Monday, October 11, 2004

 

Músaveiðar

Hún Trítla mín er ennþá að reyna að veiða í matinn fyrir okkur. Fyrst reyndi hún við fuglana, en var skömmuð fyrir það. Í morgun var hún svo komin með lifandi mús inn á baðherbergi. Það var það fyrsta sem blasti við mér, nývaknaðri og krumpaðri.

Það var ekki um annað að ræða en að taka í hnakkadrambið á kisu og loka hana inni. Síðan hófst hin mikli eltingaleikur við músina. Ég sá að þetta yrði of erfitt fyrir mig eina, svo dóttirin var rekin á fætur til aðstoðar. Við reyndum fyrst að opna allar útidyr og vísa músinni leiðina út, en það virkaði ekki. Hún fór bara í hringi meðfram veggjunum. Næst reyndi ég að taka hana upp, en litla greyið var svo snögg að skjótast að það var vonlaust mál. Aumingja angaskinnið horfði á mig angistarfullum svörtum augum og hélt sjálfsagt að stóru risarnir ætluðu að meiða sig. Við náðum að króa hana af inni í svefnherbergi, en samt tók það okkur 1,5 klukkutíma að ná henni. Veiðibúnaður var Tupperware dós og bökunarform. Hún var hálf ringluð þegar henni var sleppt út og eyddi löngum tíma í að snurfusa sig. Sjálfsagt einhver áfallameðferð hjá músum.

Kisa var hálf súr þegar við hleyptum henni út. Hún fór undir baðskáp og sat þar sem fastast. Skildi ekkert í vanþakklætinu í okkur mæðgum og heldur sjálfsagt að við hljótum að vera grænmetisætur.

Comments:
ég get veitt geitunga en ég held að það myndi líða yfir mig af því að veiða mús. á mjög erfitt með að snerta dýr.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?