Saturday, September 30, 2006

 

Erfitt ad vera aldradur

Ég á ömmu og afa á lífi. Afi minn verður 95 ára í október og amma er 83 ára. Þau búa í þjónustuíbúð, því það er hvergi pláss fyrir þau á elliheimilum. Afi er búinn að vera í biðlista í langan tíma, en amma er ekki einu sinni orðin hæf fyrir elliheimili. Þar af leiðandi verður hann sjálfsagt settur á elliheimilið á undan henni. Þetta eru hjón sem eru búin að vera saman í rúmlega sextíu ár og nú á allt í einu að fara að stía þeim í sundur. Það finnst mér algert hneyksli. Mér finnst þó enn verra að láta 83 ára gamla, astmaveika konu, þurfa að hugsa um aldraðan eiginmann sinn. Mann sem er svo utan við sig og kalkaður að það þarf að passa upp á hann 24/7.

Ég verð bara að segja að mér finnst þetta sorglegt. Ef það er þetta sem bíður mín, þá kvíðir mig fyrir því að verða gömul. Það er sorglegt að fullorðið fólk þurfi að búa við svona aðstæður. Er virkilega ekki hægt að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld? Það er stöðugt verið að tönglast á því að útrýma biðlistum á leiðskólum, en mér sýnist þetta farið að vera miklu stærra vandamál.

Strax eftir helgina ætla ég að byrja að hringja og kvarta og rífast. Það virðist vera það eina sem dugar í þessu þjóðfélagi. Veit einhver símann hjá Villa borgarstjóra?

Thursday, September 28, 2006

 

Frí á morgun

Ég verð í fríi frá vinnunni á morgun. Það er hálfpartinn af illri nauðsyn þar sem kennarar eru með starfsdag í skólanum. Það þýðir samt ekki að ég ætla að liggja í leti allan daginn, heldur gefst tækifæri til að útrétta ýmislegt (syni mínum til mikillar ánægju).

1. Fara með kisu í sína árlegu sprautu. Ég ætla rétt að vona að ég sleppi betur frá því en Hildigunnur.
2. Fara með bílinn í skoðun. Ég er svolítið hrædd um að ég fái ekki skoðun á bílinn. Það er eitthvað sem segir mér að það að geta bakkað með handbremsur í botni lofi ekki góðu.
3. Fara í Tryggingastofnun og fá endurgreiðslu. Börnin mín eru búin að fara það oft til læknis á árinu að ég er komin með kvótann fyrir afsláttarkort.
4. Skoða hillur í Ikea. Mig langar að reyna að koma skipulagi á geymsluna mína.

Annars er það helst í fréttum að ég er ekki ennþá farin að fá Fréttablaðið (búin að hringja tvisvar í vikunni) og smiðurinn er byrjaður á pallinum. Ég á eftir að taka endanlega ákvörðun með hæðina á skjólveggnum, því smiðurinn telur að 150 cm þýði skuggasvæði.

Monday, September 25, 2006

 

Mánudagsmorgun

Ég byrjaði daginn með því að mæta á fund hjá skólastjóranum. Sonurinn hafði komið sér í vandræði eina ferðina enn. Þeir vinirnir höfðu tekið sig til og brotið nokkrar flísar utan á skólanum. Vinurinn harðneitaði að hafa gert nokkuð annað en horft á, en sonur minn hélt því ákveðið fram að vinurinn hafði rétt honum steinana til að kasta í flísarnar. Þar sem sonur minn er vandræðapési og hinn ekki, getið þið ímyndað ykkur hvorum þeirra var trúað. Vinurinn og móðir hans voru samt látin mæta á fundinn, því sekt hans var talin vera að hafa ekki látið vita. EN vinurinn sem hafði haldið því staðfastlega fram að hafa ekki gert neitt, fór aðeins að draga það til baka á fundinum og játaði svo loksins að hafa rétt steinana. Mér fannst það mjög gott, þó skólastjórinn hefði vilja gera sem minnst úr því. Þeir lofuðu að gera þetta aldrei aftur og standa vonandi við það.

Annars verð ég að segja það að mér finnst alveg stórfurðulegt að arkitekt hússins skuli hafa látið sér detta það í hug að klæða skólahúsnæði með brjótanlegum flísum. Þær brotna víst svo auðveldlega að það nægir að sparka fótbolta í þær, úr einhverri fjarlægð. Þetta býður bara hættunni heim og er mjög freistandi fyrir svona litla púka eins og son minn.

