Thursday, March 31, 2005

 

Skúra, skrúbba og bóna

Það er alveg ótrúlega margt sem verður að ganga frá þegar skipt er um fasteign. Það þarf að pakka allri búslóð og flytja á nýjan stað. Það er líka ýmislegt smálegt sem þarf að að ganga frá í nýrri íbúð, sem er varla orðin standsett. Já, ég fæ afhent á morgun (á hádegi) og lendi því ekki á götunni. Þeir ætluðu að afhenda mér á mánudaginn, en þá barði mín í borð og sagði að það gengi bara ekki upp. Þess vegna flyt ég inn um helgina og þeir verða að fá að klára rest í næstu viku. Ég verð alein í blokkinni fyrsta mánuðinn eða svo, tja að vísu umkringd helling af fullvöxnum karlmönnum.

SVO er það sem mér finnst leiðinlegast. Það þarf að þrífa húsið hátt og lágt. Mér finnst alltaf erfiðara að þrífa fyrir aðra, því þá finnst mér ég þurfa að vanda mig svo rosalega mikið. JÆJA ofninn bíður. Nú bý ég vel að því að hafa þrifið allt svona vel fyrir jólin.

Thursday, March 24, 2005

 

Vonsvikin

Nei, það fór ekki allt að óskum. Ég fæ líklegast ekki íbúðina fyrr en næsta þriðjudag. Ég var frekar örg í gær og blótaði iðnaðarmönnunum í sand og ösku. Þegar ég hringdi í verkstjórann í gær, þá var hann í fríi og vissi ekkert um stöðu mála. Hann ráðlagði mér að hringja í eigandann og tala við hann. Eigandinn sagði að það hefði ekki náðst að klára fyrir páska og það yrði allt kapp lagt á að klára íbúðina á þriðjudaginn. Þegar ég spurði hann hvort ég ætti þá að tala við hann á þriðjudaginn var svarið "Nei talaðu við verkstjórann, ég verð í fríi".

Hvurnig geta þessir menn vogað sér að vera í fríi þegar þeir eru komnir fram yfir afhendingardagsetningu. Stundum held ég að sumir (og ég tek fram sumir) iðnaðarmenn hafi enga samvisku. Ég kem í dag getur kannski þýtt í dag, eða morgun eða bara einhvern tímann. Maður hefur nú oft eytt heilu dögunum í bið eftir iðnaðarmanni. Hvernig geta þeir leyft sér þetta. Ég held að þetta sé eina stéttinn sem getur leyft sér svona lagað.

En þetta er jú bara mín skoðun.

Wednesday, March 23, 2005

 

Hnútur

Það er ekki laust við að það sé spennuhnútur í maganum á mér í dag. Ég fæ að vita stöðu mála með nýju íbúðina mína eftir hádegi. Stóra spurningin er: Fæ ég afhent um páskana eða lendi ég á götunni 2.apríl. Ekki veit ég hvernig mér tekst að einbeita mér að vinnu í dag. Ég er heldur svartsýn eftir heimsókn mína í gærdag. Allir farnir kl. 4 og heilmikið eftir.

Á meðan er lítið annað að gera en að halda áfram að pakka í kassa og ryksuga. Ég hef nefnilega þá áráttu að ryksuga þegar eitthvað er að angra mig.

Tuesday, March 22, 2005

 

Living in a box

Það eru kassar út um allt. Heilt virki inni í stofu og á víð og dreifð um herbergi. Nú er verið að pakka búslóðinni og kassar fylltir hver af öðrum. Það er alveg sama hvað ég betla marga kassa, þeir eru alltaf orðnir fullir.

Talandi um að betla kassa. Hérna áður fyrr var ekki nokkuð vandamál að útvega sér kassa. ÁTVR var einn af þeim stöðum sem alltaf var hægt að fá kassa. En nú er tíðin önnur. Allar verslanir pressa sína kassa jafnóðum og eru ekki með þá á lager eins og áður. Nú verður maður að kaupa sér pappakassa í Bónus eða hjá Kassagerðinni.

Ja hérna, það var nú öðruvísi þegar ég var ung.

Thursday, March 17, 2005

 

Annar í hlaupabólu

Ég þurfti að fara með dótturina til læknis í gær. Ástæðan var einkennilegar bólur á baki og bringu. Hana klæjaði mikið og var helaum. Ég var hræddust um að einhver kvikindi hefðu tekið sér bólfestu undir húðinni og þá jafnvel að kisa hefði borið þau inn. EN ótrúlegt en satt, þá er hún komin með hlaupabólu í annað sinn. Það er víst þannig að veiran sem veldur hlaupabólu getur legið í dvala í líkamanum og breiðst svo út aftur í gengum taugaendana (mig minnir að læknirinn hafi útskýrt þetta þannig). Þannig að það var komið við í apóteki og keypt ofnæmislyf og kalamin sem á að draga úr kláðanum.

Ég get ekki sagt annað en að ég hafi verið fegin. Ég sá fyrir mér að þurfa að fara að skipta á öllum rúmum og þvo og þvo og þvo og frysta það sem ekki væri hægt að þvo.

