Friday, May 18, 2007

 

Rekin

Dóttir mín hefur verið að vinna nokkra tíma í viku, við að taka niður pizzupantanir hjá Hróa Hetti. Í gær lenti hún í þeirri skemmtilegu lífsreynslu að vera rekin. Hún var rekin, af því að hún mætti ekki á vaktina sína í gær. Ástæðan var sú að hún var að fara í erfitt próf í dag og þar sem henni var harðneitað um frí og hún gat ekki fundið neinn til að vinna fyrir sig, þá bannaði ég henni að mæta í vinnuna. Skólinn gengur nefnilega fyrir á mínu heimili.
Ég átti alveg von á því að hún yrði skömmuð og jafnvel fengi viðvörun, en að hún yrði rekin hvarflaði ekki að mér. Hún er búin að vinna þarna í heilt ár og hefur alltaf mætt. Hún hefur einu sinni fengið frí og það var þegar Lindaskóli keppti í skólahreysti í Höllinni. Ég veit þetta, því ég keyri hana í vinnuna. Hún hefur horft upp á aðrar stelpur skrópa hvað eftir annað og halda vinnunni. Ég veit að það réttlætir kannski ekki skrópið, en ætti ekki það sama að ganga yfir allan hópinn.

Ég gat ekki setið á mér og hringdi í vaktstjórann. Ég var kurteis en ákveðin og sagðist vera hissa á svona vinnubrögðum. Ég spurði hvort það væri virkilega hægt að reka dóttur mína eftir eitt skróp, hvort viðvörun hefði ekki verið nóg og henni sagt að hún yrði rekin ef hún skrópaði aftur. Vaktstjórinn fór þá að bera það upp á dóttur mína að hún hefði áður skrópað, sem ég rak samstundis ofan í hana, því ég keyri hana alltaf í vinnuna. Þá sagðist hún hafa veitt henni tiltal og fór að tala um hún stæði sig ekki í vinnunni. Sko, ég þekki mína dóttur. Hún er samviskusöm og fær lof frá kennurum fyrir vinnusemi. Það þarf enginn að segja mér að hún standi sig eitthvað verr en hinar stelpurnar. Er ekki líka reglan sú að þú þarft að veita eina skriflega áminningu fyrst? Er hún undanskilin því hún er bara 14 ára og ekki farin að borga í stéttarfélag. Ég ætla að hringja í VR og kynna mér þetta.

Það þarf varla að taka það fram að ég er hoppandi reið í dag.

Comments:
lúðar. farðu bara niðureftir og lemdu einhvern.
 
Þetta er bara ÖMURLEGT, það er ekki hægt að skikka 14 ára stelpu í vinnuna þegar hún er að fara í próf (hélt að allir skildu hvað próf eru mikilvæg) og hvað þá að reka hana fyrir þetta. Ég mundi sko fara með þetta lengra. Talaðu við VR strax á mánudaginn.
 
skítapakk - gott hjá þér að hringja og reka þetta ofan í pakkið
 
Urrr! Hvað á nú svona lagað að þýða?
 
Gott hjá þér að standa með henni og láta þá ekki komast upp með þetta! Fólk sem ræður 14 ára börn í vinnu getur varla verið hissa á því að þau þurfi að fara í próf.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?