Thursday, May 31, 2007

 

Sautjándajúnítorg 1

Nei ég er ekki að grínast, það er til gata með þessu nafni. Hún mun vera staðsett í Garðabæ.

Thursday, May 24, 2007

 

Afmæli


Yngsti fjölskyldumeðlimurinn á afmæli í dag. Hún er að verða 4 ára. Það verður engin afmæliskaka eða afmælisveisla, en í tilefni dagsins fær hún uppáhaldið sitt...RÆKJUR.

Tuesday, May 22, 2007

 

Ekki rekin

Ég hafði samband við stéttarfélagið strax á föstudaginn. Ég fékk staðfestingu á því að það væri ekki hægt að reka starfsmann eftir 1 ár í starfi, án þess að veita honum fyrst skriflega áminningu. Þannig brottrekstur væri einungis leyfður ef starfsmaður hefði verið staðinn að þjófnaði. Að auki væru uppsagnir í gegnum síma marklausar og þar af leiðandi væri dóttir mín ennþá í starfi.

Þannig að ég hringdi í eiganda H.H. og fræddi hann aðeins um kjarasamninga. Hann var mjög kurteis og vildi helst fá dóttur mína aftur í vinnu. Hann sagði að vaktstjórinn hefði brugðist allt of harkalega við (hún er dóttir hans) og hefði ekki haft leyfi til að reka hana og hvað þá í gegnum síma. Þar sem stéttarfélagið ráðlagði mér að hafa allt skriflegt, fór ég fram á að dóttir mín mætti segja upp, því hún gæti ekki hugsað sér að vinna þarna áfram. Hann samþykkti það, svo ég setti saman bréf og lét hann skrifa undir til staðfestingar. Passaði mig að taka fram í bréfinu að starfslok væru sama dag, skv. samkomulagi, svo þeir gætu ekki gert kröfu á að hún ynni mánaðar uppsagnarfrest.

Kannski aðeins of formlegt, en stéttarfélagið sagði mér að hún gæti lent í vandræðum ef hún hefði þetta ekki skriflegt. Það eru víst til dæmi um það að fólk segi upp (ekki skriflega) og fái svo frádrátt á næsta launaseðli fyrir “óunnar” vaktir, því atvinnurekandi þykist ekki kannast við að viðkomandi starfsmaður hafi sagt upp.

Friday, May 18, 2007

 

Rekin

Dóttir mín hefur verið að vinna nokkra tíma í viku, við að taka niður pizzupantanir hjá Hróa Hetti. Í gær lenti hún í þeirri skemmtilegu lífsreynslu að vera rekin. Hún var rekin, af því að hún mætti ekki á vaktina sína í gær. Ástæðan var sú að hún var að fara í erfitt próf í dag og þar sem henni var harðneitað um frí og hún gat ekki fundið neinn til að vinna fyrir sig, þá bannaði ég henni að mæta í vinnuna. Skólinn gengur nefnilega fyrir á mínu heimili.
Ég átti alveg von á því að hún yrði skömmuð og jafnvel fengi viðvörun, en að hún yrði rekin hvarflaði ekki að mér. Hún er búin að vinna þarna í heilt ár og hefur alltaf mætt. Hún hefur einu sinni fengið frí og það var þegar Lindaskóli keppti í skólahreysti í Höllinni. Ég veit þetta, því ég keyri hana í vinnuna. Hún hefur horft upp á aðrar stelpur skrópa hvað eftir annað og halda vinnunni. Ég veit að það réttlætir kannski ekki skrópið, en ætti ekki það sama að ganga yfir allan hópinn.

