Friday, May 30, 2008

 

Stolt móðir

Ég hef ærna ástæðu til að vera stolt af dóttur minni í dag. Hún var að fá niðurstöður úr samræmdu prófunum, sem eru vægast sagt glæsilegar. Meðaleinkunn upp á 8,8, sem skiptist þannig:

Íslenska 9,5
Stærðfræði 8,5
Enska 9,5
Danska 8,5
Náttúrufræði 8,0

Og nú er bara að fara að kaupa fartölvuna, sem ég var búin að lofa henni.

Thursday, May 29, 2008

 

Sumarvinna

Eitt af því sem gleymdist í öllu prófstressinu, í kringum samræmdu prófin, var að leita að sumarvinnu. Dóttirin er að vinna á Culiacan, en langar að breyta til. Hún vill helst ekki fara í unglingavinnuna, þar sem hún er frekar illa launuð og kassastörf eru ekki mjög spennandi, en allt kemur til greina. Hún er vön því að vinna á veitingarstöðum og hefur líka reynslu af kassastörfum.

Þannig að ef þið vitið um einhver sumarstörf á lausu, þá endilega látið mig vita.

Saturday, May 24, 2008

 

Afmæliskisa

Kisa litla á afmæli í dag. Það eru nákvæmlega fimm ár síðan hún kom í heiminn. Það vill svo skemmtilega til að daginn sem hún fæddist var Eurovision keppnin haldin það árið. Það er skrýtið að hugsa til þess að það séu komin fimm ár síðan hún kom inn í líf okkar, lítil og hálf skelkuð. En hún hefur gengið í gegnum ýmislegt með okkur og ég held að hún sé bara nokkuð sátt við lífið.

Afmælisveislan verður haldin á mánudaginn, þegar hitt heimilisfólkið kemur heim eftir pabbahelgi. Þá verður boðið upp á rækjur og litla dekurrófan fær sína afmælisgjöf. Nýjan klórustaur.

Til gamans set ég tvær myndir af henni. Önnur er tekin rétt eftir að við fengum hana og hin var svo tekin síðasta sumar.



Monday, May 19, 2008

 

Margt að ske

Á laugardaginn skellti ég mér að tónleika hjá Kvennakór Reykjavíkur. Það var svolítið skrýtin tilfinning að sitja úti í sal og hlusta. Ég hef nefnilega alltaf verið að syngja á þessum tónleikum. Þær stóðu sig bara nokkuð vel stelpurnar, þó að mér hafi stundum fundist vanta smá líf í hópinn.

Á sunnudaginn fórum við mæðginin í bíó ásamt Erlu og Inga Þór. Við sáum ofurmyndina Iron Man, sem féll strákunum vel í geð. Ég verð nú samt að segja að mér leiddist ekkert á þessari mynd, ólíkt því þegar við sáum Fantastic Four 2. Ég held að ég geti sagt með vissu að það muni verða Iron Man 2, fannst ég lesa það úr endinum.

Í dag var svo erfiður dagur. Dagurinn byrjaði á kistulagningu afa míns, síðan tók jarðaförin við og svo var endað í erfidrykkju heima hjá foreldrum mínum. Þar var fjölmenni og ég var á þönum allan tímann. Það er því ekki laust við að þreyta og feginleiki séu alsráðandi þessa stundina. Mikið held að ég margir hafi verið fegnir þegar þessi dagur var að kvöldi kominn.

Thursday, May 15, 2008

 

Hvernig stendur á því?

Það er allt í einu orðið svo mikið að gera hjá mér. Ég,sem gat látið mér leiðast heilu helgarnar, get varla fundið tíma til þess lengur. Ég þarf meira að segja að skipuleggja mig nokkuð vel, ef ég á að koma öllu í framkvæmd. Þannig hef ég verið á leið í heimsóknir og ætlað að framkvæma hluti, en það er bara ekki tími aflögu.

Skyldi þetta nokkuð vera vegna þess að ég er loksins að vakna til lífsins og farin að njóta lífsins í botn??? Núna kvíði ég ekki framtíðinni, heldur hlakka til að takast á við hana.

Friday, May 09, 2008

 

Óvissan í hámarki

Dóttir mín fór ásamt öðrum tíundubekkingnum í óvissuferð í gær. Í Lindaskóla var óvissan höfð í hámarki, þannig að foreldrarnir vissu ekki einu sinni hvert ætti að fara. Ég hef ekkert heyrt frá henni og er því að deyja úr forvitni. Hún kemur aftur heim á morgun, vonandi glöð og þreytt eftir gott ferðalag. Hún er amk mjög ánægð með það að samræmdu prófin eru búin, því hún var búin að vera að skipuleggja og læra fyrir þau síðan í janúar.

Annars fórum við stelpurnar út að borða í hádeginu í dag. Að sjálfsögðu fórum við á besta staðinn í bænum, Santa Maria, og fengum gott að borða hjá Maju og Neto. Í þetta skiptið fékk ég mér enchiladas með sósu úr súkkulaði og chilli, sem var alveg rosalega gott. Ég er ennþá í hálfgerðri vímu og langar að fara aftur sem fyrst.

Takk fyrir mig Maja og Neto.

Friday, May 02, 2008

 

Afi kveður

Þá hefur hann afi minn kvatt þessa jarðvist, sáttur við Guð og menn. Hann náði þeim háa aldri að verða 96 ára og var því löngu reiðubúinn að kveðja. Hann var trúaður maður, sem trúði á sitt himnaríki, og kveið því ekki brottför. Hann fékk friðsælt andlát, umvafinn fólkinu sínu og það voru því mörg tár felld í dag.

Ég á margar góðar minningar um afa minn. Hann var ljúfur og góður afi, sem kunni að gera ævintýri úr hversdagslegum hlutum. Þannig urðu trjálundirnir á Klambratúni, ævintýraskógar með drekum og úlfum, hver steinn varð að álfasteini og vatnstankarnir í Öskjuhlíð urðu hýbýli dverga. Afi gat hlegið sig máttlausan yfir teiknimyndum af Tomma og Jenna og svo var erfitt að fá hann til að lesa Andrésblöðin, því hann grét svo af hlátri að lítið varð um lestur. Á kvöldin var auðvelt að fara að hátta, ef von var á frumsömdum sögum frá afa. Þær snerust um tvo ánamaðka, sem lentu alltaf í þvílíkum svaðilförum, en komust samt alltaf heim til mömmu sinnar, heilir á húfi. Eftir söguna fórum við síðan alltaf með bænir. Afi minn var mikill söngmaður. Hann var því gjarnan mættur með gítarinn í barnaafmælin og spilaði ýmsar barnavísur með leikrænum tilþrifum. Þannig varð tófan í grjóti farin að urra og mamma hans Gutta grét fögrum tárum. Það var ekki til það barn sem ekki hreifst af honum afa mínum.

Ég gæti skrifað heila ritgerð um hann afa minn, minningar hreinlega streyma fram, jafn auðveldlega og tárin streyma niður kinnarnar. Eitt er víst. Ég átti besta afa í heimi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?