Thursday, June 04, 2009

 

Á tali

Mikið er ég nú fegin að vera ekki viðskiptavinur símafyrirtækisins Tals. Ég er bara allt of óþolinmóð. En þar sem kærastinn minn er hjá Tal og vill komast í þá GSM þjónustu að geta hringt ókeypis í mig, þá tók ég að mér að redda málunum.

Í gær eyddi ég fjörutíu mínútum af mínu lífi í að bíða eftir þjónustufulltrúa í verslun Tals á Suðurlandsbrautinni. Eftir þessar fjörutíu mínútur voru ennþá fimm á undan mér í röðinni. Þá varð að yfirgefa svæðið til að keyra dótturina í vinnuna. Sem sagt hundfúlt og án árangurs.

Í dag ákvað ég svo að fara hina leiðina og nota símann. Fyrst beið ég í korter eftir þjónustufulltrúa og var heillengi númer 7 í röðinni. Þegar loksins var svarað, þurfti sá þjónustufulltrúi að gefa mér samband við GSM þjónustufulltrúann og þá tók við önnur bið. Þegar ég svo loksins náði sambandi, komst ég að því að þessi þjónusta, sem Tal hefur verið að auglýsa grimmt, er ekki kominn í gagnið og einhver ófyrirsjáanleg bið á því.

Þangað til verð ég bara að hringja ókeypis í hann, því símafyrirtækið sem ég skipti við er löngu komið með þessa þjónustu og aldrei neitt vandamál þar á ferðinni.

Friday, May 15, 2009

 

Júróvision

Ég held bara svei mér þá að ég sé alveg dottin í Júróvision keppnina í ár. Það er amk mjög langt síðan ég hef verið svona áhugasöm um þessa keppni. Ég horfði á báðar undankeppnirnar og verð bara að segja að mér finnst nú fátt um fína drætti.

EN ég hugsa að Noregur eða Grikkland komi sterklega til greina sem sigurvegarar. Hef að vísu ekki ennþá heyrt þau lög sem fara beint í úrslitakeppnina, svo ég er ekki alveg dómbær. Maður þorir nú bara varla að spá Íslandi sigri, nei ég meina svona seriously, hvar myndum við halda þessa keppni??

Annars finnst mér lagið frá Estoniu best. Það er bara eitthvað frumlegt og töff við það og lagið er vel flutt.

Monday, May 11, 2009

 

Bloggleysi

Ég held að ég sé að setja nýtt met í bloggleysi. Bloggþörfin hefur bara ekki verið til staðar undanfarið. Það er nú svo sem ekkert merkilegt að gerast í mínu lífi. Ég gæti svo sem bloggað um það að ég sit sveitt yfir bókhaldi og er að reyna að klára að ganga frá ársreikningi. Ég þarf svo í framhaldi að skila því til skattsins og gera skattframtal. Þetta hefur heltekið líf mitt soldið undanfarið, þar sem ég er að gera þetta í fyrsta skipti og jafnvel ekki alltaf klár á því hvað ég er að gera. EN maður lærir víst og þetta verður miklu einfaldara næst...

Svo er bara sumarið framundan með siglingum og útilegum. Það verður sko ekki leiðinlegt.

Sunday, April 12, 2009

 

Fullkominn afmælisdagur

Ég held að ég geti alveg fullyrt að afmælisdagurinn í gær var sá besti sem ég hef upplifað hingað til. Dagurinn byrjaði á því að Baldvin fór og sótti súkkulaðitertu handa afmælisbarningu. Hann er nefnilega löngu búinn að átta sig á því að kærastan er súkkulaðifíkill. Ég fékk því súkkulaðiköku í morgunmat í fyrsta skipti á ævinni.

Það var ekki eina súkkulaðikakan sem ég fékk þennan dag, því í eftirmiðdaginn komu dóttirin og kærastinn hennar og bökuðu fyrir mig dýrindis franska súkkulaðiköku með hindberjasósu og bræddu súkkulaði. Og þá er ekki allt upptalið því um kvöldið grillaði svo besti kærasti í heimi, humar og nautakjöt.

Yfir daginn rigndi svo afmæliskveðjum yfir mig, bæði í síma og á Facebook. Ég var virkilega snortin yfir öllum kveðjunum sem ég fékk.

Í mínum augum var þetta uppskriftin af fullkomnum afmælisdegi og mér leið svo sannarlega eins og ofdekraðri prinsessu.

Monday, March 30, 2009

 

Lundúnir

Ég held að það verði bara að segjast að mér þyki aldrei leiðinlegt að koma til London. Þessi ferð var að vísu töluvert frábrugðin fyrri ferðum, þar sem ekkert var skipulagt og ekkert var verslað. Sem sagt mjög ólíkt því sem ég á að venjast.

EN þetta var frábær ferð í alla staði. Við fórum á söfn, til Greenwich, röltum um bæinn (Covent Garden, Trafalgar Square, Leichester Sqare, Piccadilly Circus, Chinatown, Soho, Charing Cross Road og eftir árbakkanum hjá Tower Bridge), þrömmuðum upp allar tröppurnar í St.Pauls, fórum í leikhús, átum fish and chips og drukkum Guiness bjór. Ég smakkaði hann að vísu í fyrsta skipti í þessari ferð og fannst hann mjög góður. Ég upplifði það líka í fyrsta sinn að fara inn á listasafn og sjá málverk eftir stóru meistarana (Van Gough, Picasso, Renoir, Degas, Monet, Manet, Michaelangelo, DaVinci, Rafael, Rembrant, Cézanne og fleiri og fleiri). Það fannst mér alveg mögnuð upplifun.

OGGG að sjálfsögðu tókum við þátt í mótmælunum á laugardeginum...nema hvað.

Sunday, March 22, 2009

 

Þrír dagar í Londonferð

Ég veit, ég er orðin fastagestur í þessari borg. Það liggur við að ég geti farið að sækja um afsláttarkort eða lestarkort. Ég er sem sagt að fara þriðju ferðina til London á frekar stuttum tíma...tja stuttum tíma miðað við að áður hafði ég ekki farið til borgarinnar í 20 ár.

Aldrei þessu vant er ég ekki búin að skipuleggja neitt viðkomandi ferðina. Ég er nefnilega ein af þessum skipulögðu týpum, sem vill yfirleitt vera komin með nokkuð góða hugmynd að dagskrá þegar ég ferðast. Það hefur alltaf komið í minn hlut að skipuleggja dagskrá og stýra ferðinni...og finnst það ekki leiðinlegt. Ég vil nefnilega stjórna.

Í þetta skipti ætla ég ekki að gera það. Ég ætla að láta einhvern annan um að stýra ferðinni. EN það er ekkert auðvelt.

Saturday, March 14, 2009

 

Barnaland.is

Jæja, það fór þá ekki svo að maður nýtti sér ókeypis auglýsingavettvang, svona á síðustu og verstu. Ég ákvað að auglýsa heimilistæki, sem standa óhreyfð uppí skáp, bara til að losa pláss og fá kannski smá pening. Ég auglýsti sem sagt brauðvél, poppvél og ísvél til sölu og ákvað að auglýsa líka bílinn minn til sölu fyrst ég var byrjuð.

Ég er við símann...núna!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?