Tuesday, October 11, 2005

 

Mjög spes heimsókn

Hann afi minn varð 94 ára á laugardaginn. Samkvæmt honum ætti hann að vera löngu dauður. Hann var nefnilega staðráðinn í því að deyja þegar hann yrði 90 ára. En það er nú önnur saga.

Hann er geymdur inná Landakoti þessa dagana, því amma þarf hvíld frá því að annast hann. Hún er 82 ára gömul og á sem sagt að geta séð um gamla manninn. Again..önnur saga.

Við mæðginin ákváðum að skella okkur í heimsókn til afa gamla. Hann er inná læstri deild á Landakoti, því ekki má gamla fólkið sleppa út. Þetta var fyrsta heimsókn mín á þessa deild, svo ég vissi varla við hverju var að búast. Þegar við komum inn á stofuna, hittum við fyrir herbergisfélaga afa. Hann sagði að afi hefði skroppið frá. Það þurfti að gera leit að honum, því hann virtist hafa týnst í augnablikinu. Hann fannst svo inná klósetti. Hann var mjög glaður að sjá okkur og virtist þekkja okkur, þó hann kynnti okkur fyrir herbergisfélaga sínum sem frænda sinn og frænku. Þeir félagarnir eru á sama aldri og búnir að uppgötva það að þeir voru saman í sveit í Borgarfirði. Afi uppgötvaði nefnilega að hann hefði séð Erling á hjóli, fyrir 80 árum. (Hann getur ekki munað hvað hann gerði fyrir 5 mínútum). Þeir kappar eru alveg á sömu bylgjulengd og skilja hvorn annan mjög vel. Jæja, hvað um það. Sonur minn vildi náttúrulega vera mannalegur og segja fréttir. Hann sagði því "Langafi, ég er búinn að missa tönn". Hann sýndi svo langafa skarðið, stoltur. Erlingur vildi greinilega ekki vera minni maður og sagði "Ég er ekki með neinar tennur". Með það sama reif hann út úr sér góminn og sýndi syni mínum upp í munninn á sér. Sá stutti varð alveg orðlaus. Ekki minnkaði undrunin þegar langafi tók svo sína brú út úr munninum, bara svona til að vera með.

Sonur minn þagði alveg þangað til að hann var kominn út í bílinn aftur. Ég gat ekki stillt mig um að nota tækifærið og segja við hann að svona yrði maður ef maður væri ekki nógu duglegur að bursta tennurnar. Það svínvirkaði.

Comments:
Um að gera að nota tækifærið! :)
 
muahaha... gæti ég nokkuð fengið að fara með dóttur mína að heimsækja afa þinn og tennurnar hans?
 
Hehe ekki vitlaus hugmynd. Ég get ennþá brosað þegar ég hugsa um þetta.
 
greit!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?