Saturday, September 29, 2007

 

Bissí

Undanfarin vika er búin að vera mjög erilsöm. Ekkert sérstakt í gangi, bara mikið að gera í vinnunni og líka á heimilinu. Ég er samt ekkert að beila á ræktinni, mæti samviskusamlega þrisvar í viku. Ég held að það sé bara alveg nóg til að byrja með.

Í gærkvöldi var ég orðin svo þreytt, að klukkan ellefu var ég alveg að lognast út af. Gat bara engan veginn haldið augunum opnum. Vaknaði svo endurnærð snemma í morgun og er búin að nota daginn til að endurhlaða batteríin. Þvældist um á netinu, horfði á DVD og las blöðin. Blandaði smá húsverkum þar á milli.

Eitt af því sem ég vildi alveg sjá í sjónvarpi, er spjallþáttur Ellen DeGeneres. Mér finnst hann stórskemmtilegur.

Wednesday, September 19, 2007

 

Ræktin

Jú, þið lásuð rétt. Gamla konan er byrjuð í ræktinni (aftur!). Ég hef ekki stigið fæti inn á líkamsræktarstöð í fimm ár, svo það er ekki seinna vænna. Blóðþrýstingurinn hefur hækkað, þrekið og þolið minnkað og aukakílóin hafa smám saman hlaðist utan á mig.

Ég ákvað að kaupa mér árskort í Versölum. Stöðin er ekki stór, en tækjakostur er ágætur. Ég hitti þjálfara áðan, sem bjó til prógram handa mér og setti mig í gang. Prógramið er frekar létt til að byrja með og ég á að mæta þrisvar í viku. Ég fann svolítið fyrir blóðþrýstingnum þegar ég reyndi á mig, svo ég held að það sé ráð að fara að hitta heimilislækninn. Það var nú svolítið skondið þegar hann mætti áðan (er greinilega að rækta sig á sama stað) og fór á göngubrettið við hliðina á mér. Og klaufinn ég náði að missa I-podinn minn, sem skutlaðist af brettinu.

Fyrsta markmiðið sem ég setti mér...er að mæta þrisvar í viku.

Sunday, September 16, 2007

 

Dagur fjögur

Við byrjuðum daginn á góðum morgunverði og síðan var klárað að ganga frá farangri. Við tékkuðum okkur snemma út og fengum að geyma töskurnar í móttökunni. Síðan var lagt af stað í skoðunarferð.

Við byrjuðum á Madame Tussauds. Þar sem það voru orðin tuttugu ár síðan ég hafði farið í safnið, þá fékk ég jafnmikið út úr því og dóttirin. Það var fullt af frægu fólki á staðnum og ég gat notað tækifærið og frætt dótturina um þjóðhöfðingja og mikilmenni nútímans og fortíðarinnar. Eftir vaxmyndasafnið var Jubilee lestin tekin niður að Westminister og stefnan tekin á London Eye (again!). Það var jafnvel flottara að sjá borgina í dagsbirtunni. Þar á eftir voru keyptar sykurbrúnaðar möndlur á brúnni og haldið yfir í Westminister Abbey, þar sem reyna átti að skoða kirkjuna að innan. En, því miður, kirkjan var lokuð fyrir almenning þar sem messuhald fór fram. Við vorum ekki alveg tilbúnar að fórna klukkutíma í messu og kirkjuvörðurinn gaf sig ekki. Við máttum ekki einu sinni kíkja í andyrið, þrátt fyrir að messa væri ekki hafin.

Næsti viðkomustaður var Tower Bridge og London Tower. Við létum okkur nægja að sjá London Tower að utanverðu, því það var ekki tími til að standa í biðröð. Við þurftum að hitta samferðarfólk okkar í lobbíinu klukkan sex, og því var komin tími til að halda "heim" að hótelinu. Við enduðum ferðina á sama hátt og við hófum hana, á Starbucks. Tveir stórir Caramel Frappuchino, áður en leigubíll var tekinn út á flugvöll. Eitthvað var að vísu óljóst með heimferð, því flugmenn voru í yfirvinnuverkfalli. Sem betur fer varð töfin aðeins rúmur klukkutími.

Við vorum frekar þreyttar þegar við lentum á Íslandi og drifum okkur í gegnum fríhöfn. Ég þurfti aðeins að átta mig á því hvernig ég næði bílnum úr gæslunni, en svo var keyrt af stað heim. Á leiðinni spurði ég dóttur mína hvert við ættum að fara næst. Það stóð ekki á svari "Til París!!!"

