
Ég er þakklát fyrir að hafa mat og húsaskjól.

Lífið er erfitt. Það er fullt af hindrunum, áskorunum og sársauka. En það er samt líka fullt af gleði og hamingju. Oft gleymir maður að lifa í dagþéttri veröld og býr til vandamál framtíðar eða lifir í sársauka fortíðar.

Í minni vinnu rekst ég stundum á dæmi um fólk sem er að berjast við illvíga sjúkdóma á unga aldri eða hefur gefist upp á lífsbaráttunni. Þegar ég sé svona dæmi, verða vandamálin mín ósköp hversdagsleg og kjánaleg. Þá sé ég hvað ég á í raun og veru gott líf.

Góða helgi.


Wednesday, October 20, 2004

 

Hver hvílir hér

Faðir minn heitinn hafði mikið dálæti á gömlu Woody Allen myndunum. Honum fannst húmorinn í þeim hreint frábær. Hann kenndi mér að meta húmorinn í myndum hans og ég verð að segja að ég kann betur að meta þær gömlu. Eitt á ég sameiginlegt með Woody Allen. Það er að óttast dauðann. EN þó ég óttist dauðann, finnst mér fátt eins afslappandi og að fara í góðan göngutúr um Fossvogskirkjugarð. Ég fyllist svo miklum friði og ró, þegar ég rölti á milli legsteinana. Er lítið að spá í hvað er grafið 6 fetum neðar.

Eitt af því sem ég spái í, eru nöfn og titlar á legsteinum. Það má oft finna skemmtileg nöfn og mjög áhugaverða titla. Oftast eru konurnar kennarar, húsfrúr eða leikkonur, en meiri fjölbreytileiki er hjá körlunum. Svo er fólk oft kennt við bæinn sem það bjó á. Með þessu fylgja setningar eins og "Hvíl í friði", "Blessuð sé minning hans/hennar" og svo framvegis. Mér finnst mjög fallegt það sem við settum á krossinn hans pabba. Þar stendur "Elskaður að eilífu".

Stundum velti ég því fyrir mér hvað komi til með að standa á mínum legsteini. Hef ég einhvern titil að bera? Á ég heima á einhverjum merkum stað?

Tuesday, October 19, 2004

 

Hús með sál part 2

Ég er farin að hallast að því að húsið mitt geti verið andsetið. Ég skrifaði um það um daginn að það væri að mótmæla því að vera selt. Jæja, nú kemur framhald af því.

Ég tók eftir því í gær þegar ég kom heim úr vinnunni að það voru litlir dropapollar út með veggjunum á svefnherberginu mínu. Svona pollar eins og myndast þegar einhver veður inn á skítugum skónum í bleytu. Ég spurði dóttur mína út í þessa polla og fékk þetta týpiska svar "ég veit það ekki". Ég hugsaði því ekkert meira um það, fyrr en kl.3:30 í nótt þegar ég vaknaði upp með andfælum. Það læddist að mér grunur. Það vill svo oft verða þannig að ég fæ hugljómanir um miðjar nætur. Ég fálmaði eftir slökkvaranum og reyndi að kveikja loftljósið. Reyndi segi ég, því um leið gaf ljósið frá sér undarlegt hljóð eins og það væri að reyna að rembast við að halda sér á lífi en væri að gefa upp öndina. Ekkert ósvipað því og þegar perur eru við það að deyja. EN það eru tvær perur í ljósinu og ólíklegt að þær væru báðar að fara OG þá virkar það yfirleitt þannig að maður slekkur og kveikir og þá "búmm" eru þær farnar.

Hugljómunin sem ég fékk kl. 3:30 í nótt var nefnilega sú, að kannski væri þakið farið að leka. Ég steytti hnefann út í loftið og sagði við húsið "Þú getur reynt það sem þú vilt EN ÉG ÆTLA AÐ SELJA"!!!!