Ég gat ekki setið á mér og hringdi í vaktstjórann. Ég var kurteis en ákveðin og sagðist vera hissa á svona vinnubrögðum. Ég spurði hvort það væri virkilega hægt að reka dóttur mína eftir eitt skróp, hvort viðvörun hefði ekki verið nóg og henni sagt að hún yrði rekin ef hún skrópaði aftur. Vaktstjórinn fór þá að bera það upp á dóttur mína að hún hefði áður skrópað, sem ég rak samstundis ofan í hana, því ég keyri hana alltaf í vinnuna. Þá sagðist hún hafa veitt henni tiltal og fór að tala um hún stæði sig ekki í vinnunni. Sko, ég þekki mína dóttur. Hún er samviskusöm og fær lof frá kennurum fyrir vinnusemi. Það þarf enginn að segja mér að hún standi sig eitthvað verr en hinar stelpurnar. Er ekki líka reglan sú að þú þarft að veita eina skriflega áminningu fyrst? Er hún undanskilin því hún er bara 14 ára og ekki farin að borga í stéttarfélag. Ég ætla að hringja í VR og kynna mér þetta.

Það þarf varla að taka það fram að ég er hoppandi reið í dag.

Tuesday, May 15, 2007

 

Allt of löt

Ég hef verið mjög löt við að blogga undanfarið. Stundum fæ ég hugmyndir að bloggi, en þá efast ég um að það sé bloggvert. Ég hefði td. getað bloggað um:

1. Keypti mér nýtt grill um daginn. Það var sko flóknara að setja það saman en Ikea hillur. Síðan þá hef ég verið óstöðvandi í grillinu, sérstaklega að grilla fisk.
2. Ég er að leita mér að nýjum húsgögnum, sófasetti og borðstofusetti. Einhverjar hugmyndir?
3. Ég hitti frábærar konur um daginn, fyrrverandi og núverandi samstarfskonur. Það var kósí kvöldstund og Hulda klikkaði ekki á veitingunum. Það var eins og maður væri komin í míní fermingarveislu.
4. Dóttirin tók samræmt próf um daginn. Ákvað að prófa að taka enskuprófið ári á undan, bara til að sjá hvernig upplifun það væri að taka samræmt próf. Það gekk að sjálfsögðu mjög vel.
5. Það eru þrjár vikur þar til við leggjum af stað til Florida. Við erum strax byrjuð að skipuleggja ferðina. Ég hef mestar áhyggjur af því hvernig kettinum á eftir að líða án okkar.

Að öðru leiti er lífið nokkuð hversdagslegt. Ég endurheimti foreldrana frá Florida og reyni að prjóna eins oft og ég get. Má ekki prjóna mikið í einu, því þá fæ ég í axlirnar.

Ekki bara komið gott í bili.

Tuesday, May 01, 2007

 

Ein stór fjölskylda

Fjölskyldan mín fer stækkandi þessa dagana. Litli bróðir er farinn að búa og fylgir einn lítill krúttaralegur strákur þar með í kaupbæti. Það er sko ekki verra. Bróðir minn á einn strák á svipuðum aldri, sem er algert draumabarn og eftirlæti allra í fjölskyldunni. Ég er alger barnakelling og er því yfirleitt alveg tilbúin til að passa litla frænda, enda er hann löngu búinn að bræða hjartað í mér. Systir mín fór svo að búa í hittífyrra og þar fylgdu tveir gaurar með í kaupbæti. Þeir eru aðeins eldri en minn gaur og passa því mjög vel í hópinn. Það hefur því heldur betur orðið stækkun í fjölskyldunni á undanförnum árum.

ENNN hér kemur það sem gleður hjarta mitt mest þessa dagana. Litla systir mín er ófrísk að sínu fyrsta barni og ég á því von á "nýju" barni til að dekra við í okt/nóv. Hún á að vísu mjög bágt greyið, er búin að vera með uppköst í sjö vikur og þurfti að fá næringu í æð um síðustu helgi. Ég finn voðalega mikið til með greyinu, enda verður hún alltaf litla systir mín og ég því alltaf að passa hana. Ég er líka strax búin að bjóða mig fram til að passa. OG ég er byrjuð að prjóna.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?