Thursday, October 14, 2004

 

Nermal kemur í heimsókn

Þegar við mæðgurnar snerum heim aftur úr vel heppnaðri verslunarferð, var kominn gestur í heimsókn. Það var hálfstálpaður kettlingur, sem sat inni í mestu makindum. Hún var lítil og sæt og var fljót að hæna okkur að sér með mali og nuddi.

Kisan okkur, hún Trítla, var ekki par hrifin af þessari heimsókn. Hún hvæsti á þennan sæta kettling, sem horfði á hana sakleysislegum augum. Dóttir mín var því fljót að finna nafn á kettlinginn, sem var að sjálfsögðu skírður Nermal. Eftir að við vorum búnar að fá okkur fullsaddar af kjassi og Trítla orðin fullmóðguð, ákváðum við að nú væri þessari heimsókn lokið. En Nermal var ekki á sama máli. Hún ákvað að þetta væri fyrirtaksheimili og hér ætlaði hún að vera. Jafnvel þótt við reyndum að vísa henni útfyrir, vældi hún bara og neitaði að fara. Á endanum fór dóttirin með kisu litlu í fanginu og labbaði með hana heim.

Ég veit ekki hvað það verður langt þangað til Trítla talar við okkur aftur, en hún er sármóðguð.




Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?