Sunday, August 31, 2008

 

Pistill helgarinnar

Þá er enn ein helgin að verða búin. Það er ekki hægt að segja annað en að hún hafi verið nokkuð vínlegin.

Á föstudeginum var haldið Mexico-partí hjá matarklúbbnum. Fjörið bregst aldrei þegar sá hópur kemur saman. Við systurnar háðum hálfgert Singstar einvígi, vorum hnífjafnar eins og venjulega og deildum því með okkur sigrinum. Hápunktur kvöldsins var samt tequila leikurinn, sem gekk út að að framkvæma þetta hefðbundna salt-tequila-sítróna, með lítinn plasthatt á hausnum. Sá sem missti hattinn af hausnum þurfti að taka annað skot. Ég þurfti þrjú til á ná tækninni.

Á laugardagskvöldinu var svo búið að ákveða að skella sér á Stuðmannaballið á Nesinu. Þrátt fyrir að ég sé löngu flutt af Nesinu, þá er maður nú alltaf Nesbúi inn við beinin. Fullt af fólki og mikið stuð, sem hélt svo áfram niðrí miðbæ fram undir morgun.

Og dagurinn í dag, það er spurning. Eitthvað þarf maður víst að framkvæma hérna á heimilinu og svo er aldrei að vita nema maður skelli sér í bíó í kvöld.

Bis bald.

Monday, August 25, 2008

 

Er kominn vetur?

Þá er vetrarrútínan skollið á af öllum þunga. Ég held að þetta eigi alveg eftir að ganga upp hjá okkur, en það má þó lítið út af bregða. Það þarf að koma dótturinni í strætó niðrí Mjódd, helst ekki seinna en kl. 7.25 og síðan þarf að vekja morgunhressa drenginn. Hann er fremur seinn að koma sér á fætur og í raun það eina sem er vaknað á honum á morgnana er munnurinn. Hann virðist hafa svakalega mikla þörf fyrir djúpar samræður svona í morgunsárið. Móðir hans er kannski ekki alveg jafn morgunhress, eða amk ekki tilbúin í djúpar samræður.

Annars var helgin fremur róleg. Við mæðginin tókum nú ekki mikinn þátt í menningarlegum viðburðum á laugardaginn, en röltum samt aðeins um laugarveginn um kvöldið. Síðan var okkur boðið að sigla á nýju skútunni, sem hefur ekki fengið nafn. Það var sko ekki amarlegt. Skútan er einu orði sagt glæsileg. Þrjár káetur, tvö baðherbergi og eldhús er töluvert meiri flottheit en voru um borð í þeirri skútu sem fyrir var. Ég get ekki beðið eftir að fá að sigla aftur, og þá helst fyrir fullum seglum.

Annars bara á kafi í vinnu þessa vikuna og bíð spennt eftir næstu helgi.

 

Lag vikunnar

Ég veit að ég get varla kallað þetta lag vikunnar, því ég birti svona texta bara svona þegar þannig liggur á mér. EN ég ætla mér samt að halda mig við þann titil. Þetta lag er búið að vera mér ofarlega í huga undanfarið, auðvelt að fá þennan texta á heilann.

Eina ósk
Ef ég ætti eina ósk veistu hvers ég mundi óska mér?
Reyndu að giska á hvers eðlis þessi ósk mín er.
Ef þú þekktir mig þú mundir geta svarað því,
þú mundir á mér sjá hvað það er sem mig langar í.

Eina ósk – ég væri ekki í vafa hvers ég óskaði mér?
Eina ósk – ég mundi enn á ný eyða eyða nótt hjá þér.
Eina ósk – í peninga og völd ... nei það er af og frá.
Eina ósk – ég vild miklu fremur vera þér hjá.

Alveg síðan fyrst er augum hafði litið þig
þá kviknaði sú von að þú myndir elska mig
og ef ég ætti eina ósk þá veistu hvers ég óska mér.
Þú hlýtur nú að sjá hvers eðlis óskin er.

Tíminn er að líða.
Ég má aðeins bíða.

Eina ósk – ég væri ......

Friday, August 22, 2008

 

Dagur 5-6

Fimmtudagurinn var alfarið notaður í að þramma á milli búða, enda var ekta íslenskt sumarveður, rigning og rok. Dótturinni fannst það ekki slæmt. Þegar pokarnir voru farnir að hrannast upp, var ákveðið að fjárfesta í nýrri tösku. Það hafði verið fyrirfram ákveðið, því við gátum nú alveg sagt okkur það að ein taska myndi aldrei nægja á heimleiðinni. Að vandlega athugðu máli, var keypt taska sem hét því skemmtilega nafni "John Lewis" (í höfuðið á verslunarkeðjunni). Hún var því aldrei kölluð annað en Jón og verður það um ókomna tíð. Hún kemur til með að verða ágætis ferðafélagi fyrir Daníel, en það er nafnið á töskunni sem fyrir var.
Um kvöldið var síðan ráðist í að pakka öllu niður í töskur og þá dugði ekkert annað en nota tækni móður minnar sem er þekkt fyrir að koma miklu í litlar töskur.