Monday, October 18, 2004

 

Fyrsti í snjó

Það var ekki laust við að það væri um mig gamalkunnugt stress, þegar ég vaknaði í morgun. Það var farið að snjóa. Ég er nefnilega töluvert stressuð að keyra í þessum aðstæðum, þ.e. þegar ég er á sumardekkjum. Það má eflaust rekja til þess þegar ég lenti í árekstri fyrir nokkrum árum, við svipaðar aðstæður. Þá var nýbyrjað að snjóa, en varla komin nokkur snjór að ráði. Mín var ekki á góðum dekkjum og ætlaði að bruna út í búð í hádeginu, en rankaði svo við sér í sjúkrabíl. Nú er sem sagt spurningin: Á ég að vera rosa hugrökk eða bara gunga sem þorir ekki að keyra á sumardekkjum þó að það sé komin smá föl.

Það fylgir því nefnilega töluverð breyting að vera orðin einstök. Það er einhvern veginn meira stress, álag og óöryggi þegar maður hefur ekki annan fullorðinn á heimilinu til að ráðgast við. Ég tala nú ekki um það að maður þarf að hafa meiri þolinmæði, útstjónarsemi og stjórn á börnunum.

Ég þarf varla að taka það fram að ég fór öruggu leiðina í vinnuna í morgun.

Saturday, October 16, 2004

 

Mín skoðun

Ég veit að ég móðgaði marga með skoðun minni á kennaraverkfallinu, svo ég ætla ekki að tala frekar um það. Það sem mér liggur á hjarta núna, er ólöglegt niðurhal á tónlist og bíómyndum og þær rassíur sem hafa staðið yfir til að koma höndum yfir glæpamennina. Ég er bara hreinlega hneyksluð á þessu. Væri ekki nær að snúa sér að þarfari hlutum en þessu. Ég sé bara ekkert athugavert við það að afrita af netinu.

Í gamla daga var þessi iðja nefnilega líka stunduð. Þá tóku menn lög upp úr útvarpi eða fengu lánaðar plötur til að afrita yfir á hljóðsnældur. Afritun af netinu er bara nútímaútgáfa af þeirri iðju. Hvað varðar bíómyndirnar, þá eru þær myndir sem eru í gangi á netinu yfirleitt í svo lélegum gæðum að alvöru kvikmyndaáhugafólk léti hvort eð er ekki bjóða sér þannig drasl. Hins vegar er netið ágætis leið til að verða sér út um eldra efni, sem jafnvel er erfitt að nálgast á annan hátt. Einnig er þar hægt að nálgast sjónvarpsþætti, sem eru hvort eð er teknir upp og dreift milli manna.

Ég held að það væri nær að reyna að handtaka handrukkara, barnaníðinga og eiturlyfjasala, heldur en að eyða orku og peningum í að eltast við einhvern Jón Jónsson sem afritar af netinu.

Þetta er mín skoðun.

Thursday, October 14, 2004

 

Nermal kemur í heimsókn

Þegar við mæðgurnar snerum heim aftur úr vel heppnaðri verslunarferð, var kominn gestur í heimsókn. Það var hálfstálpaður kettlingur, sem sat inni í mestu makindum. Hún var lítil og sæt og var fljót að hæna okkur að sér með mali og nuddi.

Kisan okkur, hún Trítla, var ekki par hrifin af þessari heimsókn. Hún hvæsti á þennan sæta kettling, sem horfði á hana sakleysislegum augum. Dóttir mín var því fljót að finna nafn á kettlinginn, sem var að sjálfsögðu skírður Nermal. Eftir að við vorum búnar að fá okkur fullsaddar af kjassi og Trítla orðin fullmóðguð, ákváðum við að nú væri þessari heimsókn lokið. En Nermal var ekki á sama máli. Hún ákvað að þetta væri fyrirtaksheimili og hér ætlaði hún að vera. Jafnvel þótt við reyndum að vísa henni útfyrir, vældi hún bara og neitaði að fara. Á endanum fór dóttirin með kisu litlu í fanginu og labbaði með hana heim.

