Friday, August 22, 2008

 

Dagur 5-6

Fimmtudagurinn var alfarið notaður í að þramma á milli búða, enda var ekta íslenskt sumarveður, rigning og rok. Dótturinni fannst það ekki slæmt. Þegar pokarnir voru farnir að hrannast upp, var ákveðið að fjárfesta í nýrri tösku. Það hafði verið fyrirfram ákveðið, því við gátum nú alveg sagt okkur það að ein taska myndi aldrei nægja á heimleiðinni. Að vandlega athugðu máli, var keypt taska sem hét því skemmtilega nafni "John Lewis" (í höfuðið á verslunarkeðjunni). Hún var því aldrei kölluð annað en Jón og verður það um ókomna tíð. Hún kemur til með að verða ágætis ferðafélagi fyrir Daníel, en það er nafnið á töskunni sem fyrir var.
Um kvöldið var síðan ráðist í að pakka öllu niður í töskur og þá dugði ekkert annað en nota tækni móður minnar sem er þekkt fyrir að koma miklu í litlar töskur.

Á föstudeginum, byrjuðum við á að tékka okkur út og setja töskur í geymslu því heimflug var ekki fyrr en um kvöldið. Síðan var stefnan tekin á Tower of London. Ég var mjög spennt fyrir þeirri heimsókn, því ég er mikil áhugamanneskja um sögu og þessi staður einn af þeim merkari í enskri sögu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með heimsóknina, við fengum fróðan og skemmtilegan leiðsögumann sem leiddi okkur um húsakynnin. Það var ekki laust við að það færi aðeins um við þegar maður snerti á veggjum þessa sögufræga staðs.
Áður en við vissum af var klukkan að nálgast þrjú og tími kominn til að gera aðra tilraun til að heimsækja Westminister Abbey. EN við erum alltaf jafn heppnar, kirkjan lokaði kl. 15.30 og við urðum of seinar. Mér fannst þetta ekki einu sinni fyndið í þetta skiptið.
Þegar fór að síga á seinni hluta dagsins var farið upp á hótel og töskur sóttar. Sem betur fer reyndist bara vera 45 mín. seinkun á heimflugi. Þegar mér var litið út um glugga flugvélarinnar, rétt þegar hún var að takast á loft, sagði ég við sjálfa mig "Bless í bili London. Ég kem aftur."

Comments:
Hæ - Tower of London er æði. Eg hef einmitt lent í því að koma að lokuðum dyrum í Westminster Abbey. Þess vegna dreif ég mitt lið þangað strax fyrsta daginn okkar í fyrra þegar við fórum til London. Kveðja, Guðrún S. Hilmisdóttir
 
Sæl Guðrún, gaman að "sjá" þig. Já, ég held að ég verði að passa betur upp á þetta næst þegar ég fer til London, datt bara ekki í hug að þeir myndu loka Westminister Abbey kl. 15.30.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?