Monday, January 31, 2005

 

Lilya 4-ever

Ég horfði á þessa mynd seint í gærkvöldi. Ég gat ekki slitið mig frá henni. Þegar myndin var búin, sat ég stjörf og tárin hrundu niður kinnarnar. Ég grét yfir óréttlætinu í heiminum. Sú staðreynd að svona viðbjóður eigi sér stað, setti að mér hroll. Sú staðreynd að fjöldinn allur af börnum og unglingum séu neydd til að stunda vændi. Sú staðreynd að til er fjöldinn allur af mönnum sem notfærir sér svona börn og unglinga, sér til afbrigðilegrar fróunnar.

Þegar myndin var búin, fór ég inní svefnherbergið mitt. Þar láu börnin mín og sváfu vært. Ég gat ekki sofnað. Ég vildi bjarga öllum þessum börnum frá svona hræðilegum örlögum. Skyldi svonalagað vera til á Íslandi?

Thursday, January 27, 2005

 

Máttur gulrótarinnar

Sonur minn hefur verið erfiður á fætur í vetur. Hann er soddan drollari og lengi að koma sér í gang. Hann hefur líka verið uppreisnargjarn í skólanum. Ég var búin að reyna ýmsar aðferðir til að bæta hegðunina, en án árangurs.

Á mánudaginn síðasta, sagði hann mér frá nýju æði sem væri í gangi í bekknum. Strákarnir eru að safna Yu-Gi-Oh myndum og hann vildi náttúrulega vera með. Ég fékk þá snilldarhugmynd að gera við hann samning. Þá daga sem hann er snöggur á fætur og stilltur í skólanum, fær hann eina mynd. Pakkinn er seldur á tæpar 600 kr og eru í honum 9 myndir. Það þýðir að ég get keypt mér 9 daga frið, fyrir 600 kr.

Nú er bara að sjá hversu lengi þetta ráð dugar. En það er seinna tíma vandamál.

Tuesday, January 25, 2005

 

Geysisprettir

Sigrún kórstjóri hélt áfram á sínum geysispretti á kóræfingu í gærkvöldi. Ég held hreinlega að manneskjan sé að reyna að setja nýtt hraðamet. Við erum að vísu að æfa fyrir kóramót, vortónleika og utanlandsferð, svo það veitir víst ekki af. Þar sem þetta er annað árið mitt í kórnum, er ég ein af þeim sem andvarpa þegar hún segir "þetta höfum við nú sungið áður", eða "þetta kunna nú flestir frá ......". Það þýðir að ég þarf að leggja mig fram við nótnalestur, því það verður rennt yfir þetta lag nokkuð hratt og án þess að taka hverja rödd fyrir sig.

Annars vaknaði ég upp í nótt við það að önnur daman á heimilinu reyndi að læða kærastanum sínum inn um gluggann. Þegar ég hastaði á hana og sagði henni að þetta væri bannað í mínu húsi, leit hún á mig stórum, grænum augum og mjálmaði. Ég sé að ég verð að fara að æfa mig strax á ræðunni minni um að kærastar séu bannaðir um miðjar nætur.

Saturday, January 22, 2005

 

Innbrot

Það verður að viðurkennast að ég hef verið óróleg undanfarið Ástæðan er sú að það var brotist inn í hús í næstu götu. Innbrotsþjófarnir náðu að spenna upp lítinn geymsluglugga og smokra sér inn um opið. Þeir fóru mjög hljóðlega að þessu, því unglingsstelpa var heima sofandi og vaknaði ekki.

Ég var orðin soldið kærulaus með gluggana. Einfaldlega af því að mér fannst gott að skilja eftir rifu á einum glugga svo kisa kæmist sinni ferða. Hún er það gáfuð kisan mín að ef ég skildi eftir rifu, þá opnaði hún gluggann með loppunni. EN nú er sú sæla búin. Ég athuga alla glugga og dyr, í hvert sinn sem ég þarf að skreppa úr húsi. Kisa verður því að sætta sig við það að vera annað hvort lokuð inni eða úti.




Thursday, January 20, 2005

 

Bíllinn minn

Ég verð seint sökum um snobb þegar kemur að bílum. Mér nægir að bíllinn minn geti keyrt frá puntki A til punkts B. Undanfarið hef ég nú samt verið að spá í hvort það væri nú ekki betra að fara að huga að bílakaupum. Ég er nefnilega orðin ansi þreytt á því að þurfa að skafa rúðurnar meira að innan en að utan. Útvarpið þarf alltaf að vera stillt fremur hátt, svo það heyrist eitthvað í því og svo eru ryðblettir farnir að spretta fram eins og bólur hér og þar. Eitthvað eru síðan ljósin en að hrella mig, þrátt fyrir fagmannleg peruskipti.

Hvernig bíl ætti ég svo að kaupa. Það er náttúrulega bilun að kaupa nýjan bíl, því þeir hrynja niður í verði strax (er mér sagt). Draumabíllinn er Volkswagen, en þeir bílar eru bara fulldýrir fyrir minn smekk. Ég vil ekki þurfa að taka róandi töflur áður en ég sest undir stýri, vegna ótta við að klessa dýrgripinn. Skoda kemur sterklega til greina, þó að vissir fordómar séu alltaf í gangi hjá sumu fólki. Mig langar í einhvern lipran, sparneytinn bíl, svona í svipaðri stærð og VW Golf en ekki svo dýran. Any suggestions???

