Monday, August 30, 2004

 

Alltaf jafn heppin

Í gær bauð OgVodafone upp á 500 MG frítt niðurhal. Mín ætlaði nú heldur betur að misnota það og ákvað að reyna að hlaða niður síðasta Friends þættinum, því þótt ótrúlegt megi virðast hef ég ekki séð þann þátt.

Ég byrjaði á niðurhali og fór svo að þrífa eins og brjálæðingur. Þegar þátturinn var kominn í 65%, rak ég ryksuguna á fullu trukki í innstunguna og allt datt út. Svo nú sit ég uppi með 65% af síðasta þættinum og veit ekkert hvað gerist eftir það. Ég held ég segi bara enn og aftur "Kill me, kill me now". Þetta er ekki mín vika, eða minn mánuður tja eða bara mitt ár. Til að sefa mig og jafnvel aðra ætla ég að láta smá geðstirt Friends skets fylgja með.

CHANDLER: Ooh, Lambchop. How old is that sock? If I had a sock on my hand for thirty years it'd be talking too.
ROSS: Okay. I think it's time to change somebody's nicotine patch. (DOES SO)
(ENTER MONICA)
MONICA: Hey. Where's Joey?
CHANDLER: Joey ate my last stick of gum, so I killed him. Do you think that was wrong?
RACHEL: I think he's across the hall.
MONICA: Thanks. (GOES TO FETCH HIM)
ROSS: (FINISHES CHANGING CHANDLER'S NICOTINE PATCH) There y'go.
CHANDLER: (DEADPAN) Ooh, I'm alive with pleasure now.

Friday, August 27, 2004

 

Hell on Wheels

Ég held að ég sé hæf til að aka skriðdreka. Þetta fullyrði ég eftir að hafa neyðst til að nota "hinn bílinn" á heimilinu. Hann er gamall jepplingur, með tilheyrandi hossi og vélarhljóði. Ástæðan fyrir þessari neyð er að eðalbíllinn minn fór á bílaspítalann. Hann var kominn með einhverja hálsbólgu greyið, með tilheyrandi hljóðum, svo það var eins gott að láta laga hann strax. Ég kann alltaf betur að meta fjólubláa þrumufleyginn eftir að hafa þurft að keyra hitt skrímslið.

Mig hryllir við þeirri tilhugsun að ég þurfi að aka skrímslinu heim aftur eftir vinnu og jafnvel notast við hann yfir helgina. Það eina sem mér dettur í hug eru hin fleygu orð "Kill me, kill me now".

Thursday, August 26, 2004

 

Algert bíó

Í nótt var ég aftur farin að vinna í miðasölu Háskólabíós. Það gekk vægast sagt allt á afturfótunum hjá mér og mér gekk ekkert að selja miða. Það var eins öll æfing og skipulag væru fyrir bí og ég mundi ekkert í hvaða sal myndirnar voru. Af einhverri ástæðu mættu Chris Martin og Gwyneth Paltrow í afgreiðslulúguna hjá mér. Eitthvað vesen var á Chris greyinu, hann hafði víst týnt veskinu sínu. Ég sagði þeim náttúrulega "not to worry", því ég væri fullviss um að þau ættu pening fyrir miðum og þau gætu bara komið seinna og borgað mér.

Annars fór ég í Háskólabíó í gær. Ég fór að sjá "The Village". Þar sem ég hafði heyrt lélega dóma um myndina, átti ég ekki von á neinu sérstöku. EN myndin kom skemmtilega á óvart og var hin besta afþreying. Væri jafnvel til í að sjá hana aftur.

Wednesday, August 25, 2004

 



Tuesday, August 24, 2004

 

Fyrsti skóladagur

Það var stolt móðir sem fylgdi syni sínum í skólann í fyrsta sinn í morgun. Sonur minn var jafn spenntur og söng hástöfum "labba, labba, labba" alla leið. Hann sönglaði þetta við lag Genesis, "Land of Confusion". Hann hefur ætið verið söngelskur þessi elska.