Tuesday, March 15, 2005

 

Mánudagur

Gærdagurinn var með þeim verri mánudögum sem ég hef lifað. Hann var bara ergilegur frá upphafi til enda. Börnin voru óþekkari, vinnan var leiðinlegri og allt í þeim dúr. Ég mætti meira að segja á kóræfingu í gærkvöldi, tilbúin í að fá mína venjulegu upplyftingu, en þá var Sigrún í pirruðu skapi og allt gekk á afturfótunum. Hún er að breyta uppsetningu á einu laginu, og ég er bara alls ekki sátt við að þetta fallega lag sé flutt svona. Mér finnst það alveg tapa sjarma. EN hún verður víst að fá að ráða því.

ARGGGG. Ég var mjög fegin þegar dagurinn var loksins búin og ég lagðist á koddann.

Friday, March 11, 2005

 

Viva Versló

Það er ekki laust við að maður sé þreyttur í vinnunni í dag. En það er góð þreyta. Í gærkvöldi hitti ég fyrrum bekkjarfélaga mína úr Verslunarskólanum. Við höfum þann sið að hittast einu sinni á ári, eftir Nemendamót. Þar er skipst á persónuupplýsingum, hver er giftur og hver er skilin og hver er óléttur (ótrúlegt en satt) og hvernig börnin hafa það. Þetta er alltaf mikil skemmtun og mikið hlegið og spjallað (og borðað). Kristín sér um að halda uppi samræðum, með sínum einstaka húmor og svo eru náttúrulega rifjaðir upp gamlir dagar (við erum víst að verða 20 ára stúdentar á næsta ári).

Að þessu sinni var það Ólafur Haraldsson sem bauð okkur til veislu á þessum líka fína herragarði rétt við Gljúfrastein. Hann er nýlega búin að byggja sér herragarð í dönskum stíl. Mér finnst nú að Vala Matt verði að kynna sér þessa höll. Það voru mörg VÁ-in sem heyrðust í gær, enda hvergi til sparað.

Á næsta ári er ætlunin að fara fínt út að borða. Ég er strax farin að hlakka til.

Tuesday, March 08, 2005

 

Þvílíkur munaður

Síðasta helgi var stórkostleg, skemmtileg og frábær. Hver getur ekki skemmt sér í hópi 70 hressra kvenna (og reyndar eins karlmanns)?? Skemmtihelgin var í Munaðarnesi og aðaltilgangurinn var að æfa kórinn fyrir tónleika vorsins. EN það var margt annað brallað og heitu pottarnir óspart notaðir. Maturinn var góður og skemmtiatriði frábær. Síðan var tjúttað fram á nótt og að lokum fóru þeir allra hörðustu í partí og potta.

Það er mikil andleg upplyfting að syngja í kór. Maður kúplar sig frá áhyggjum hversdagsins og kemur trallandi heim. Ég sagði við Sigrúnu kórstjóra "Fyrst það er svona gaman í Munaðarnesi, hvernig verður þá í haust". Við erum nefnilega að fara til útlanda í haust og þar sem ég er nýbyrjuð, verður þetta fyrsta utanlandsreisa mín með kórnum.

Monday, March 07, 2005

 

Kemur á óvart?????





Your Dominant Intelligence is Musical Intelligence



Every part of your life has a beat, and you're often tapping your fingers or toes.
You enjoy sounds of all types, but you also find sound can distract you at the wrong time.
You are probably a gifted musician of some sort - even if you haven't realized it.
Also a music lover, you tend to appreciate artists of all kinds.

You would make a great musician, disc jockey, singer, or composer.



What Kind of Intelligence Do You Have?

Wednesday, March 02, 2005

 

Pælingar

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér götunöfnum undanfarið. Mér finnst stundum vanta meiri fjölbreytileika í nafnaval á nýjum hverfum. Mörg hverfi hafa sömu götuheiti eða mjög keimlík, eins og þessu hafa bara verið rimpað af á sem styðstum tíma. Hversu mikil vinna er eiginlega lögð í þetta? Er til nefnd á fullum launum sem situr sveitt yfir þessu allan daginn?

Það eru til mörg skemmtilega snúin götuheiti og svo önnur sem eru alveg út í hróa. Það er td. til Ægissíða á Hellu (er einhver sjór þar nálægt?) og svo er á Neskaupstað til gata sem heitir Bakkabakki (var ekki bara Bakki einfaldara). Einnig er líka til stutt gata í Keflavík sem heitir því fína nafni Frekjan.

Svona getur maður endalaust haldið áfram, eða hvað?.

Tuesday, March 01, 2005

 

Umferðarómenning

Ég bara get ekki hætt að tala um umferðina í höfuðborginni. Þessi egóismi sem er við lýði er alveg að gera mig brjálaða. Svona "hér kem ég og ræð öllu og er fyrstur og farðu frá" er bara eitthvað sem er mjög slæmt að sjá í umferðinni. Það að geta ekki hægt á sér eða hliðrað til fyrir hinum bílstjórunum. Og ég sem hélt að öll dýrin í skóginum ættu að vera vinir. Greinilega ekki til neinir bílar í skóginum.

Anda djúpt og svo allir saman nú "Einum unni ég manninum"...og sv. fr.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?