Ég veit ekki hvað það verður langt þangað til Trítla talar við okkur aftur, en hún er sármóðguð.




Monday, October 11, 2004

 

Músaveiðar

Hún Trítla mín er ennþá að reyna að veiða í matinn fyrir okkur. Fyrst reyndi hún við fuglana, en var skömmuð fyrir það. Í morgun var hún svo komin með lifandi mús inn á baðherbergi. Það var það fyrsta sem blasti við mér, nývaknaðri og krumpaðri.

Það var ekki um annað að ræða en að taka í hnakkadrambið á kisu og loka hana inni. Síðan hófst hin mikli eltingaleikur við músina. Ég sá að þetta yrði of erfitt fyrir mig eina, svo dóttirin var rekin á fætur til aðstoðar. Við reyndum fyrst að opna allar útidyr og vísa músinni leiðina út, en það virkaði ekki. Hún fór bara í hringi meðfram veggjunum. Næst reyndi ég að taka hana upp, en litla greyið var svo snögg að skjótast að það var vonlaust mál. Aumingja angaskinnið horfði á mig angistarfullum svörtum augum og hélt sjálfsagt að stóru risarnir ætluðu að meiða sig. Við náðum að króa hana af inni í svefnherbergi, en samt tók það okkur 1,5 klukkutíma að ná henni. Veiðibúnaður var Tupperware dós og bökunarform. Hún var hálf ringluð þegar henni var sleppt út og eyddi löngum tíma í að snurfusa sig. Sjálfsagt einhver áfallameðferð hjá músum.

Kisa var hálf súr þegar við hleyptum henni út. Hún fór undir baðskáp og sat þar sem fastast. Skildi ekkert í vanþakklætinu í okkur mæðgum og heldur sjálfsagt að við hljótum að vera grænmetisætur.

Friday, October 08, 2004

 

Kisuvinur

Það er ekki af ástæðulausu sem ég valdi þetta nafn. Ég hef nefnilega fengið mikið dálæti á kisum. Þeir sem þekktu mig áður fyrr, halda örugglega að nú sé ég bara að skrökva. En það er ekki svo. Ég var nefnilega svo sjúklega hrædd við ketti hérna áður fyrr og gat ekki tekið þá upp. Ef ég kom í heimsókn inn á heimili þar sem var köttur, var ég á nálum allan tímann.

Ég ákvað að eina leiðin til að komast yfir þessa hræðslu væri bara að fá mér kött. Og auðvitað gerði ég það. Ég gaf dóttur minni kött í afmælisgjöf fyrir ári síðan og er að mestu leyti komin yfir þessa hræðslu. Ég held á kisu, gef henni að borða, klappa henni og kjassa og hún hefur meira að segja kúrt í rúminu hjá mér. Ég er líka sú sem hef vakað yfir henni þegar hún er veik. Ég hugsa hreinlega að þegar konan í Kattholti hætti störfum verði ég orðin tilbúin til að taka við af henni.

Næst er bara málið að snúa sér að skíðunum. Ég hef nefnilega alltaf verið hrædd við hluti sem renna hálf stjórnlaust áfram, td.skíði, skauta, línuskauta, rússíbana og svo framvegis.

Wednesday, October 06, 2004

 

Uppgjöf

Hér með viðurkennist að ég hef enga stjórn á eftirfarandi hlutum.

1. Börnunum mínum. Það þarf varla að hafa fleiri orð um það. Barnauppeldi virðist bara vera of flókið fyrirbæri fyrir mig.
2. Aukakílóunum. Það er alveg sama hvað ég reyni, þau læðast alltaf aftan að mér. Mér finnst reyndar líka bara gott að borða.
3. Visa reikningnum. Þrátt fyrir ýmsar sparnaðaraðgerðir, rýkur hann alltaf upp úr öllu valdi og kemur alltaf á óvart um hver mánaðarmót.
4. Rykinu. Ég er orðin sannfærð um það að það komi einhverjir draugar á nóttinni sem hreinlega skíta ryki.
5. Skapinu í mér. No comment. Held stundum að við í fjölskyldunni hljótum að vera af ítölskum ættum.