Sunday, September 24, 2006

 

No news today

Nei, ég ætla ekki að tala um NFS, þó það sé mikið í umræðunni í dag. Ég ætla að tala um mun persónulegra mál. Þannig er mál með vexti að það virðist eitthvað flækjast fyrir blaðberanum sem ber út í mínu hverfi, að það er auka lúga á jarðhæðinni, þar sem ég bý. Þar af leiðandi fæ ég engin dagblöð. Að vissu leyti er það jákvætt því ég slepp við ferðir í Sorpu til að henda blöðum, en stundum finnst mér ég vera alveg út á þekju í daglegum umræðum. Ég veit bara lítið sem ekkert hvað er í fréttum. Auðvitað gæti ég flett vefblöðum, en það er bara ekki það sama. Það er bara eitthvað við kaffibolla og dagblöð um helgar, sem vefblöð uppfylla ekki. Kannski er ég bara svona gamaldags.

Annars er ég að storka örlögunum (eða forlögunum) í þessum skrifuðu orðum. Jú, ég er að elda lasagna í hinu leirfatinu mínu, því eins og kom fram í eldra bloggi mínu missti ég hitt fatið í gólfið með skelfilegum afleiðingum. Ég læt ykkur vita hvað gerist í þetta skipti.

Wednesday, September 20, 2006

 

Skóladagur

Ég byrjaði daginn á því að mæta í námsefniskynningu hjá syninum. Hún fólst í því að nemendurnir tóku að sér kennsluna og við foreldrarnir vorum settir á skólabekk. Okkur var svo skipt niður á nokkrar stöðvar, sem við flökkuðum á milli. Sonurinn var mjög spenntur að fá að kenna móður sinni á Ritfinn og tók hlutverkið mjög alvarlega. Ég fékk tækifæri til að hitta stuðningsfulltrúann hans og eftir að hafa spjallað við hana góða stund, sannfærðist ég um að sonur minn er í góðum höndum. Hún er alveg að fara réttar leiðir að honum og virðist alveg kunna á honum tökin.

Í eftirmiðdaginn verður svo farið í hinn skólann, til dótturinnar. Þar á að ræða um netfíkn, punktakerfi og sjoppuferðir. Það er áætlað að sá fyrirlestur taki um tvo tíma. Þá verð ég búin að verja samtals fimm tímum í skólakynningum yfir daginn. Það er kannski bara ágætt að afgreiða þetta allt á einum degi.

Sunday, September 17, 2006

 

Cafe Oliver

Jæja, það er ýmislegt sem ég er að upplifa í fyrsta skipti í þessum mánuði. Fyrir tveimur vikum fór ég á mitt fyrsta Sálarball og í gærkvöldi(nótt) fór ég í fyrsta skipti inn á Cafe Oliver. Ég hafði verið í partíi hjá bróður mínum og þar sem allir voru að fara inn á þann stað, þá elti ég að sjálfsögðu bara hópinn.

Eftir að hafa beðið í töluverðan tíma í röð fyrir utan, var okkur hleypt inn. Það var bókstaflega troðið niðri, þá sérstaklega á dansgólfinu. Eftir tvær tilraunir til að dansa, ákvað ég að best væri að sleppa því. Ég var bara ekki að fíla stympingarnar sem áttu sér stað. Það var töluvert rólegra á efri hæðinni og þar var hægt að setjast niður. Ég sá að fólk var á öllum aldri þarna inni, þannig að mér leið ekkert eins og antikmublu (það kom mér töluvert á óvart). Þrátt fyrir að hafa skemmt mér ágætlega, held ég að verði ekkert æst að fara þarna inn aftur. Þetta var bara einhvern veginn ekki minn staður. Mig langar að finna stað, þar sem ekki er of margt fólk og það er nóg pláss til að dansa. Er það kannski bara orðið gamaldags.

Saturday, September 16, 2006

 

RIP

Í nótt eru nákvæmlega fimmtán ár síðan pabbi minn kvaddi þennan heim. Hann var sárþjáður, en engan veginn tilbúinn til að fara, enda bara 46 ára gamall. Ég sat hjá honum þessa síðustu nótt sem hann lifði og er það ennþá í fersku minni. Þrátt fyrir að það hafi verið hræðilegt að horfa upp á hann svona gegnumsýrðan af krabbameininu, er ég alltaf þakklát fyrir að hafa verið hjá honum þegar hann dó.

Ég átti alveg einstakan pabba. Hann var töffarinn sem aldrei varð fullorðinn. Gekk í leðurjakka og gallabuxum, með Ray ban sólgleraugu. Pabbi var mikill tónlistaráhugamaður og var í hljómsveit á "bítlaárunum". Ég var svo heppin að sjá hann á sviði, þegar Tónar tróðu upp í Hollywood mörgum árum seinna. Hann hafði einstakan húmor og var hrifinn af Woody Allen myndum.

Mér finnst sorglegast að börnin mín fengu aldrei að kynnast honum. Ég veit að þau hefðu dýrkað hann, því hann hefði örugglega ekki verið neinn venjulegur afi. Mér finnst líka sorglegt að við andlát hans missti ég samband við yngri hálf-systkin mín. Ég reyndi að halda sambandinu opnu til að byrja með, en það gekk ekki upp.

En svona er lífið.