Tuesday, January 18, 2005

 

Quite the kraftsman

Haldið þið ekki bara að ég hafi afrekað það í morgun að skipta um perur í framljósunum á bílnum. Mín dó sko ekki ráðalaus og að sjálfsögðu þar sem ég er þekkt sem heimsins mesti þrjóskupúki ætlaði ég sko ekki að fá neinn karlmann til að hjálpa mér við verkið.

Ég get ekki sagt að það hafi verið auðvelt. Það er bannað að snerta perurnar sjálfar sem getur verið soldið erfitt þegar þarf að smokra perunum í þar til gerð ljósastæði. EN ég gat það og nú geta hinir bílstjórarnir hætt að blikka mig.

Ekki bætti úr skák þegar fyrrverandi maðurinn minn, bauðst til að gera þetta fyrir mig því þetta "væri svo auðvelt". Þá VARÐ ég að geta þetta sjálf. Ekki hægt að segja annað en að egóið hafið farið upp um nokkur þrep í morgun.

Monday, January 17, 2005

 

Nostalgía

Ég geri töluvert af því að kynna dóttur mína fyrir eðalmyndum áttunda áratugsins. Það var því létt nostalgía á ferðinni um helgina. Myndin hefur alveg haldið sínu og fatnaðurinn í ekta eitís stíl.



Þessi mynd var mjög vinsæl á sínum tíma og margar tilvitnanir í henni algerir gullmolar.


Friday, January 14, 2005

 

Kaffihólisti

Espresso!
Þú ert með eindæmum sjálfsöruggur einstaklingur. Þú ert vandvirkur og samviskusamur en lætur það þó stundum eftir þér að fresta verkefnum til morguns. Þú ert á sífelldri hraðferð án þess þó að það hái þér á nokkurn hátt.

Þú ert 30 ml af mikið brenndu eðalkaffi.

Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Espresso!
30 ml af mikið brenndu eðalkaffi.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?


Thursday, January 13, 2005

 

Lítill heimur

Maður heyrir oft talað um það hvað heimurinn sé lítill og þá líka hvað Ísland sé pínulítið. Það þarf ekki að tala lengi við fólk til að komast að því að maður tengist því á einhvern hátt.

Undanfarið hef ég verið að kynnast því að bloggheimurinn er ekki ýkja stór heldur. Fyrst rakst ég á bloggritara á tónleikum og í gær rakst ég á annan bloggritara. Ekki í persónu, heldur á blaði. Ég var stödd á fyrstu kóræfingu eftir hlé og fyrsta lagið sem tekið var fyrir á æfingunni var "Hætt'að gráta hringaná". Nú hver skyldi hafa útsett lagið nema Hildigunnur Rúnarsdóttir aka Hildigunnur. Ég gat ekki annað en brosað út í annað. Ekki minnkaði brosið þegar kórstjórinn tilkynnti okkur að sú ágæta Hildigunnur væri að útsetja fleiri lög fyrir kórinn.

Mér finnst þessi aðstaða soldið sérstök. Maður þekkir ekki viðkomandi, en veit samt svo margt um hann/hana. BTW Hildigunnur, ef þú lest þetta, þá finnst mér útsetningin þín alveg brilliant.

Wednesday, January 12, 2005

 

Blómabani

Ég er soldið stressuð þessa dagana. Ástæðan er sú að mágkona mín, ákvað að treysta mér fyrir pottablómunum sínum. Það vita það allir sem þekkja mig að ég er engin blómamanneskja og snillingur í að drepa pottablóm. Ég hef meira að segja gengið svo langt að drepa kaktus. Ég er þrjósk, en varð að láta undan í þetta skiptið og viðurkenna mig sigraða. Systir mín sá lausn á þessu og gaf mér silkiblóm í afmælisgjöf.

Ekki bætir úr skák að Trítla er mjög hrifin af þessum nýju leikföngum og notar hvert tækifæri til að snyrta þau aðeins. Hún veit fullvel að hún má það ekki, en þau eru bara svo freistandi.


Monday, January 10, 2005

 

Jæja

Þá er maður búin að valda hjónaskilnaði í Hollíwúd. Ég vissi það alltaf að Brad Pitt væri eitthvað spenntur fyrir mér, en þetta sannar mál mitt enn frekar. Blekið varla þurrt á skilnaðarpappírunum mínum, þegar hann ákveður að skilja við Jennifer.

Hva maður getur alltaf látið sig dreyma ;)




Tuesday, January 04, 2005

 

Nýtt ár

Jæja, þá er bara komið splunkunýtt ár. Mér til mikillar furðu, táraðist ég ekkert yfir "Nú árið er liðið" eins og ég hef gert síðan ég var krakki. Sjálfsagt að herðast upp með aldrinum. Talandi um aldur, þá er ég búin að komast illilega að því að skrokkurinn er ekki í góðu ástandi. Bakið á mér næstum búið að gefa sig á fyrsta í snjómokstri og janúar rétt að byrja. Ég hef alltaf sagt það að storkurinn hafi villst. Ég á greinilega heima í hlýrra loftslagi. Kannski spurning að skella sér til Ástralíu, þar sem núna er mitt sumar.

Annars var ég að horfa á Stöð 2 seint í gærkvöldi, þar sem sólarhringurinn er ennþá hálf viðsnúinn. Ég get ekki sagt að ég eigi eftir að sjá mikið eftir afruglaranum. Þvílíkt bull sem var í gangi. Þáttur um flugfreyjur og þjóna, sem skv. þessum þætti gera lítið annað en drekka, dópa og stunda kynsvall.

Ja hérna, ég átti bara ekki til orð. Kannski maður sé bara að verða gömul.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?