Annars birtist þessi mynd af honum á heimasíðu skólans. Hún fékk mig til að hugsa. Kann hann kannski að lesa og er búinn að vera að blekkja mig allan tímann. Hann lítur allavega út fyrir að vera að lesa á blaðið fyrir framan sig.





Monday, August 23, 2004

 

Menningarnótt

Eins og flestallir borgarbúar, fór ég í miðbæinn á Menningarnótt. Hápunkturinn var að sjá EGÓ spila á miðbakkanum. Það fór um mig sæluhrollur, þegar gömlu lögin ómuðu á ný og í huganum varð ég 16 ára. Mér finnst textarnir alltaf jafn góðir:

Sá er talinn heimskur,
sem opnar sína sál.
Ef hann kann ekki að ljúga,
hvað verður um hann þá.
Undir hælinn verður troðinn,
líkt og laufblöðin smá.
Við hræðumst hjarta hans
og augun blá.

Friday, August 20, 2004

 

Morð í Kópavoginum

Baðherbergið mitt var blóði drifið þegar ég kom heim í gær. Morðinginn beið mín sallaróleg og mjálmaði stolt. Fórnarlambið lá á þröskuldinum að herbergi dóttur minnar. Hann/hún var um 15-20 cm hár, með dökk augu og fjaðurbúnað. Sönnunargögn voru á víð og dreifð um baðherbergið og blóðug spor og fjaðrir gáfu til kynna að töluverð átök hefðu átt sér stað.

Dómur hefur ekki verið kveðinn upp, en morðinginn gengur laus. Töluverð áhætta er á því að svona lagað gæti komið fyrir aftur og aftur og aftur.

Tuesday, August 17, 2004

 

Ég lifi

Eða ætti ég kannski frekar að segja, ég lifði af. Ég saknaði bloggheima ekki vitund, enda ekki tími til þess. Prógramið var stíft frá morgni til kvölds og maður er hálf þreyttur eftir fríið. Ég gekk hálf haltrandi í gegnum Leifsstöð, með blöðrur á tánum eftir allt labbið. Ferðin tókst vel í alla staði og verður sagt meira frá henni síðar, þegar betri tími gefst til.

Annars er ég ekki nema hálfur kisuvinur í dag. Var ekki par hrifin af því þegar prímadonnan á heimilinu kom inn með fuglsunga í kjaftinum. Ég náði nú að bjarga greyinu, því hún var ekki búin að blóðga hann. Hann flaug út um gluggann, frelsinu feginn. Hún fékk skammir, sem hún skildi ekkert í og horfði á mig sljóum augum. Henni hefur eflaust fundist hún vera að draga björg í bú og að ég hefði átt að draga fram steikarapönnuna hið snarasta. EN steiktir þrastarungar verða aldrei á matseðlinum hjá mér.

Monday, August 09, 2004

 

Visa, vegabréf og farmiðar

Hún móðir mín kenndi mér það, þegar ég komst á ferðalagaaldur, að það eina sem þyrfti virkilega að hafa með sér til útlanda væri þetta þrennt. Ég var eitthvað að stressa mig yfir því hvort ég hefði nú ekki pakkað nægilega mikið af nærfatnaði og sokkum og hvort ég ætti að hafa meira af fötum til fararinnar. Þetta er í raun nokkuð rétt hjá henni. Ég hef haft þetta heilræði hennar í huga, þegar ég er að pakka í ferðatösku. Annað heilræði sem ég hef fengið, er að pakka alltaf tannbursta og hreinum nærbuxum í handfarangur. Það er vegna þess að ef farangur týnist á leiðinni, þá stendur maður ekki uppi í útlandinu á skítugum nærbuxum eða með óburstaðar tennur. Ég verð að viðurkenna að ég hef enn ekki tileinkað mér það heilræði. Það er samt óvitlaust að spá í það.

Nú skal sem sagt pakkað í tösku, því á morgun leggjum við mæðgur af stað til Köben. Ég verð því fjarri bloggheimum í nokkra daga og veit hreinlega ekki hvort ég lifi það af. Það kemur í ljós að viku liðinni.