Á föstudeginum, byrjuðum við á að tékka okkur út og setja töskur í geymslu því heimflug var ekki fyrr en um kvöldið. Síðan var stefnan tekin á Tower of London. Ég var mjög spennt fyrir þeirri heimsókn, því ég er mikil áhugamanneskja um sögu og þessi staður einn af þeim merkari í enskri sögu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með heimsóknina, við fengum fróðan og skemmtilegan leiðsögumann sem leiddi okkur um húsakynnin. Það var ekki laust við að það færi aðeins um við þegar maður snerti á veggjum þessa sögufræga staðs.
Áður en við vissum af var klukkan að nálgast þrjú og tími kominn til að gera aðra tilraun til að heimsækja Westminister Abbey. EN við erum alltaf jafn heppnar, kirkjan lokaði kl. 15.30 og við urðum of seinar. Mér fannst þetta ekki einu sinni fyndið í þetta skiptið.
Þegar fór að síga á seinni hluta dagsins var farið upp á hótel og töskur sóttar. Sem betur fer reyndist bara vera 45 mín. seinkun á heimflugi. Þegar mér var litið út um glugga flugvélarinnar, rétt þegar hún var að takast á loft, sagði ég við sjálfa mig "Bless í bili London. Ég kem aftur."

 

Dagur 3-4

Þriðjudagurinn fór að mestu leyti í verslunarleiðangur í Covent Garden. Við fórum að vísu töluvert seinna af stað en áætlað var, en ég ætla ekki að fara nánar út í það af tillitsemi við dótturina. Í Covent Garden er hægt að finna flesta merkjavöru og þá flest þau merki sem dóttirin notar.

Miðvikudeginum var skipt í tvennt. Fyrri hlutinn var notaður í áframhaldandi verslunarráp á Oxford stræti, en síðan var haldið á Camden markaðinn. Ég hafði heyrt að það væri ómissandi hluti af því að upplifa London, að kíkja á þennan sögufræga markað og upplifa stemmninguna. Við vorum hrifnar af markaðnum, sem bauð upp á fjölbreytt mannlíf, en vorum sammála um það að Portobello Road markaðurinn í Notting Hill hefði verið skemmtilegri.

Um kvöldið áttum við pantað borð á veitingastaðnum Asia de Cuba. Ég hafði heyrt margt gott um staðinn og var því spennt að prófa hann. Og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Þjónustan var frábær og maturinn ekki síðri. Við ákváðum að deila með okkur tveimur réttum og völdum okkur "Hoisin Duck" og "Honey-rum glazed pot roast of pork". Báðir réttirnir voru fullkomnir. Dóttirin vildi endilega fá sér eftirrétt, en ég ákvað að láta mér nægja einn Mojito eftir matinn, því ég var bara allt of södd fyrir eftirrétt. Hún valdi sér "Cuban Coffee Brownie", og það verður að segjast að þetta var besta súkkulaðikaka sem ég hef smakkað. Já, ég varð að smakka á þessari köku, hún var bara of góð til að sleppa því.
Í heildina var þetta frábært kvöld, alger matarfullnæging og að sjálfsögðu eignaðist ég vini. Lenti á spjalli við tvo herramenn á næsta borði og hefði setið lengur að spjalli ef þjónninn hefði ekki gefið okkur illt auga (vorum búnar að borða og borga)

Wednesday, August 20, 2008

 

Dagur 1 og 2

Eftir tæplega átta tíma seinkun var loksins lagt af stað til London. Það var ekki ferðast með Iceland Express, heldur pínulítilli flugvél frá Titan Air, sem hafði verið leigð til að redda málunum. Það fór soldið um mig þegar ég sá blessaða flugvélina, hún var rúmlega einu númeri minni en þær vélar sem maður er vanur að ferðast með. Ég reyndi bara að ímynda mér að ég væri í einkaþotu og þá leið mér ögn betur. Að öðru leyti fór sunnudagurinn að mestu í ferðalög, með flugvél og tveimur lestum.

