Tuesday, April 29, 2008

 

Bjallan glumdi í miðju prófi

Dóttir mín var í samræmdu prófi í íslensku í morgun. Hún var ósköp róleg yfir þessu öllu og ekkert að stressa sig í morgun. EN..Hún hafði samband við mig áðan og var heldur óhress. Í miðjum hlustunarkaflanum, fór skólabjallan að glymja, svo hún missti alveg niður eina spurninguna. Hún bara hreinlega heyrði hana ekki fyrir hávaðanum. Ég efast um að nokkur hafi heyrt hana. Hún var alveg miður sín yfir þessu, enda búin að leggja mikið á sig við lærdóminn. Öll rólegheitin í morgun breyttust í stress og einbeitningin fauk.

Skýringin sem kom frá kennaranum var að það hefði gleymst að taka bjölluna úr sambandi. Ég er frekar fúl yfir þessu, en ég held að ég láti nú samt vera að fara að gera eitthvað mál úr þessu…eða hvað?

Friday, April 25, 2008

 

Sjálfhelda

Það getur stundum verið hálf-ævintýralegt að vera kisuvinur. Þannig var það einmitt í gær.

Kisa fékk að fara út í gærkvöldi, með þeim fyrirmælum að hún mætti ekki vera lengi úti. Hún fær nefnilega aldrei að vera úti á nóttinni. Um klukkan ellefu, fór ég út á pallinn og kallaði á kisu. Heyrði ég þá ámátlegt væl, ekki langt í burtu. Ég vissi strax að nú væri kisa búin að koma sér í sjálfheldu. Það var því ekki um annað að ræða en að fara í úlpu og rölta út. Ég þurfti ekki að fara langt, þegar ég fann kisu. Hún var búin að príla upp stillasa, og þorði ekki niður. Þar stóð hún og vældi ámátlega, skíthrædd og vesældarleg.

Nú voru góð ráð dýr. Eftir smá umhugun ákvað ég að þetta yrði ekki leyst nema með hjálp dótturinnar. Hún er nefnilega ennþá svo ótrúlega fim, eftir alla fimleikaþjálfunina sem hún fékk á yngri árum. Hún átti ekki í miklum vandræðum með að vippa sér upp stillasann og handlangaði svo kisu niður til mín. Ég hafði náð í stiga heimilisins og stóð fremur lofthrædd í efsta þrepinu. Ég þurfti síðan að klöngrast niður stigann með kisu á öxlinni. Málið reddaðist því, en með naumindum því þessir stillasar voru alls ekki traustir. Það munaði því ekki miklu að við hefðum þurft að ræsa út björgunarsveit eða slökkvilið.

Eitthvað segir mér nú að við gætum alveg átt von á að standa í þessu aftur. Kisa litla hefur nefnilega svo gaman af því að príla.

Wednesday, April 23, 2008

 

Facebook

Ég held að ég verði að taka til baka, fyrri yfirlýsingu um Facebook. Ég er nefnilega dottin á bólakaf í þetta skemmtilega fyrirbæri. Það er kannski þess vegna sem ég er orðin svona léleg í blogginu, það fer svo mikið af mínum tölvutíma í Facebook. Það þarf að sinna gæludýrum, fjölga íbúum í eigin borg (þar sem ég er borgarstjóri), taka þátt í spurningaleikjum, hugsa um garðinn, senda og lesa skilaboð, flörta og senda vinum endalaus faðmlög, kossa, bros, kaffi, blóm, súkkulaði og svo framvegis.

Ég á líka Facebook að þakka að ég hef endurnýjað kynnin við tvo gamla vini sem ég missti samband við á tvítugsaldrinum. Og það er sko ekki leiðinlegt.

Friday, April 11, 2008

 

Ammælídag

Mikið er nú gaman að eiga afmæli, þegar maður fær svona mikið af fallegum afmæliskveðjum. Sonur minn tilkynnti mér þegar hann vaknaði, að hann ætlaði að gefa mér margar afmælisgjafir í dag. Fyrstu gjöfina fékk ég strax, hann var snöggur á fætur, tilbúin á réttum tíma og labbaði í skólann. Hann vissi það, blessaður, að þetta myndi gleðja mig mjög mikið (sem það og gerði).

Í kvöld ætlum við vinkonurnar svo að fara út að borða á Lækjarbrekku. Ég er ennþá að gera það upp við mig hvort ég á að vera akandi eða ekki.

Já, og svona í tilefni þess að ég er orðin árinu eldri, setti ég upp gleraugu. Þarf þau að vísu bara þegar ég þreytist við lestur, eða eins og ég sagði sjálf „ég þarf ekki að labba með þau“.

Tuesday, April 08, 2008

 

Vangaveltur

Ég virðist vera frekar andlaus þegar kemur að blogginu þessa dagana. Samt er ýmislegt smávægilegt að þvælast um í hausnum á mér. Eins og td:

1. Ég bara þoli ekki nýju auglýsingarnar frá 118. Finnst þær bara hallærislegar.
2. Ég er ennþá að velta því fyrir mér hvort ég eigi að bíða með að bóka hótel í London, eða ekki. Það eru jú ennþá fjórir mánuðir í ferðina.
3. Það fæðast bara litlar prinsessur í kringum mig. Það er í sjálfu sér mjög gott mál, því það vantar alltaf fleiri sætar prinsessur.
4. Ég þarf að fara að taka matarræðið í gegn hjá mér aftur. Er orðin allt of kærulaus.
5. Ég þarf að fara að gera eitthvað í þessum lekamálum í íbúðinni, svo ég geti farið að mála. Ég ætti kannski að senda tölvupóst til verktakans.

Og svona mætti lengi telja.

Thursday, April 03, 2008

 

Heimsókn í vinnuna



Mikið er nú gaman að fá svona litla sæta prinsessu í heimsókn til sín í vinnuna...tvisvar sama dag. Hún er bara svo mikil rúsína, alltaf brosandi og kát og tilbúin að spjalla við mann. Hún er sko alltaf velkomin í heimsókn til mín (og mamma hennar má reyndar alveg koma með líka).

This page is powered by Blogger. Isn't yours?