Nóg í bili.

 

Tungumál

Sonur minn gengur um þessa dagana, sannfærður um að hann kunni ensku. Þetta er tilkomið vegna þess að þegar við mæðgurnar þurfum að tala um einkamál okkar á milli, grípum við til enskunnar. Hann vill náttúrulega taka þátt í umræðunum, svo hann grípur orð og orð og býr til setningar. Það eru helst tvær setningar sem hann hefur smíðað sem hljóma í tíma og ótíma. "This is no idea" og "This is no good" er eitthvað sem hann hefur sett saman og kastar fram af miklum eldmóð. Svo spyr hann endalaust, hvernig hann eigi að segja hitt og þetta á ensku.

Ég hef lesið það að börn á þessum aldri séu mjög móttækileg fyrir tungumálum. Ég ætti kannski að fara að kenna honum ensku. Ég þyrfti þá að vísu að kenna dótturinni þýsku í kjölfarið , svo við gætum áfram talað um okkar einkamál.

Sunday, October 03, 2004

 

Einstök

Það er margt sem maður þarf að læra þegar maður er orðin einstök (nota það frekar en einstæð, það hljómar ekki jafn aumlega) móðir. Þannig er ég búin að viða að mér alls kyns þekkingu td. að gera við reiðhjól, sparsla í veggi og nú síðast að negla sóplista. Ég held bara að ég sé að verða tilbúin í pípulögnina.

Annars var ég að fara yfir Visa reikninginn minn og þar verður að grisja útgjöldin. Þessi fastaútgjöld verða látin fjúka.

1. Prjónablaðið Ýr
Ég er nú þegar komin með nokkra árganga af prjónauppskriftum og það verður bara látið duga. Það er heldur ekki eins og tískan í prjónuðum flíkum breytist mjög ört.

2. Sálarannsóknarfélagið
Já, eins og fjölmargir Íslendingar hef ég farið á miðilsfund hjá Þórhalli. Mér var bent á að ég fengi mikinn afslátt ef ég skráði mig í félagið, sem ég að sjálfsögðu gerði. Fundurinn sjálfur olli miklum vonbrigðum og varla þörf á að styrkja þær rannsóknir frekar.

3. Stöð 2
Sjónvarpstöð sem er bara orðin mjög slök. The Simpsons er orðinn eini þátturinn sem við horfum á, og ég borga nú ekki tæplega 4000 kr. á mánuði fyrir Hómer og kó. Sonur minn á eftir að mótmæla kröftulega, en það verður bara að hafa sig. Við mæðgurnar horfum hvort er eð miklu meira á Skjá 1.

Nóg í bili.


Friday, October 01, 2004

 

Hús með sál

Ég er búin að komast að því að húsið mitt er með sál. Þá meina ég það ekki á jákvæðan hátt. Húsið mitt vill nefnilega ekki vera selt. Og það er þrjóskt.

Þetta hefur birst mótmælum af ýmsu tagi. Fyrst byrjaði það hógvært með að perur fóru að springa hér og þar. Svo færði það sig upp á skaftið og nú fór sóplistar að skjótast frá þröskuldum, rétt eins og þeir væru hlaðnir dýnamíti. Því næst fóru dyrakarmar að losna frá og jafnvel bitar úr veggjum með fram hurðaropum að hrynja frá. En þetta er ekki búið. Núna er komið upp sprunguvandamál í svefnherberginu og í morgun sýndist mér vera farið að leka út frá sturtubotninum.

Húsið mitt er semsagt að halda í þá veiku von að við munum ekki yfirgefa það. Það er spurning hvort maður þurfi að tala við húsmiðil eða reyna að klappa veggjunum og tala við það sefandi röddu. Mér dettur líka í hug setning úr 80's mynd sem heitir The Money Pit. "Here lies Walter Fielding. He bought a house, and it killed him".

This page is powered by Blogger. Isn't yours?