Thursday, June 30, 2005

 

Come up and see me, make me smile

Ég er að farast í dag. Ég hlakka svo til tónleikana í kvöld. Ég var svo mikið fan í den. Ég átti allar plöturnar og veggirnir voru þaktir af myndum. Ég var í Duran Duran fanclub í Versló, þar sem Felix Bergsson var í broddi fylkingar. Við vinkonurnar gengum meira að segja svo langt að senda bréf út, og grátbiðja þá um að koma til landsins. Við vorum svo frumlegar að við vorum með uppástungur um hvað þeir gætu gert sér til dundur á klakanum.

Ég held að The Seventh Stranger verði alltaf uppáhaldslagið mitt, en annars var ég eiginlega hrifin af þeim flestum.

Wednesday, June 29, 2005

 

Stefnumót við John Taylor


Ég ætla að skella mér á Duran Duran tónleikana á morgun. Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að stofugardínurnar yrðu bara að bíða aðeins lengur, ég hreinlega yrði bara að sjá John Taylor á sviði. Ég var nefnilega svo rosalega skotin í honum þegar ég var unglingur og fannst hann algert æði. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hann ennþá rosalega sætur og mér er sagt að hann komi ennþá fram í leðurbuxunum.

Saturday, June 25, 2005

 

Farðu fljótt, Silvia Nótt

Í gærkvöldi settist ég fyrir framan sjónvarpið og stillti á Skjá 1 eins og venjulega. Mikið varð ég undrandi yfir sjónvarpsefninu sem birtist á skjánum. Þetta var endursýning á íslenskum þætti sem nefnist víst "Sjáumst-með Silviu Nótt". Ég hef bara ekki séð annað eins rusl í sjónvarpi síðan ég slysaðist inn á Mile High á Stöð 2. Ég veit ekki hreinlega hvort manneskjan er að reyna að vera svona ofboðslega sniðug, hvort það vantar í hana nokkrar skrúfur eða hvort hún er að reyna að hneyksla fólk. Fyrir mér er þetta ofdekruð pabbastelpa í sjónvarpsleik. Hún hefur ekkert fyndið, merkilegt eða bara skemmtilegt að segja.

Er ég kannski bara ekki að fatta það hvað hún er ógislega kúl og merkileg?

Friday, June 24, 2005

 

Bla bla bla

Ég á son sem talar alveg ótrúlega mikið. Hann er sítalandi frá þeirri stundu sem hann opnar augun á morgnana og þangað til að hann lognast út af á kvöldin. Það eru engin skilyrði að hann hafi einhvern til að tala við, stundum talar hann bara við sjálfan sig. Það getur verið skondið stundum, þegar maður heyrir í honum inná klósetti í hrókasamræðum við sjálfan sig. Stundum verðum við mæðgur svo þreyttar á honum að hann er vinsamlegast beðinn um að hvíla munninn í smá stund.

Ég held að það sé alger vitleysa að það séu bara konur sem tali mikið. Ég þekki nokkur eintök af karlmönnum sem geta sko alveg talað mann í kaf.

Thursday, June 23, 2005

 

Barnaþrælkun?

Ég á dóttur á þrettánda ári. Hún tók að sér að passa frænda sinn helminginn af sumrinu þ.e. 6 vikur. Hún passar hann 8-9 tíma á dag. Hún var ekki búin að passa í marga daga þegar hún fór að kveinka sér yfir því að þetta væri svoooo leiðinlegt og tíminn lengi að líða. Ég fékk líka að heyra það að hún væri sko eina stelpan í vinkvennahópnum sem væri að passa, hinar væru bara allar í sumarfríi!

Ég hef fengið ýmsar skoðanir á þessu máli. Allt frá því að hún hafi gott af þessu og þetta herði hana upp í það að hún sé í barnaþrælkun og ekki hægt að ætlast til af henni að hún passi svona lengi í einu. Mín skoðun er sú að hún hafi nú gott af þessu og að ef hún sé búin að taka þetta að sér, eigi hún ekki rétt á því að skorast undan. Þegar ég var á hennar aldri þótti alveg sjálfsagt að stelpur væru í vist og pössuðu börn frá ungum aldri. Núna er það ekki eins sjálfgefið, eða hvað???

Wednesday, June 22, 2005

 

Lag dagsins

I told you lady
Take me for one day
Please don’t ask any questions
You know I can stay

I wish the wind was cold
I wanna hold you baby hold
Only in your arms I’m lost
Don’t look at me

Sá sem getur sagt mér úr hvaða lagi þetta er og hver flytur, fær nafnbótina snillingur dagsins.