Thursday, September 13, 2007

 

Dagur þrjú

Eftir staðgóðan morgunverð, var haldið af stað, fótgangandi, niður í Notting Hill hverfið. Ætlunin var að taka Portobello markaðinn með trompi. Þegar við komum fyrir hornið inn á Portobello götu, var allt fullt af fólki. Laugardagar eru auglýstir sem antík-dagar, svo það var fullt af antík-vöru í boði. Við skoðuðum þó aðallega skartgripi og minjagripi. Dóttirin keypti sér að sjálfsögðu skartgripi, enda mikið fyrir slíkt. Ég keypti voða krúttlegan bol á bróðurson minn og samfellu á ófædda barnið sem systir mín á von á í lok október. Það barn er nú þegar orðin heimsborgari, á samfellur frá London og New York. Við sáum margt sniðugt á markaðnum, en ekkert sló út gamla hippann sem rölti um með hundinn á herðunum. Áður en við yfirgáfum markaðinn, freistuðumst við til að kaupa okkur brownie með belgísku súkkulaði, sem hreinlega bráðnaði uppí munni. Því næst var haldið upp á Notting Hill stöðina, þar sem June fræddi okkur um hvað væri hagstæðast að versla í lestarmiðum.

Næsti áfangastaður var Oxford Circus. Dóttirin vildi halda áfram í tuskubúðarápi og ég var búin að lofa syninum gjöfum frá London. Við fórum því í hina risastóru Hamleys leikfangaverslun. Hún telur heilar sex hæðir, með topphæð og kjallara. Ég myndi ekki vilja fara með barn þarna inn. Þau bara hreinlega tapa sér. Eitthvað náði ég að versla á mig sjálfa, heilar tvennar buxur, tvenna skó og forláta tösku, sem hreinlega kallaði á mig í H&M. Ég hef ekki tölu á því hvað dóttirin verslaði mikið. Og jú, eitthvað keyptum við af DVD myndum, ég bara varð að kaupa tvenna Prince tónleika og tveir tölvuleikir (kostuðu 7 pund stk.) flutu með.

Þegar klukkan var orðin sex, var hungrið farið að segja alverulega til sín. Við tókum því lykkju á leið okkar og fengum okkur mjög góðar samlokur í hliðargötu. Ristuð panini, vel útilátin með fersku salati "til hliðar". Því næst var haldið upp á hótel með alla pokana, stutt stopp og svo tekin lest niður á Westminister. Big Ben var ótrúlega flottur í flóðljósunum. Ég hef aldrei séð hann að kvöldlagi áður. Við skelltum okkur einn hring í London Eye, og sáum yfir upplýsta borgina. Eitthvað fór um okkur þegar við nálguðumst toppinn, enda báðar frekar lofthræddar. Það gleymdist samt, því útsýnið var svo hrikalega flott.

Tuesday, September 11, 2007

 

Dagur tvö

Við mæðgurnar mættum um tíuleytið í morgunmatinn. Það var ekki hægt að setja út á hlaðborðið, fullt af girnilegum mat til að smakka. Eftir morgunmat og smá snyrtingu var haldið af stað í Covent Garden. Upprunaleg plön um að hitta netvinkonu mína fóru út um þúfur, svo við létum okkur nægja að kíkja í Carhartt og Diesel búð og svo keyptum við skó í M&S. Eftir Covent Garden var kortið tekið upp og stefnan tekin á Oxford Street. Gamla konan þurfti að kaupa sér þægilega crocs skó, því stærðar blaðra var að myndast á vinstri ilinni. Eftir skóskipti var ég fullfær í heilmikið þramm. Við röltum Oxford stræti alveg niður að Oxford Circus, með stoppi í nokkrum tuskubúðum fyrir dótturina. Þegar við komum niður á Oxford Circus, sáum við að klukkan var að nálgast fimm þrjátíu og því ekki seinna vænna að halda heim á hótel og gera sig klárar fyrir kvöldverðinn.