Friday, August 06, 2004

 

Kveðja

Í dag kveðjum við Maríu litlu lipurtá og iðgjaldaskráningarsérfræðing. Hún ætlar að yfirgefa okkur og halda á vit nýrra ævintýra. María lætur eftir sig bunka af skilagreinum, nýjan litríkan bækling og fullt af nýjum dægurlögum um starfsemi lífeyrissjóða.

Hennar verður sárt saknað.

Thursday, August 05, 2004

 

Kóngsins Köbenhavn

Nú fer að styttast í að maður leggist í ferðalög. Stefnan er tekin á "Kóngins Köbenhavn". Ég skil að vísu ekki af hverju Kaupmannahöfn er orðuð við einhvern kóng, því eins og allir (eða flestir) vita er drottning allsráðandi þar á bæ.
Við ætlum að fara saman 5 frænkur.com í ekta kellingarferð. Það er einhvern veginn alltaf öðruvísi þegar konur ferðast saman. Mikil skynsemi í gangi, nema etv. þegar Visakortið er dregið upp. Það verður örugglega mikið verslað, spjallað, hlegið og etið (og drukkið).

Ég fæ oft martraðir, þar sem ég er stödd í Leifstöð og er á leið til útlanda. Martröðin er ekki sjálft ferðalagið, heldur uppgötva ég að ég hef gleymt vegabréfi eða farmiða og flugvélin er að fara. Annað hvort það, eða ég er að pakka niður og hef ekki pláss fyrir allt sem ég ætla að taka með. Hvað ætli þetta eigi að tákna?

Monday, August 02, 2004

 

Kolvetnafíkill

Hæ, ég heiti Veiga og ég er kolvetn-isti. Það var yfirgúru hjá Herbalæf sem kom í heimsókn og analíseraði mig sem kolvetnisfíkil. Hann sagði mér að ég væri á hraðri leið til glötunar, NEMA ég byrjaði á Herbalife kúrnum. Ég þyrfði að fara á fullan kúr, sem myndi sjálfsagt kosta mig um 20.000 kr. á mánuði, en EF ég keypti mig inn í fyrirtækið, þá GÆTI ég fengið 25% afslátt. Ó hann bætti reyndar við að ég yrði líka að hætta að borða brauð, pasta, kartöflur, nammi og gos, reyndar allt sem væri með hveiti eða sykri OG að ég yrði að hreyfa mig 5 sinnum í viku. Ótrúlegt en satt, Ég hikaði. Ég var ekki viss um að ég yrði dauðadæmd, þó ég myndi ekki fara á Herbalife. Ég er nefnilega frekar skeptísk á vörurnar, sérstaklega eftir að ég sá hvaða áhrif þetta hefur á fólk. Það verður heltekið, eins og það sé gengið í trúfélag og helsta markmið er að frelsa náungann frá allri synd og kolvetni.

Ég er orðin svo rugluð í þessum matarræðisfrumskógi. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að borða lengur. Herbalife kóngurinn, segir að duftið hans sé lausnin. Að vísu dó hann langt fyrir aldur fram, en Herbalife trúflokkurinn telur að hann hafi haft ofnæmi fyrir einhverju lyfi, ekki dufti. Herra Atkins er heldur ekki trúverðugur, enda er hann líka dauður. Hann fékk hjartaáfall, þrátt fyrir að hafa margsagt að þó að maður megi borða beikon og fullt af kólesterólríkum mat á hans kúr, þá sé það í góðu lagi fyrir hjartað. Manneldisráð kemur svo úr gagnstæðri átt og segir að maður eigi að borða meira kolvetni og minna prótein og Bára segir að maður megi borða allt, bara í hófi.

Ekki spáðu forfeður okkar svo mikið í hvað þeir settu ofan í sig. Þeir mældu ekki próteinmagn eða kolvetnismagn og leið bara fjári vel. Kannski er það töfralausnin. Ég gæti orðið hin nýji gúru. Landnámskúrinn eða Fornkúrinn, gæti verið næsta æði sem grípur um sig. Svo myndi ég setja alla í peysuföt og út í heyskap upp á gamla móðinn, með orf og ljá.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?