Tuesday, February 17, 2009

 

Valhopp

Ég veit ekki hvað það er, en valhoppandi börn hafa alltaf fært mikla gleði í mitt hjarta. Það er eitthvað svo fallegt og jákvætt við valhoppandi og jafnvel sönglandi börn. Lífið er svo einfalt og skemmtilegt þegar maður er barn og einlæg gleði fylgir þessari litlu athöfn. Manni bara hlýnar um hjartarætur og hversdagsleikinn fær smá lit. Áður en ég veit af, er ég jafnvel farin að brosa út að eyrum.

Annars fór ég í bíó um daginn. Skellti mér á "The curious case of Benjamin Button". Ég hafði rosalegar væntingar til þessarar myndar og þess vegna varð ég fyrir vonbrigðum. Myndin er voðalega falleg og hugmyndin góð, en hún er bara alveg rosalega hæg (enda ca. 3 tímar á lengd). Það er nú samt aldrei leiðinlegt að horfa á Brad Pitt á hvíta tjaldinu. Gervið á honum er mjög vel heppnað og eiginlega það besta við myndina.

Saturday, February 14, 2009

 

Draumahúsið?

Í gær fórum við að skoða hús. Það var reyndar bara byrjunin á húsi, því það var bara búið að steypa það upp og setja á það þak. Það stendur á fallegum stað í hverfinu mínu og útsýnið er alveg truflað. Hæfilega stórt einbýlishús, með ca.þremur svefnherbergjum, alrými, stóru baðherbergi og stóru eldhúsi. Það sem heillaði mig mest var stór horngluggi, með stórkostlegu útsýni, sem yrði staðsettur í stóru eldhúsi. Kærastinn var meira spenntur fyrir stóra tvöfalda bílskúrnum (kemur á óvart).

Ég gæti sko alveg hugsað mér að búa þarna. Það vantar að vísu töluvert upp á fjárhagslega, að við gætum keypt þetta hús og klárað það. Maður er nú líka fremur varkár í peningaeyðslu, svona á þessum síðustu og verstu.

Þess vegna fór ég og keypti lottómiða.

Tuesday, February 03, 2009

 

Sjónvarpsfréttir

Ég komst að því í gær, af hverju ég er yfirleitt svona treg til þess að horfa á fréttir. Ástæðan er einfaldlega sú að mér finnast fréttirnar sem fluttar eru svo hrikalega neikvæðar. Allur fréttatíminn er yfirfullur af fréttum af stríðum, hörmungum, verðbólgu,fátækt, íslenskum stjórnmálum og alls kyns óréttlæti í heiminum.

Nei, það er ekki af því að ég vil lifa í einhverjum blekkingarheimi á mínu rósrauða skýi. Ég er bara einfaldlega það viðkvæm að ég tek svona fréttir frekar nærri mér. Verð bara alveg miður mín yfir óréttlætinu í heiminum. Í gær var til dæmis frétt um hvernig þeir reyta fiður af lifandi gæsum, einhversstaðar úti í heimi, til að nota í sængur. Ég er alveg miður mín yfir að hafa séð þessa frétt. Sársaukaöskrin úr vesalings dýrunum munu seint líða mér úr minni.

Hvernig væri að hafa einhverjar jákvæðar fréttir í staðinn. Einhverjar góðar fréttir sem manni líður vel að horfa á. Eða teljast það kannski ekkert spennandi fréttir??

This page is powered by Blogger. Isn't yours?