Mánudagurinn var stóri dagurinn í ferðinni, því þá náði dóttirin þeim merka áfanga að verða 16 ára. Við ákváðum því að taka daginn rólega og skella okkur niðrí Kensington hverfið. Byrjuðum á því að rölta í Holland Park garðinum og dást að blómum og íkornum. Við röltum í rólegheitunum, alveg þangað til að við heyrðum mikið óp og öskur, rétt eins og brjálaður maður væri á ferð. Þar sem við virtumst vera aleinar í garðinum (fyrir utan brjálæðinginn) fórum við ósjálfrátt að greikka sporið og urðum ekki rólega fyrr en við sáum fleira fólk á ferli. Þá gátum við náttúrulega bara hlegið að þessu.
Þegar við komum niður á Kensington High Street, varð dóttirin aðeins að kíkja í nokkrar búðir. Við röltum svo niður í Harrods, þar sem hvorug okkar hafði komið í þá merkilegu búð. Ég gat platað dótturina til að máta forlátan Valentino síðkjól, sem kostaði aðeins um hálfa miljón. Það var nú samt ekkert miðað við verðið á sumum kjólunum og skartgripunum sem hægt var að versla í þessari búð.

Um kvöldið var síðan farið út að borða á þokkalegan veitingastað, sem var innifalinn í leikhúspakka kvöldsins. Hápunktur kvöldsins var síðan Mamma Mia! söngleikurinn. Dóttirin, sem er búin að sjá bíómyndina þrisvar sinnum, tjáði mér að verkið væri miklu flottari á sviði. Það var mikið hlegið og í lokin fengu síðan áhorfendur að standa upp og spreyta sig á söngnum. Það fannst mér ekki leiðinlegt.

Monday, August 18, 2008

 

Lífið er yndislegt

Það er komið mánudagskvöld og ég hef ekki ennþá getað fundið tíma til að setjast niður og skrifa ferðasögu. Þetta er einfaldlega vegna þess að það er búið að vera allt of mikið að gera hjá mér. Ég hef ekki einu sinni náð að ganga frá öllum þeim níu skópörum sem voru keypt í London, nú eða þá fötunum. Ég þarf að endurskipuleggja fataskápinn frá grunni og finna pláss fyrir ný föt og skó.

Helgin hjá mér var í einu orði sagt frábær. Ég fór í skemmtilegasta fertugsafmæli ever, hellingur af víni og hellingur af skemmtilegu fólki. Þegar þú setur þetta tvennt saman, getur útkoman bara orðið fullkomin. Afmælið var á laugardagskvöldinu, en þeir sem voru duglegastir við að skemmta sér fóru ekki heim fyrr en á sunnudagskvöldinu. Og að sjálfsögðu var ég þar á meðal.
Brekkusöngur og varðeldur, rauð, græn og gul skot OG kakó og Stroh. Það eru minningarnar sem eiga eftir að vistast í langtímaminninu, nú og svo að sjálfsögðu líka gisting í eldgömlum tjaldvagni.

Og söngurinn sem á eftir að óma í minningunni er að sjálfsögðu "Lífið er yndislegt". Nema hvað.

Sunday, August 10, 2008

 

Byrjar vel

Jæja, það mátti svo sem alveg eiga von á þessu, fyrst maður valdi að ferðast með Iceland Express (nafnið hlýtur að vera brandari). Það verður seinkun á fluginu okkar á morgun, heilir 7,5 tímar, amk eins og staðan er núna. Áttum að fara í loftið kl. 7.50, förum skv. nýrri áætlun í loftið kl. 15.30. Það þýðir að morgundagurinn er ónýtur.

Og það er náttúrulega lítið hægt að gera í því. Vona bara að 15.30 haldist,svo við verðum komnar á skikkanlegum tíma til London.

Annars bara nokkuð sátt.

Tuesday, August 05, 2008

 

Aftur til vinnu

Þá er skyldufríinu lokið og vinna hefst aftur á morgun. Það er að vísu stutt í næsta frí, aðeins ein vika. Þá liggur leiðin til London í heila sex daga.

Ég afrekaði nú ekki ýkja mikið í þessu fríi. Ég lá í sólbaði, fór í ræktina, skoðaði fartölvur og náði að þrífa bílinn minn almennilega að innan. Helginni eyddi ég síðan í sumarbústað í Grímsnesi ásamt "aðalgenginu". Kom heim í gær og skellti mér í bíó með dótturinni. Við sáum Batman, sem var bara nokkuð góð að mínu mati. Jókerinn er flottur, Batman er flottur og svo á hann svo flott dót. Hún var að vísu aðeins í lengri kantinum, en alveg þess virði að sjá hana.

Eitthvað segir mér að það eigi eftir að verða erfitt að vakna til vinnu í fyrramálið.

Bis bald.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?