Saturday, October 16, 2004

 

Mín skoðun

Ég veit að ég móðgaði marga með skoðun minni á kennaraverkfallinu, svo ég ætla ekki að tala frekar um það. Það sem mér liggur á hjarta núna, er ólöglegt niðurhal á tónlist og bíómyndum og þær rassíur sem hafa staðið yfir til að koma höndum yfir glæpamennina. Ég er bara hreinlega hneyksluð á þessu. Væri ekki nær að snúa sér að þarfari hlutum en þessu. Ég sé bara ekkert athugavert við það að afrita af netinu.

Í gamla daga var þessi iðja nefnilega líka stunduð. Þá tóku menn lög upp úr útvarpi eða fengu lánaðar plötur til að afrita yfir á hljóðsnældur. Afritun af netinu er bara nútímaútgáfa af þeirri iðju. Hvað varðar bíómyndirnar, þá eru þær myndir sem eru í gangi á netinu yfirleitt í svo lélegum gæðum að alvöru kvikmyndaáhugafólk léti hvort eð er ekki bjóða sér þannig drasl. Hins vegar er netið ágætis leið til að verða sér út um eldra efni, sem jafnvel er erfitt að nálgast á annan hátt. Einnig er þar hægt að nálgast sjónvarpsþætti, sem eru hvort eð er teknir upp og dreift milli manna.

Ég held að það væri nær að reyna að handtaka handrukkara, barnaníðinga og eiturlyfjasala, heldur en að eyða orku og peningum í að eltast við einhvern Jón Jónsson sem afritar af netinu.

Þetta er mín skoðun.

Comments:
Það er einn grundvallarmunur á því að búa sér til rafrænt eintak af lögum og myndum og svo að taka upp á spólu úr útvarpi/sjónvarpi eða af plötu. (sem nóta bene var hreint ekki löglegt heldur). Munurinn er sá að þú ert komin með eintak sem er jafn gott og hið upprunalega. Spólurnar voru alltaf talsvert lélegri en plöturnar og entust líka verr.

Ég styð þessar aðgerðir. Hvað gefur fólki leyfi til að taka eigur annarra og deila þeim með öðrum? Aðalröksemdin með þessum deilidæmum er: þetta fólk hefði ekki keypt sér lagið/myndina/whatever, þannig að höfundarrétthafi er ekki að tapa neinni sölu! Get ég þá ekki bara sagt: ég ætla ekki að kaupa mér neitt kók úti í sjoppu, þannig að ég fer bara og tek mér það? Jú, örlítill munur, í kók fer áþreifanlegt hráefni og flutningafyrirtæki fer með það í sjoppuna. Hins vegar liggur óhemju vinna og kostnaður líka í því að skapa þessi verk sem er verið að stela.

Bara smá vent, hér.
 
Takk fyrir þessi innlegg. Ég get alveg séð báðar hliðar á málinu. Mín reynsla er sú að þessi sjóræingjaeintök sem ég hef séð eru í svo lélegum gæðum að ég myndi aldrei láta bjóða mér þau og vildi heldur horfa á mynd í góðum gæðum í bíósal. Hins vegar lenti ég í því að flakka á milli videoleiga í leit að ákveðinni mynd í eldri kantinum, en fann hvergi. Ég fann svo þessa ágætu mynd á netinu og gerðist lögbrjótur og náði mér í hana.
 
Ég hef séð sjóræningjaeintök í mjög háum gæðum, en sjálfsagt fer það eftir ýmsu, til dæmis hvernig eintakið á netinu er fengið, hvort það var kannski bara einhver með vídeótæki úti í sal í bíói eða hvort einhver komst yfir digital eintak af myndinni sjálfri og setti á netið. Tónlistin er hins vegar nær undantekningarlaust eins og beint af diskinum.

Það sem þarf náttúrlega að gera er að gefa fólki tækifæri á því að kaupa þetta efni á netinu, sbr tonlist.is og iTunes búðina, í stað þess að stela. Það gengur reyndar ekki þegar um er að ræða efni sem er ekki búið að gefa út ennþá, en gamlar myndir eins og þú ert að tala um, ættu ekki að vera vandamál!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?