Tuesday, September 12, 2006

 

Fylgifiskar

Ég hlakka alltaf til að borða hádegismat á þriðjudögum. Þá rölti ég nefnilega niðrá Suðurlandsbraut og kaupi mér heitan mat hjá Fylgifiskum. Ég hef aldrei verið nein sérstök fisk-æta, en það er alltaf svo góður matur hjá þeim.

Ellefti september var í gær. Hann er soldið sérstakur í mínum huga, því fyrir tveimur árum var það dagurinn sem hjónabandi mínu lauk. Ég man ennþá eftir því hvernig tilfinning það var, þegar maðurinn sem ég hafði búið með í tæp fjórtán ár, setti fötin sín í poka og gekk út. Ákvörðunin hafði verið tekin eitthvað áður, en við ákváðum í sameiningu að þetta yrði gert um helgi. Ellefti september var sem sagt laugardagur fyrir tveimur árum síðan. Ég ætla ekkert að fara nánar út í það allt saman, en veit það í hjarta mínu að þetta var rétt ákvörðun.

Monday, September 11, 2006

 

Tannlæknafælni

Ég er ein af þeim sem er skíthrædd við að fara til tannlæknis. Næmni mín á sársauka virðist vera í hámarki og ég skelf stundum hreinlega af hræðslu. Ekki bætir úr skák að ég datt ofan af vegg þegar ég var smábarn og við það skekktist kjálkinn minn. Þar sem það kom ekki í ljós fyrr en ég var orðin fullorðin, var lítið hægt að bæta úr því. Ég er sem sagt skökk í framan. OG ég á því mjög erfitt með að gapa hjá tannlækni.

Allavega. Ég er búin að finna alveg hreint frábæran tannlækni. Hann heitir því skemmtilega nafni Ingólfur Eldjárn. Hann er alger snillingur. Ekki nóg með að hann noti allar nýjustu græjurnar, heldur er hann líka eldfljótur og ég hef ekki fundið til sársauka hjá honum ennþá (sjö-níu-þrettán).

Tuesday, September 05, 2006

 

Blogg leti

Ég hef nú ekki verið sú duglegasta á blogginu undanfarið, enda virðist það ekki skipta miklu máli. Allavega. Langaði bara svo að punkta niður, hvað ég skemmti mér vel um helgina.

Lopapeysu/tjaldpartíið tókst alveg þrusuvel, þótt að færri hefðu mætt en áætlað var. Við "svilkonurnar" tókum völdin í eldhúsinu og göldruðum fram þessa líka ljúffengu sjávarréttasúpu, eftir uppskrift frá Óla kokk. Alveg ótrúlega einföld súpa, sem bragðast eins og hún hafi verið gerð frá grunni. Með þessu skárum við niður ca.100 rúnstykki. Þrátt fyrir að maturinn hafi heppnast vel, tók systir mín þá ákvörðun að á næsta ári (þetta er víst orðin hefð núna), ætlaði hún að redda grillum og láta fólk bara mæta með mat á grill. Mjög góð hugmynd, því þá situr hún ekki uppi með 30 lítra af súpu.

Sálarballið var alveg ágætt. Alveg stappað í Hlégarði og varla hægt að hreyfa sig á dansgólfinu. Þá var bara að nota olnbogana og gefa ekkert eftir. Eitthvað týndi maður nú af samferðafólki sínu, en ég var mestan hluta kvöldsins með Kristínu. Það má eiginlega segja að ég hafi kynnst henni almennilega þetta kvöld og komst að því að hún er jafn skemmtileg og bróðir hennar. Eftir ballið, var mikið vandamál að finna leigubíl. Við "svilkonurnar" gegnum því gallvaskar hálfa leiðina í bæinn, enda gott veður og hressandi að vera úti í fersku lofti. Við náðum svo loksins leigubíl við Úlfarsfell. Kristín vildi helst fara á Ölstofuna, en einhver lítil skynsemisrödd sagði mér að nú væri best að fara heim. Maður getur nú stundum verið skynsamur.

Friday, September 01, 2006

 

Helgin framundan

Þá er loksins komin helgi aftur. Þetta verður barnlaus helgi hjá mér, þannig að það verður nóg að gera. Mér finnst gott að þrífa og bardúsa í ró og næði.

Annars verður heilmikið fjör annað kvöld. Ég er boðin í lopapeysupartí, í Dalinn til systur og mágs. Það verður slegið upp tjaldi og búist við að 60-80 manns mæti á svæðið. Hún er svo dugleg hún systir mín að það hálfa væri nóg. Eftir partíið á svo að skella sér á Sálarball í Hlégarði. Það verður mitt fyrsta Sálarball og ég verð að viðurkenna að ég veit ekkert hvað ég er að fara út í. Ég veit bara að það verður rosalega gaman, enda félagsskapurinn eins og best verður á kosið.

Nú er bara eitt áhyggjuefni. Hvers konar fötum á maður að klæðast á tjaldpartí/Sálarball kvöldi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?