Tuesday, January 25, 2005

 

Geysisprettir

Sigrún kórstjóri hélt áfram á sínum geysispretti á kóræfingu í gærkvöldi. Ég held hreinlega að manneskjan sé að reyna að setja nýtt hraðamet. Við erum að vísu að æfa fyrir kóramót, vortónleika og utanlandsferð, svo það veitir víst ekki af. Þar sem þetta er annað árið mitt í kórnum, er ég ein af þeim sem andvarpa þegar hún segir "þetta höfum við nú sungið áður", eða "þetta kunna nú flestir frá ......". Það þýðir að ég þarf að leggja mig fram við nótnalestur, því það verður rennt yfir þetta lag nokkuð hratt og án þess að taka hverja rödd fyrir sig.

Annars vaknaði ég upp í nótt við það að önnur daman á heimilinu reyndi að læða kærastanum sínum inn um gluggann. Þegar ég hastaði á hana og sagði henni að þetta væri bannað í mínu húsi, leit hún á mig stórum, grænum augum og mjálmaði. Ég sé að ég verð að fara að æfa mig strax á ræðunni minni um að kærastar séu bannaðir um miðjar nætur.

Comments:
alltaf gott að fá æfingu í nótnalestri (sagði tónheyrnarkennarinn og glotti ;-)

Svo er spurning um svona kattalúgu með segli. Virkar fínt hérna, þó Loppa sé nú ekkert að reyna að draga aðrar kisur með sér heim. Verst ef hún týnir hálsbandinu með seglinum, viðbjóðslega dýrt að kaupa nýjan...
 
Það er nú ótrúlegt hvað maður þjálfast hratt í nótnalestri. Ég lærði á píanó í den, og bý rosalega að því. Fékk td. alltaf 10 í tónheyrn. ;)
 
jahá, gott hjá þér! Hvar varstu?
 
Ég var í tónskóla Sigursveins, "í gamla daga".
 
hjá Sigursveini? Þar var ég líka í mörg mörg ár!
 
Ja hérna. Mér fannst ég líka kannast við svipinn ;)
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?