Tuesday, June 21, 2005

 

Stutt gaman

Jæja, þá er maður búin í fríi - í bili. Það myndi nú seint teljast merkilegt frí. Reyndi að sinna syninum af bestu getu, fórum í sund, húsdýragarðinn og löbbuðum niður að vatni. Ég brann náttúrulega í sólinni, þrátt fyrir vörn nr. 15. Ég virðist bara varla þola sólina og kannski eins gott að ég bý ekki í hlýrra loftslagi. Sjálf komst ég hálfa leið í gegnum Hitchhikers guide safnið og er núna að byrja á Life, universe and everything. Þetta rifjast ótrúlega mikið upp þegar maður les þetta í annað sinn og húmorinn er einstakur.

Ég er búin að vera mjög óþekk í kórastarfinu og skrópaði á 17. og 19. júní. Veit ekki hvað það er, en ég er bara í einhverri sönglægð eins og er. Ég er meira að segja farin að tvístíga með utanlandsferðina í haust. Vona að þetta gangi yfir sem fyrst.

Thursday, June 16, 2005

 

Hrein snilld!

Við mæðgurnar fórum saman í bíó í gærkvöldi. Það var fremur fámennt í salnum og lengi vel leit út fyrir að við yrðum einar í salnum. Það voru allir að fara á Batman í gær og því fáir að sjá The Hitchhikers guide to the Galaxy. Ég var búin að lesa The Hitchhikers guide bækurnar á sínum tíma, en er byrjuð að lesa þær aftur. Ég kann betur að meta þær núna, enda var ég bara 18 ára smábarn þegar ég las þær síðast.

Myndin var mjög skemmtileg. Húmorinn var sá sami og í bókunum, þó að þeim væri ekki alveg fylgt eftir. Dótturinni fannst myndin mjög góð. Greinilega með sama húmor og móðir hennar ;)

Wednesday, June 15, 2005

 

Hjálp!

Ég er með tölvu fulla af vírusum. Ég er búin að reyna ýmislegt til að drepa þá, en ekkert gengur. Ég er með vírusvörn sem ræður ekkert við málið. Þetta er ma. mysearchbar.com og istbar, sem er víst fjandanum erfiðari að losna við.

Mig vantar vírusbana af bestu gerð.

Sunday, June 12, 2005

 

Hver skilur karlmenn?

Er einhver kvennmaður sem getur sagt að hún skilji hvernig karlmenn fúnkera. Hvernig þeir hugsa og hvaða rökum þeir beita. Ég á allavega stundum mjög erfitt með að skilja hvað í ósköpunum þeir eru að hugsa.

Tökum sem dæmi: Ég á yngri, einhleypa, systur sem er alveg ofboðslega seinheppin í karlamálum. Hún virðist sérfræðingur í því að laða að sér hin ótrúlegustu eintök af karlmönnum. Þeir koma illa fram við hana og sýna henni enga virðingu. Samt er systir mín bæði falleg og gáfuð. Hún er góðhjörtuð, blíð og mjög skemmtileg. Þess vegna á ég svo erfitt með að skilja óheppni hennar í samskiptum við karlmenn. Hvaða standard eru þessir menn eiginlega að setja?

Ég bara skil þetta ekki.

Thursday, June 09, 2005

 

Karlremba

ÉG held að ég hafi rekist á gott dæmi um karlrembu. Eins og margir vita, flutti ég í glænýja blokk í byrjun apríl. Hún var svo ný (og er reyndar en) að ég bjó við mjög frumstæðar aðstæður fyrstu mánuðina. Ég bjó ein í blokkinni fyrstu tvo mánuðina. EN fyrir viku flutti fleira fólk í blokkina og þar á meðal fjölskylda á hæðina fyrir ofan mig.

Nema hvað. Þar býr karlmaður og verkstjórinn á staðnum fór til hans og bað hann að taka ábyrð á húsfélaginu. Hann heldur greinilega að það þurfi karlmann í verkið=)

Monday, June 06, 2005

 

Sumarfrí

Þá er maður komin í tveggja vikna sumarfrí. Það verður ekkert sérstakt gert í þessu fríi, en samt nóg haft fyrir stafni. Dagarnir byrja á því að fara með soninn á fótboltaæfingar. Æfingar eru kl. 9, svo það verður ekkert sofið fram eftir í fríinu. Það er líka ýmislegt sem þarf að klára í íbúðinni, svo sem finna kastara í stofuna, ganga frá fataskápum og fleira og fleira. Einnig verð ég að veita dótturinni andlegan stuðning, þar sem hún er að stíga sín fyrstu skref sem barnfóstra í fullu starfi.

Þess á milli verðum við mæðginin í húsdýragarðinum, eða bara úti að leika.

Wednesday, June 01, 2005

 

Bonsjúr

Mikið öfundaði ég börnin mín í morgun. Það er útivistadagur í skólanum í dag og þau fá að vera úti í góða veðrinu í ALLAN DAG. Dóttirin var að fara í hjólreiðatúr í Nauthólsvík, þar sem átti ma. að skella sér í sjóinn og sonurinn var í alls kyns leikjum á skólalóðinni.

Ég dæsti við tilhugsunina að þurfa að sitja inni á skrifstofu í allan dag.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?