Klukkan rúmlega sjö, var komið á Hakkasan, eftir krókaleiðir í leigubíl. Hakkasan virkar mjög óspennandi að utan, en þegar við vorum komin niður stigann og fram hjá andyrinu, blasti við nútímalegur og hávær veitingastaður. Þjónustan var frábær, frá því að við settumst niður og dótturinni fannst mjög spennandi að láta stjana við sig (enda ekki vön því). Fyrstu réttirnir sem við fengum voru forréttir, salat með crispy önd og dim sum. Öndin var mjög góð, dim sum var forvitnilegt (hef ekki smakkað þannig áður). Með þessu var drukkið öndvegis hvítvín. Eftir forréttina komu fimm aðalréttir, þorskur (sem var mjög bragðmikill), steiktir kryddlegnir sveppir (3 tegundir), kjúklingur í sósu sem var örlítið sæt, lambarifjur (hét samt lambchops) og humar í kryddlegi. Allir réttirnir voru ótrúlega góðir, fyrir utan þorskinn sem mér fannst fullmikið "fiskbragð" af. Með þessu fengum við líka mjög gott grænmeti. Hvítvínsglasið var fyllt reglulega og áður en við vissum af vorum við búin með þrjár flöskur (sjö manns). Eftir aðalréttina var komið með eftirréttina og þeir voru ekkert síður góðir. Ég leyfði dótturinni að sjá að mestu um eftirréttina og ákvað að skella mér á einn Mojito, eftir meðmæli frá Sigga. Ég sá ekki eftir því, besti Mojito sem ég hef smakkað. Ég mæli með ferð á Hakkasan og endilega að kíkja á klósettin, ef þið getið fundið þau. Þau eru nefnilega hálf falin inn í vegg.

Eftir Hakkasan lá leið niður í Soho hverfið. Við gengum í gengum Kínahliðið og settumst inn á nokkra pöbba. Stemmningin var góð og allir í fínu formi. Eftir pöbbarölt var tekin síðasta lest heim á hótel. Í lestinni hittum við mann með hvítvínsflösku, sem var alls ekki til í að deila henni með okkur þrátt fyrir tilmæli frá Sigga. Hann fattaði nefnilega ekki djókið í okkur. "Excellent Choice".

Monday, September 10, 2007

 

Prince tónleikar í O2

"Dearly beloved, we are gathered here today, to get through this thing called life". Þannig opnaði Prince tónleikana, við gífurleg fagnaðarlæti áhorfenda. Ég þurfti ekki að heyra nema hljóminn í byrjun lagsins til að fatta hvaða lag var fyrst. Eftir stuttan kafla, renndi Prince beint í 1999, sem hann tók í fullri lengd. Prince var kraftmikill á sviði og sitt hvoru meginn við hann stóðu "the twinz", tvær lögulegar stúlkur sem dönsuðu og hristu sig af krafti. Eftir 1999 tók hann eitt af mínum uppáhaldslögum Take me with U, og ég söng hástöfum með. Ég er ekki frá því að dóttirin hafi fílað það lag. Eftir það fylgdu lögin Cream, U got the look og Musicology. Allt lög sem ég þekkti vel og gat sungið með (dóttirinni til mikillar ánægju). Þar á eftir byrjaði hann á gítarsólóið úr The question of U, en tók ekki lagið heldur breytti yfir í The One. Inn í það lag fléttaði hann flutning á Falling með Aliciu Keys (?), sem kom vel út. Eftir þetta tók saxafónleikari við og flutti mjög flott sóló, þar sem hann tók svo langar nótur að maður velti því fyrir sér hvort maðurinn þyrfti ekki örugglega að anda.

Eftir þennan flutning skipti hann yfir á hljómborð og byrjaði á The Morning Papers. Þar á eftir tók hann hvern stóran smellinn á fætur öðrum: Diamonds and Pearls, The Beautiful Ones, sem er eitt af mínum uppáhaldslögum, Insatiable, Little Red Corvette og endaði á Sometimes it snows in April. Eftir þetta sett, skipti hann aftur yfir í fulla hljómsveit með dönsurum og tók lög á borð við: If I was your girlfriend, Black Sweat, Kiss og endaði á langri útgáfu af Purple Rain, þar sem áhorfendur tóku vel undir. Eftir það lag kvaddi hann og fór. Ég held að hann hafi ekki verið nógu ánægður með undirtektir.

Þegar hann gekk af sviði, varð allt vitlaust í höllinni. Áhorfendur öskruðu, klöppuðu og stöppuðu. Prince lét bíða smá stund eftir sér,birtist svo aftur og tók lögin I feel for you sem Chaka Khan gerði vinsælt ,renndi svo beint í Controversy en síðan tók bakraddarsöngkona við og söng lagið Crazy með Gnarls Barkley og þá fór nú að færast líf í dótturina. Prince gekk um sviðið í blikkskóm, svipuðum og krakkar eru voða hrifnir af. Hann endaði svo á laginu Nothing compares 2 U. Aftur fór Prince af sviði og allt varð vitlaust. Núna lét hann bíða aðeins lengur eftir sér, en ég vissi að hann kæmi aftur því ljós voru ekki kveikt í höllinni. Að lokum kom hann á sviðið og tók sóló á hljómborð. Hann tók kafla úr Sign of the times, When Doves Cry, Pop life, Alphabet Street, Erotic City, DMSR, Nasty Girl, I wanna be your lover og endaði svo á Rasberry Beret. Og ég söng að sjálfsögðu hástöfum með. Eftir það sagði hann "thank you, good nite" og hvarf endanlega af sviði.

