Friday, December 28, 2007

 

Glæný frænka komin í heiminn

Já ég veit, ég er óvenjudugleg að blogga þessa dagana, enda mikið að gerast. Ég eignaðist glænýja frænku á annan í jólum. Ég á jafnmikið í henni og þeirri sem er alveg að verða tveggja mánaða, en í þetta skiptið ber ég titilinn "föðursystir". Hlakka mikið til að fá að sjá hana, þó ég viti ekki alveg hvenær það verður.

Börnin mín koma heim á morgun. Ég get ekki beðið eftir að fá að knúsa þau og ætla að leggja á mig langferð til Keflavíkur, til að sækja þau. Það er búið að vera mjög gaman hjá þeim í Kaupmannahöfn, en sonur minn lýsti því samt yfir í gærkvöldi að hann væri mömmustrákur. Hann kann alveg að bræða móður sína þessi elska.

Á sunnudaginn verður síðan nafnaveisla, en þá á litla frænka (sú eldri) að fá nafn. Það er ekki síður spennandi.

Thursday, December 27, 2007

 

Skaflar

Þá er veturinn skollinn á okkur með tilheyrandi sköflum og snjókomu. Ég eyddi tveimur klukkutímum í gær, í að moka litla bílinn minn út úr skafli og gera hann kláran fyrir vinnuna í dag. Ég bölvaði snjónum mikið meðan ég var að moka, en mikið hafði maður nú gott af smá puði. Ég hugsaði líka mikið á meðan ég mokaði og komst að tvennu: 1. Ég ætti kannski að kaupa mér bíl sem hentar betur í skafla-akstur og 2. Ég þoli ekki snjó.

Kannski er of langt gengið að segja að ég hati snjó. Ég vill bara ekki hafa hann neins staðar þar sem ég þarf að keyra.

Saturday, December 22, 2007

 

Jólin eru að koma

Mikið verður maður nú alltaf upptekin svona rétt fyrir jólin. Það er alveg sama hvað ég reyni, alltaf er eitthvað á síðustu stundu. Ekki misskilja mig, ég er ekkert að stressa mig neitt, en það er samt alltaf nóg sem ég á eftir að gera.

Ég er nú samt langt komin þetta árið. Ég er td. búin að kaupa allar jólagjafir, nema handa syninum. Hans óskalisti var eitthvað svo tómlegur þetta árið að þegar allir ættingjarnir vou búnir að nota hann, var mjög lítið eftir. Ég verð því að fá einhverjar brilliant hugmyndir, núna á næstu sólarhringunum. Ég hef að vísu lengri frest því börnin eru ekki heima yfir jólin. Þau eru hjá föður sínum. Ekki nóg með það, heldur eru þau í öðru landi. Þau ætla að eyða jólunum í Kaupmannahöfn.

Það er því frekar tómlegt á heimilinu. Ég er ein heima með kettinum og svo erum við litla dverghamsturinn hans sonar míns, hann Billa, í pössun. Ég þurfti að loka hann inni í herberginu hjá syni mínum, því kisa er alveg æst í að hitta hann. Ég læsti því meira að segja til öryggis, því maður veit aldrei hvað kisur geta gert í hita leiksins.

En ég er langt frá því að vera ein. Ég ætla að eyða jólunum með fjölskyldunni, þar sem ég hef tvö frændsystkini til að knúsa. Það verður sko ekki leiðinlegt.

Friday, December 14, 2007

 

Brjálað veður, brjálaður skóli

Ég var svolítið tvístígandi í morgun, þegar ég leit út um gluggann. Það var svo hvasst úti, að ég velti því fyrir mér hvort það yrði nokkuð skóli hjá börnunum. Ég ákvað því að hafa samband við báða skólana og athuga málið og þá var mér sagt að það yrði skóli í dag. Ég dreif börnin því á fætur og út í rokið. Sonur minn þurfti fylgd upp að dyrum, því annars hefði hann sjálfsagt fokið.

Svo kem ég í vinnuna og það fyrsta sem blasir við mér á mbl.is, er að lögreglan sé að mælast til þess að foreldrar haldi börnum sínum heima í dag. Það fauk nú heldur betur í mig. Hvers vegna eru skólar í Kópavogi að rembast við að hafa skóla í dag, þegar lögreglan er að mælast til að börn mæti ekki. Ég er eiginlega með samviskubit yfir því að hafa bara ekki tekið þá ákvörðun sjálf, að senda börnin mín ekki í skólann. Ég hélt bara að málið væri þannig að ef skólinn væri með skólahald, þá yrðu börnin að mæta.

Ég er bara greinilega allt of hlýðin.

Wednesday, December 05, 2007

 

Gleðifréttir!

Ég var að fá símhringingu sem gladdi mitt hjarta alveg óendanlega. Amma mín er loksins búin að fá pláss á Droplaugastöðum. Hún flytur inn fyrir jólin og verður á sömu hæð og afi. Þetta var hennar heitasta ósk og því frábært að það var hægt að uppfylla hana.

Besta jólagjöfin í ár.

Monday, December 03, 2007

 

Erilsöm helgi

Síðasta helgi var óvenju erilsöm hjá mér. Föstudagurinn byrjaði með tvöföldu jólahlaðborði og heimsókn á Thorvaldsen.

Á laugardeginum var verslað og farið með soninn í Nexus að kíkja á Transformers dót. Ég kom afgreiðslumanninum á óvart með þekkingu minni á öllum þessum mismunandi köllum, en hei, maður verður nú að fylgjast með. Um kvöldið kom svo lítil sæt prinsessa í pössun til Veigu frænku. Hún var svo ljúf og góð að það reyndist lítið mál að hafa hana í pössun. Ég sagði við dótturina að það væri áríðandi að tækist vel til, því þá yrðum við nefnilega kannski beðnar aftur.;)

Á sunnudeginum var sonurinn á fleygiferð á jólaballi og í afmælum og svo enduðum við í sveitasælunni í Dalnum. Þar var verið að halda afmæli og ekki leiðinlegt að fá knúsa litlu frænku aftur. Hún er alger gullmoli og maður fær bara ekki nóg af því að dást af henni.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?