Friday, March 31, 2006

 

Þrjóska er góð

Ég er mikill þrjóskupúki og þræti ekki fyrir það.... Anyway, þrjóskan hefur oft komið mér í gegnum ýmsa erfiðleika og nú síðast við leit mína að veflyklinum. Ég gafst hreinlega ekki upp fyrr en hann var fundinn. Nú er sem sagt búið að finna hann, gera framtalið og skila því.

Þá get ég snúið mér að næsta verkefni, þrifum á heimilinu.

Wednesday, March 29, 2006

 

RSK

Heppin er alveg að elta mig þessa dagana. Núna þegar fermingarstressið er að baki, ætlaði ég að koma mér í næsta verkefni. Ég þarf að klára skattaskýrluna fyrir föstudaginn, en þá rennur fresturinn minn út.

Vandamálið er bara það að ég er búin að týna veflyklinum. Hehe þetta er svo týpískt ég að það er varla fyndið. Kannski er aldurinn bara að færast yfir mig.

Tuesday, March 28, 2006

 

Stressið búið

Jæja, þá er fermingin búin og við lifðum þetta öll af. Það var töluvert stress á laugardagsmorguninn og þá aðallega í mér sjálfri. Það lýsir stressinu best að ég gleymdi debetkortinu mínu í Garðheimum og fattaði það aldrei. Það var hringt í mig á sunnudeginum og þá var ég ekki farin að taka eftir því að kortið vantaði.

Anyway. Stúlkan orðin fermd og allt gekk vel. Mér fannst veislan vart byrjuð þegar fólk fór að tínast út aftur. Myndasýningin var vel lukkuð og sjálft fermingarbarnið sat undir sýningunni með bros á vör. Ég mæli með svona myndasýningu, ekkert mál að framkvæma og stórskemmtilegt. Ég held að ég hafi skannað inn 150 myndir, sem voru svo látnar ganga.

Það er eiginlega hálf skrýtið að þetta sé allt búið. Nú er það bara næsta mál á dagskrá. Á ég að halda upp á fertugsafmælið mitt eftir tvær vikur og hvernig þá? Nenni ekki að baka. Þetta þyrfti helst að vera sem ódýrast, því buddan er létt eftir svona fermingarveislu.

Wednesday, March 22, 2006

 

Top Gear

Ég verð bara að viðurkenna það að ég hef lúmskt gaman af þessum þáttum. Ég er ekki með bíladellu og horfi aldrei á formúluna og hef yfirleitt bara lítið vit á bílum. EN það er eitthvað við þessa þætti sem heillar. Húmorinn góður og uppátækin frumleg. Já, ég er kannski hallærisleg, en mér finnast þessir þættir skemmtilegir.

Monday, March 20, 2006

 

Fimm dagar

Jæja, bara svona mér til skemmtunar ætla ég að taka stöðuna, þegar fimm dagar eru til fermingar. Ég ætla að kópera gamla listann og uppfæra.

1. Finna fermingarföt. Allt komið, meira að segja minnstu fylgihlutir.
2. Panta fermingarköku. Við hittum bakarann í dag og göngum frá pöntun. Bakarinn var sallarólegur þegar ég spurði hann hvort ég væri að verða of sein og sagðist bara þurfa einn dag til að baka fyrir mig.
3. Klippun og litun fyrir dömuna. Afgreitt.
4. Prufugreiðsla. Afgreitt og kom mjög vel út.
5. Myndataka. Afgreitt og tókst mjög vel.
6. Salur. Búið að kaupa allt til að skreyta og allt í startholum fyrir föstudaginn, þegar við fáum salinn.
7. Veitingar. Allt klárt og skipulagt hver gerir hvað.
8. Skreytingar. Búið að panta kertaskreytingu og blóm, verður tilbúið á fermingardag.
9. Slideshow. Myndir verða skannaðar á morgun.
10. Gestabók, tilbúin. Fermingarkerti, klárt. Hanskar og sálmabók, klárt.

Sem sagt allt á góðri leið og stressið samt í hámarki (sem er eðlilegt þegar ég á í hlut).

Thursday, March 16, 2006

 

Aumingja kisa!

Henni var þvælt í fermingarmyndatöku í gær. Henni leist ekkert á blikuna og byrjaði að skjálfa um leið og hún var sett í búrið sitt. Búrið þýðir yfirleitt heimsókn til dýralæknis og ég veit hreinlega ekki hvort hún hefði kosið það frekar.

Hún byrjaði á því að þefa af öllu og kanna staðinn, en tróð sér svo undir leðursófa og neitaði að koma undan honum. Hún er svo lítil hetja þetta grey. Hún vildi ekki vera kyrr á myndunum og fór þvílíkt úr hárum. EN hún lifði þetta af og kláraði heila matarskál þegar hún kom heim. Hún er lík mér þessi elska, alger "emotional eater".

Friday, March 10, 2006

 

Status Quo

Tveggja tíma búðarferð á miðvikudaginn skilaði engum árangri. Fermingarbarnið gat bara ekki fundið sér buxur við hæfi. Henni fannst hún verða að velja buxur fyrst, svo topp og stígvél og belti.

Hér með er lýst eftir þröngum, hvítum, sparilegum buxum. Þær mega helst ekki kosta yfir 10.000 og verða að vera nógu þröngar yfir spóaleggina á dóttur minni. Allar buxur sem hún mátaði voru of víðar yfir lærin og ekki nógu fínar hér eða þar.

Ég held ég þurfi viku hvíld í Hveragerði eftir ferminguna.

Wednesday, March 08, 2006

 

Tvær og hálf vika

Þá eru tvær og hálf vika í fermingardag. Margt hefur verið gert, en ótrúlega margt er samt ennþá eftir. Ég veit ekki hvort það er kominn tími til að panikka, hvað finnst ykkur?

1. Finna fermingarföt. Jebb, það er ennþá eftir. Hugmyndin er komin, nú er bara að finna fötin.
2. Panta fermingarköku. Ætti maður kannski að skammast sín. Kannski er ég bara orðin of sein og fæ enga köku.
3. Klippun og litun fyrir dömuna. Jú, það verður næsta þriðjudag.
4. Prufugreiðsla. Reddað, það verður á miðvikudeginum.
5. Myndataka. Sama dag og prufugreiðsla.
6. Salur. Búin að skoða, fá hugmyndir að skreytingum og allt svoleiðis.
7. Veitingar. Búið að skipuleggja hver á að sjá um hvað og allt klárt með það.
8. Skreytingar. Búið að kaupa allt nema það á ennþá eftir að ákveða með lifandi blóm.
9. Boðskort. Hehe ég er nú ekki alveg vonlaus. Sendi boðskort í byrjun síðustu viku.
10. Gestabók, ekki búin. Fermingarkerti, klárt. Hanskar og sálmabók, klárt.

Er ég að gleyma einhverju?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?