Thursday, November 30, 2006

 

Tölvuvesen

Ég er kominn með einhvern púka í tölvuna mína. Það er svokallað adware, sem heitir Need2find. Ég hef verið að ná í sjónvarpsþætti á netinu og þetta fylgdi víst með forritinu, óumbeðið.

Ég þoli ekki svona forrit og vill helst losna við það. Reyndi mikið til að losna við þetta í gærkvöldi, en ekkert gekk. Ég er að spá í að fara með tölvuna mína í uppfærslu og biðja þá um að hreinsa þetta út í leiðinni. Þyrfti að láta stækka minnið í tölvunni og svo hef ég verið í basli með að skrifa DVD diska.

Nú er bara spurning um hvort er dýrara, að fara með tölvuna í yfirhalningu eða bara hreinlega að kaupa nýja. Þetta á amk eftir að kosta heilan helling.

Tuesday, November 21, 2006

 

Sumir dagar

Ég þurfti að taka bensín í gær. Ekkert merkilegt, þar sem ég tek bensín í hverri viku. EN þegar ég ætlaði að fara að slá inn pin-númerið mitt (eins og venjulega), þá var það fokið úr minninu. Ég gat ekki fyrir mitt litla líf, munað pin númerið.

Dagur tvö. Ég ákvað að taka niður pin-númerið af kreditkortinu mínu og stoppa á leiðinni í vinnuna og taka bensín. Fór að dælunni, tilbúin með númerið, en þá var eitthvað bilað í sjálfsalanum. Það fauk nú soldið í mína, þurfti að fara á þriðju bensínstöðina og kaupa bensín þar. Mætti náttúrulega hálftíma og seint eftir þennan útidúr.

Suma daga á maður bara að liggja undir sæng.

Friday, November 17, 2006

 

Afi flytur

Þá er loksins búið að fá pláss fyrir afa á elliheimili. Hann flytur í dag. Það verður mikill léttir fyrir ömmu, þó að hún sé náttúrulega hálf aun. Þetta ástand á öldrunarmálum er alveg skelfilegt. Afi þykir nógu gamall og ósjálfbjarga til að fá að fara á elliheimili, en amma er ekki einu sinni metin nógu veikburða til að fara á biðlista. Eftir áratuga sambúð, þurfa þau nú að búa í sitt hvoru lagi.

Því miður er þetta eina lausnin, því amma er alveg hætt að geta hugsað um afa. Ég veit að afi á eftir að verða hálf vængbrotinn án hennar, en svona er Ísland í dag. Var ekki einhvers staðar talað um "áhyggjulaust ævikvöld".

Wednesday, November 15, 2006

 

Annar í Fréttablaði

Í gærmorgun kom Fréttablaðið inn um lúguna til mín. OG það kom aftur í morgun. Eftir að hafa hringt sjö sinnum í símsvarann og sent einn tölvupóst, virðist blaðberinn loksins vera búinn að átta sig á tilvist minni á jarðhæðinni.

Ég er búin að segja það margoft að það borgar sig að vera þrjóskur.

Næsta verkefni er að fara að pressa á verktakann. Útidyrahurðin er gölluð og það hefur staðið til að skipta um hana í nokkra mánuði. Gallinn lýsir sér þannig að börnin mín geta ekki opnað hurðina innan frá. Það er of mikil spenna á henni og fullorðnir verða meira að segja að gefa í til að geta opnað hana. Nú þegar ég er búin að hringja nokkur kurteisisleg símtöl og biðja um að þetta verði lagað, er spurning um að færa sig skrefi ofar og senda tölvupóst. Það virkaði amk á dreifara Fréttablaðsins.

Monday, November 13, 2006

 

Svaðilför

Dóttirin er á leiðinni í skólabúðir að Laugum í Sælingsdal. Rútan lagði af stað klukkan níu í morgun og um hádegi var hún í Borgarfirði. Það er víst brjálað veður og flest börnin dauðskelkuð, enda ekki mjög vön svona veðri.

Ég verð rólegri þegar hún kemst á leiðarenda. Það er að vísu ekkert GSM samband þangað, en vonandi sendir skólinn frá sér einhverja tilkynningu.

Thursday, November 09, 2006

 

Síðasta tilraun

Ég gerði lokatilraun vegna Fréttablaðsins í dag. Ég var búin að tala sjö sinnum inn á símsvara án árangurs. Nú ákvað að prófa að senda tölvupóst einu sinni, bara af því að ég er svo þrjósk.

Ég fékk strax svar við póstinum og nú lofa þeir að ég fái Fréttablaðið framvegis. Það verður spennandi að sjá hvað gerist í fyrramálið. Ætli ég geti nokkuð sofið.

Sunday, November 05, 2006

 

Rykfallin

Ég held að ég verði að segja af mér sem húsmóðir. Ég komst að því í morgun, þegar ég ætlaði að fara að baka súkkulaðiköku, að hrærivélin mín var rykfallin. Hún hafði greinilega staðið óhreyfð of lengi og þurfti því að þurrka af henni rykið.

Það er hálf skrýtið, en eftir skilnaðinn hefur húsmóðurseðlið gefið upp öndina. Ég hef bara ekki jafn mikinn áhuga og áður á því að baka, sauma og prjóna. Ég finn nú samt að löngunin er það vakna aftur og aldrei að vita nema maður taki upp prjóna og nál fljótlega.

Thursday, November 02, 2006

 

Skamm!

Ég gaf mér ekki tíma til að skrifa blogg á afmælisdag sonarins. Hann átti sem sagt afmæli á þriðjudaginn og varð átta ára. Afmælið var haldið í Veröldin okkar (hlutlaus staður) og af þeim þrettán sem var boðið, mættu sjö. Sex börn mættu ekki og engin skýring gefin. Ég er kannski bara gamaldags en mér finnst þetta argasta ókurteisi. Konan í Veröldin okkar kippti sér ekkert upp við þetta og sagði að þetta væri algengt ástand.

Mér fannst erfiðast að horfa framan í sorgmæddan drenginn og þurfa að segja honum að þessir krakkar ætluðu greinilega bara ekki að koma í afmælið hans. EN hann jafnar sig fljótt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?