Í þessu setti lék hann á alls oddi, byrjaði td. á Pop Life og stoppaði svo og sagði "No thats to funky for you" og byrjaði að ganga af sviði til að stríða áhorfendum. Hann var að sjálfsögðu öskraður til baka". Hann sagði nokkrum sinnum "I dont know what to play. So many Hits", bauð áhorfendum að velja hvað hann ætti að spila næst og breytti textanum í Little Red Corvette, sagði "it was Saturday night...or Thursday" og í Kiss breytti hann "you dont have to watch Dynasty í Big Brother". Uppáhaldið mitt var samt að í lok Rasberry Beret, þegar hann sagði "I think I love her" bætti hann við "I love you too" svo ógurlega sætt eitthvað. Það er hægt að sjá brot úr því hérna http://www.youtube.com/watch?v=kNFVZacLUMU

Prince var í fínu formi. Hann stjórnaði fjöldasöng, talaði við áhorfendur og gekk um allt sviðið. Hann sagði "London, this is my house. I dont care who was here before, I dont care who comes after, this is myhouse. Svo sagðist hann geta haldið 52 tónleika í stað 21 og að ef hann ætti að spila öll lögin, þá yrðum við að til morguns (sem var vel tekið undir).

Ég var í þvílíku rússi eftir tónleikana og gekk út með risastórt bros á andlitinu. Við fengum okkur einn bjór eftir tónleika og svo var haldið heim á hótel. Við Friðrik sungum aðeins í lestinni, þó aðallega Friðrik sem er mikill Prince aðdáandi. "RAAASBEERRYY BERET" hljómaði um alla lest. Ég sofnaði örþreytt, en dreymdi alla nóttina að ég væri ennþá á tónleikum.

 

Fyrsti dagur

Við vorum fremur svefndrukknar, mæðgurnar, þegar við lögðum af stað í ævintýraferðina um kl. 5 á fimmtudagsmorgni. Þegar við vorum búnar að tékka okkur inn, borðuðum við morgunmat í rólegheitunum og rétt kíktum í Fríhöfnina. Dóttirin náði að sofa af sér næstum alla flugferðina, þrátt fyrir hávaðasama Íslendinga sem voru að ferðast "upp á gamla mátann".

Þegar við komum til London, tókum við hraðlest upp á Paddington lestarstöðina. Þar rak dóttirin augun í Starbucks og þar sem hún var ennþá undir amerískum áhrifum varð að koma þar við og fá sér "tall caramel frappuchino". Síðan var tekinn leigubíll upp á hótel. Hótelherbergið var ágætt, hreinlegt og svona í miðjuklassa. Við tókum upp úr töskum og hringdum síðan í samferðafólkið okkar. Það var ákveðið að hittast í lobbíi um sexleytið til að leggja af stað á tónleikana. Dóttirin var orðin óþreyjufull að komast aðeins út og skoða sig um, svo við tókum smá göngu um nánasta umhverfi. Fórum niður í Notting Hill, en þar var enginn markaður þann daginn.

Klukkan sex var svo haldið af stað til Millenium dome. Höllin var rosalega flott, ný og glæsileg. Það var ekkert mál að finna sæti, sem reyndust vera á mjög góðum stað og síðan var beðið eftir að Prinsinn stigi á svið.

 

Ævintýraferð til Lundúna

Þessi ferð var ein alsherjar skemmtiferð frá upphafi til enda. Það er alveg ótrúlegt hvað er hægt að pakka miklu á fjóra daga. Ég var frekar þreytt í dag, en ennþá í sæluvímu eftir ferðina.

Ég hef ákveðið að skrifa nokkuð ítarlega um ferðina, bara svona fyrir sjálfa mig. Það er nefnilega svo margt sem vill gleymast og ég vil ekki gleyma neinu úr þessari ferð.

Wednesday, September 05, 2007

 

Prince tónleikar á morgun

Ég er búin að kaupa miða á Prince tónleikana á morgun. Ég náði að bjóða í miða á ebay og vann. Þetta eru mjög góðir miðar, á neðra svæði fyrir framan sviðið. Ég borgaði 35pundum meira fyrir miðana, en ég er viss um að það er þess virði.

Þetta er alveg ótrúlegt, fyrst Duran Duran og núna Prince.

Núna þarf ég bara að finna mér eitthvað fjólublátt. Það stendur á miðunum "wear something purple".

This page is powered by Blogger. Isn't yours?