Wednesday, August 20, 2008

 

Dagur 1 og 2

Eftir tæplega átta tíma seinkun var loksins lagt af stað til London. Það var ekki ferðast með Iceland Express, heldur pínulítilli flugvél frá Titan Air, sem hafði verið leigð til að redda málunum. Það fór soldið um mig þegar ég sá blessaða flugvélina, hún var rúmlega einu númeri minni en þær vélar sem maður er vanur að ferðast með. Ég reyndi bara að ímynda mér að ég væri í einkaþotu og þá leið mér ögn betur. Að öðru leyti fór sunnudagurinn að mestu í ferðalög, með flugvél og tveimur lestum.

Mánudagurinn var stóri dagurinn í ferðinni, því þá náði dóttirin þeim merka áfanga að verða 16 ára. Við ákváðum því að taka daginn rólega og skella okkur niðrí Kensington hverfið. Byrjuðum á því að rölta í Holland Park garðinum og dást að blómum og íkornum. Við röltum í rólegheitunum, alveg þangað til að við heyrðum mikið óp og öskur, rétt eins og brjálaður maður væri á ferð. Þar sem við virtumst vera aleinar í garðinum (fyrir utan brjálæðinginn) fórum við ósjálfrátt að greikka sporið og urðum ekki rólega fyrr en við sáum fleira fólk á ferli. Þá gátum við náttúrulega bara hlegið að þessu.
Þegar við komum niður á Kensington High Street, varð dóttirin aðeins að kíkja í nokkrar búðir. Við röltum svo niður í Harrods, þar sem hvorug okkar hafði komið í þá merkilegu búð. Ég gat platað dótturina til að máta forlátan Valentino síðkjól, sem kostaði aðeins um hálfa miljón. Það var nú samt ekkert miðað við verðið á sumum kjólunum og skartgripunum sem hægt var að versla í þessari búð.

Um kvöldið var síðan farið út að borða á þokkalegan veitingastað, sem var innifalinn í leikhúspakka kvöldsins. Hápunktur kvöldsins var síðan Mamma Mia! söngleikurinn. Dóttirin, sem er búin að sjá bíómyndina þrisvar sinnum, tjáði mér að verkið væri miklu flottari á sviði. Það var mikið hlegið og í lokin fengu síðan áhorfendur að standa upp og spreyta sig á söngnum. Það fannst mér ekki leiðinlegt.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?