Monday, November 05, 2007

 

Með hnút í maganum

Ég varð fyrir því óláni að brjóta upp úr jaxl um helgina. Það var því ekki um annað að ræða en hringja í tannlækninn og athuga hvort hann gæti bjargað mér. Það var lítið mál, ég fékk tíma kl. 3 í dag, eða nákvæmlega eftir hálftíma. Nú sit ég með kvíðahnút í maganum, því ég veit fátt eins skelfilegt og að fara til tannlæknis.

Þessi tannlæknafóbía hefur hrjáð mig síðan ég var krakki og er tilkomin af þremur ástæðum:
1. Ég var hjá skelfilegum tannlækni sem barn, mjög óþolinmóðum og uppstökkum. Hann átti það til að skamma mig ef ég svo mikið sem kveinkaði mér.
2. Ég datt af vegg þegar ég var rúmlega ársgömul. Við höggið raskaðist vöxtur á kjálkabeinum og ég er því með skakkan kjálka. Það veldur því að ef ég held munninum lengi opnum, þá læsist kjálkinn og ég á mjög erfitt með að loka munninum aftur (nema með braki og sársauka).
3. Ég fékk eitt sinn rótarbólgu, sem var svo slæm að það þurfti að drepa taugina. Ég neyddist til að fara til afleysingatannlæknis, sem gat með engu móti deyft mig. Ég hef aldrei upplifað eins mikinn sársauka (og hef nú samt fætt tvö börn).

Ég hef að vísu fundið mjög góðan tannlækni, sem ég þurfti að leita til í svona neyðartilfelli um árið. Hann náði að deyfa mig almennilega og var mjög snöggur að gera við.

Ég er að hugsa um að fara framvegis til hans.

Comments:
Æ,æ,æ,æ!
En það er ekki spurning - fyrst þú ert búin að finna góðan tannlækni þá er um að gera að fara til hans!
 
Já ég held að ég sé búin að ákveða að skipta um tannlækni. Þetta gekk ágætlega, en eins og venjulega gekk illa að deyfa mig.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?