Tuesday, July 31, 2007

 

Letifrí?

Þessa viku er ég í "skyldufríi". Það er lokað í fyrirtækinu og allir skikkaðir í frí. Ég hef svo sem ekkert planað neitt sérstakt, enda hefði ég alveg nóg að gera, ef ég nennti. Það mætti td.:

1. Þrífa pallinn fyrir málningu (smá galli, það þarf að vera alveg þurrt til þess að hægt sé að bera hreinsiefnið á pallinn)
2. Síðan þarf að bera á pallinn (again, þarf að vera þurrt)
3. Þétta sturtuklefann. Ég gafst upp á að eltast við píparann og ákvað að gera þetta bara sjálf.
4. Tala við húseigendafélagið. Eitthvað þarf að gera í þessari íbúð, áður en ég sturlast á því að búa hérna.
5. Reyna að ná sambandi við fasteignasalann. Nei, ég er ekki að fara að selja (ennþá). Hann lofaði mér bara hjálp ef ég þyrfti og nú ÞARF ég hjálp. (smá galli, hann er ekki í bænum í sumar)
6. Ganga frá í kringum pallinn. Það þarf að fylla að með sandi og setja hellur (Þetta verður ekki gert fyrr en liður 1 og 2 eru búnir)
7. Kaupa húsgögn. Ég get bara ekki ákveðið hvort ég á að fá mér ljóst eða dökkt borðstofusett.
8. Kaupa plöntur á pallinn (again, ekki gert fyrr en eftir lið 1 og 2)
9. Kaupa og lesa nýju Harry Potter bókina.

Eitthvað segir mér að ég komi til með að byrja á lið 9.

Tuesday, July 24, 2007

 

Yippi-kay-ay

Ég var óvenju dugleg að fara í bíó í síðustu viku. Fór tvisvar sinnum. Það er sko mikið, á mínum mælikvarða.

Fyrri myndin sem ég sá, var Die Hard 4.0. Ég fór á hana með hálfum hug og þess vegna kom hún mér skemmtilega á óvart. Við vinkonurnar skelltum okkur í Háskólabíó, minn gamla vinnustað. Maður er orðin svo gamall að maður er komin með þessa nostalgíu tilfinningu.

Seinni myndin sem ég sá, var Harry Potter. Ég er töluvert Harry Potter fan og hef lesið allar bækurnar og var því mjög spennt að sjá þessa mynd. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir smá vonbrigðum með hana. Ekki misskilja mig, myndin er mjög vel gerð, það er bara svo margt sem vantar, þe. ef þú ert búin að lesa bókina. Ég tók dóttur mína með mér og við splæstum á okkur lúxus-þægindum. Alls ekki slæm mynd, bara ekki eins góð og ég átti von á.

Og nú er bara að kaupa nýju Harry Potter bókina og sjá hvernig þetta endar.

Tuesday, July 17, 2007

 

Í fréttum er þetta helst

Margir “linka” bloggin sín við Moggann. Ég ætla að vera öðruvísi en aðrir og tala um það sem ég las í Fréttablaðinu. Það var nefnilega óvenju margt sem fangaði athygli mína í morgun. Þar á meðal:

1. Greipávextir valda krabbameini. Það er alltaf verið að hamra á því að það eigi að borða nóg af ávöxtum. En ætli þetta sýni fram á að ávextir eru ekki eins hollir og haldið er fram?

2. Ofbeldi. Fjórtán ára gömul stúlka var með grafískar lýsingar á blogginu sínu, þar sem hún lýsir því hvernig hún gekk í skrokk á jafnöldru sinni. Ég hafði lesið færslurnar hennar, en hélt hreinlega að hér væri á ferðinni athyglissjúkur unglingur sem væri að spinna sögur. Ég fékk því nett sjokk þegar ég komst að því að þetta er allt saman satt. Þessi stúlka á greinilega mjög bágt.

3. TF-SIF brotlenti. Ég er örugglega ein af fáum sem fannst þessi frétt sorgleg. Ég hef bara alltaf haldið mikið upp á þessa þyrlu. Hún tengdist lífi mínu í fjöldamörg ár í gegnum starf fyrrverandi eiginmanns míns og ég hafði alltaf gaman af því að sjá hana leika listir sínar.

Og svona í lokin. Lag vikunnar er án efa nýja lagið hans Páls Óskars, “Allt fyrir ástina”. Ég þurfti ekki að heyra það oft, til að fá það gjörsamlega á heilann.

Thursday, July 12, 2007

 

Toto tónleikar

Bróðir minn og mágkona voru svo rausnarleg að bjóða mér á tónleika á þriðjudaginn. Ég var nokkuð spennt, þar sem ég hafði hlustað töluvert á þessa hljómsveit á mínum yngri árum. EN því miður voru tónleikarnir eru eins góðir og ég hafði vonað.

Ég las gagnrýni í Mogganum í dag, sem er alveg í takt við mína upplifun af tónleikunum. Þetta voru flottir hljóðfæraleikarar og hljómburður eins og best var á kosið, en þeir tóku bara ekki nema 4-5 þekkt lög. Hin lögin voru langlokur, með miklum sólóum. Það var eins og hljómsveitarmeðlimir væru á einhverju egó-trippi, þar sem þeir vildu sýna hvað þeir kynnu mikið á hljóðfærin sín. Kannski mjög gaman fyrir einhverja djúpa tónlistarpælara, en fyrir svona venjulegt fólk eins og mig var það eiginlega soldið tú möts. Hápunktur kvöldsins var lokalagið, Africa, enda tók salurinn þá vel við sér.

Kvöldið var þó langt frá því að vera leiðinlegt. Ég var í frábærum félagsskap, fékk ljúffengan mat og Buzz keppnin eftir tónleikana var spennandi. Bróðir minn náði að jafna metin eftir ósigur um áramótin, en ég heimtaði re-match.

Sunday, July 08, 2007

 

Lag vikunnar

Ég er alveg smituð af laginu Moss með Gus Gus. Lagið er skemmtilega einfalt og grípandi OG ég er algerlega með það á heilanum.

Fleira hef ég ekki að segja í bili. Greinilega ekki viðburðaríkir dagar hjá mér.

Monday, July 02, 2007

 

2,5 pör af sokkum

Þá er sumarfríið á enda og vinnan tekin við. Við snerum aftur á föstudaginn og notuðum helgina til að snúa við líkamsklukkunni. Þegar ég var að taka upp úr töskunum, tók ég eftir að allt hafði skilað sér yfir hafið, fyrir utan 2,5 pör af sokkum. Ég keypti mér 5 pör af sokkum í Ameríku, en einhverra hluta vegna skiluðu bara 5 stk sér yfir hafið, eða 2,5 pör af sokkum. Stórmerkilegt!

Annars fórum við að sigla um á sunnudaginn, á Bestu skútunni. Hehe skútan heitir nefnilega Besta. Við fórum í boði besta mágs og bestu systur og fengum hið besta veður. Ok nóg komið, ekki fyndið lengur. Það hlýtur að vera kominn í mig svefngalsi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?