Thursday, November 20, 2008

 

Hringtorg City

Jæja, ég varð nú bara að rjúfa bloggpásuna með smá innskoti. Ég get bara ekki orða bundist. Það er verið að gera enn eitt hringtorgið í hverfinu mínu. Það mætti halda að þeir væru að reyna að slá met í heimsmetabókinni, með öllum þessum hringtorgum. Var þetta virkilega eina lausnin á málinu. Þegar fólk spyr mig hvar ég eigi heima, þá get ég einfaldlega sagst eiga heima í hverfinu með hringtorgunum. Einhverra hluta vegna dettur mér alltaf í hug lagið "Gekk ég yfir sjó og land", þegar ég keyri um hverfið mitt þessa dagana. "Ég á heima í hringtorgalandi" eða eitthvað í þeim dúr.

Ég held að ég sé farin að trúa sögunni um að skipulagsfræðingurinn hafi verið með kaffibolla þegar hann teiknaði hverfið og lagt hann frá sér nokkrum sinnum á miðri leið.

Ja hérna, ég segi nú ekki annað.

Bis bald.

Sunday, November 09, 2008

 

Bloggleti

Ég held að ég sé eitthvað hálf andlaus þessa dagana. Hef ekkert haft að blogga um nema undanfarnar helgar og það fer nú bara að verða leiðinleg lesning. Það er ekki það að það sé ekki nóg að gerast í mínu lífi, ég hef bara engan áhuga á að blogga um það.

Annars gæti maður hætt að hafa bloggið persónulegt og fara að blogga um það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Það er víst af nógu að taka þar. Ég hef bara svo lítinn áhuga á því að ræða það ástand. Ég verð nógu mikið vör við það í vinnunni og annars staðar og mér finnst bara ekkert gaman að vera með svekkelsisblogg.

Svo þangað til ég finn andann koma yfir mig, ætla ég bara að taka smá pásu.

Bis bald.

Tuesday, November 04, 2008

 

Annað helgarblogg

Jæja. Það er víst liðin önnur helgi. Hún var frekar annasöm.

Á föstudaginn átti sonurinn afmæli. Hann varð 10 ára þessi elska. Í tilefni afmælis mættu 11 vaskir drengir í köku, leiki, pizzu og DVD (einmitt í þessari röð). Það var ekki laust við að maður yrði soldið lúin eftir 4 tíma afmælið.

Fjölskylduafmælið var svo haldið í hádeginu á sunnudegi. Ég ákvað að bjóða bara systkinum mínum + fjölskyldum og hafa þetta létt og afslappað. Kjúklingasalatið sló heldur betur í gegn og síðan var skypefundur með liðinu á Florida.

Og núna bíð ég bara eftir næstu helgi...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?