Tuesday, January 17, 2006

 

Sævar Pálsson RIP

Í dag hefði hann Sævi minn átt afmæli. Í 10 ár var hann partur af minni tilveru. Ég var að vinna á skrifstofunni hjá Háskólabíó og þar var Sævi þekktur. Allir sem hafa stundað vinnu eða nám í Háskólabíó hér í den, vita hver Sævi var. Hann fór ekki framhjá neinum. Á hverjum morgni tók hann á móti mér með útbreiddan faðm og yfirleitt klappaði hann um leið og hann sá mig og kallaði "Veiga mín, elskan mín, ertu komin". Hann var sérstök sál hann Sævi. Hann bjó á sambýli við Rauðarárstíg, en kom á hverjum morgni í vinnuna með leið 3. Hann var dyntóttur og ekki alltaf auðvelt að fá hann til að vinna sín verk. Þegar hann sá mig nálgast með pósttöskuna, faldi hann sig yfirleitt bak við súlu og stundum þverneitaði hann að fara. Hann sá þó oftast að sér og endaði með að samþykkja förina. Hann var óspar á kaffið og vildi alltaf sækja það fyrir mann, en stundum væri bollinn orðinn hálfur þegar hann komst á skrifborðið. Börn voru í miklu uppáhaldi hjá Sæva og þau elskuðu hann.

Ekki veit ég hvort Sævi hefði verið ánægður með veðurfarið á afmælisdeginum, því Sævi þoldi ekki snjó. Þegar snjóaði, stormaði Sævi í símasjálfsalann í andyrinu og skipaði Guði að láta hætta að snjóa. Ég gat því ekki annað en brosað þegar mér var hugsað til hans Sæva míns, þar sem ég braust í gengum skaflana í morgun.

Eitt er víst. Ég er ríkari manneskja að hafa þekkt hann og ég mun aldrei gleyma honum. Blessuð sé minning hans.

Comments:
Doldið fyndið ég hef lesið bloggið þitt um hríð og ekki látið mig detta það í hug að við þekktum sama manninn, en ég ólst upp með Sæva og var oftar en ekki "farþegi" hjá honum þegar hann var að "keyra" með stýrið og vann með honum í frystihúsinu. Datt endurminningarkast við lesturinn. kveðja gua
 
Mér datt í hug að einhver myndi kannast við hann, því þeir sem einhvern tímann kynntust honum, gleyma honum aldrei.

Hann var víst fyrirmynd að karakter í íslenskri bíómynd, sem heitir Ingaló. Ég veit það fyrir víst því ég þekki manninn sem lék hann.
 
Ég get sagt þér að hann var algjör veðurviti heima, ef það var að koma bræla þá lét hann öllum illum látum og hafði allt á hornum sér, sjómenn tóku meira að segja mark á honum og fóru hvergi :=) kveðja gua
 
Já Sævi var one of a kind! Blessuð sé minning hans. Kv, Olla
 
Mér finnst alveg frábært að hitta á einhvern sem þekkti Sæva. Hann var svo sérstakur.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?