Friday, May 02, 2008

 

Afi kveður

Þá hefur hann afi minn kvatt þessa jarðvist, sáttur við Guð og menn. Hann náði þeim háa aldri að verða 96 ára og var því löngu reiðubúinn að kveðja. Hann var trúaður maður, sem trúði á sitt himnaríki, og kveið því ekki brottför. Hann fékk friðsælt andlát, umvafinn fólkinu sínu og það voru því mörg tár felld í dag.

Ég á margar góðar minningar um afa minn. Hann var ljúfur og góður afi, sem kunni að gera ævintýri úr hversdagslegum hlutum. Þannig urðu trjálundirnir á Klambratúni, ævintýraskógar með drekum og úlfum, hver steinn varð að álfasteini og vatnstankarnir í Öskjuhlíð urðu hýbýli dverga. Afi gat hlegið sig máttlausan yfir teiknimyndum af Tomma og Jenna og svo var erfitt að fá hann til að lesa Andrésblöðin, því hann grét svo af hlátri að lítið varð um lestur. Á kvöldin var auðvelt að fara að hátta, ef von var á frumsömdum sögum frá afa. Þær snerust um tvo ánamaðka, sem lentu alltaf í þvílíkum svaðilförum, en komust samt alltaf heim til mömmu sinnar, heilir á húfi. Eftir söguna fórum við síðan alltaf með bænir. Afi minn var mikill söngmaður. Hann var því gjarnan mættur með gítarinn í barnaafmælin og spilaði ýmsar barnavísur með leikrænum tilþrifum. Þannig varð tófan í grjóti farin að urra og mamma hans Gutta grét fögrum tárum. Það var ekki til það barn sem ekki hreifst af honum afa mínum.

Ég gæti skrifað heila ritgerð um hann afa minn, minningar hreinlega streyma fram, jafn auðveldlega og tárin streyma niður kinnarnar. Eitt er víst. Ég átti besta afa í heimi.

Comments:
Elsku Veiga mín.
Samhryggist þér vegna afa.
Knúsar og kossar,
þín Elín
 
ætlaði að segja nákvæmlega það sama og Elín. Innilegar samúðarkveðjur.
kv
Maja
 
Kærar þakkir.
 
Samhryggist innilega líka.

en gott að hann fékk að fara þegar hann var tilbúinn. Besta leiðin...
 
Kærar þakkir. Já, það er best að fá að fara á þennan hátt.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?