Wednesday, July 28, 2004

 

Kirkjugarðar Reykjavíkur

Í dag fór fjölskyldan í kirkjugarðinn til að hreinsa til hjá látnum ættingjum. Mér finnst alltaf gott að koma í kirkjugarðinn. Ég fyllist einhverri ró og svo rifjast upp gamlar minningar frá þeim sumrum sem ég hafði það að starfi að róta þar arfa og planta blómum. Ég á margar góðar minningar frá þeim sumrum. Eitt sinn slapp vistmaður út af Grund og vafraði um garðinn. Sú sjón var nokkuð skerí. Gömul gráhærð kona sveimandi um í hvítum náttkjól er ekki eitthvað sem maður vill sjá í kirkjugörðum.

Yfirleitt klæddist maður grænu regngallauníformi í takt við íslenskt sumarveður. Svo sat maður og spjallaði við hinar stelpurnar og reytti nokkra arfa þess á milli. Það var líka alltaf eitthvað spennandi að gerast í kirkjugarðinum. Maður gerðist spæjari ef jarðaför var í gangi, því mátti ekki sjást til okkar. Þá var skriðið á maganum og verið í felum bak við legsteina. Við vorum að vísu eitt sinn svo óheppnar að vera í feluleik þegar líkfylgd birtist. Það varð smá panik því ein var eftir ófundin. Hún var búin að finna sér góðan felustað, en var farið að leiðast. Þegar hún heyrði þrusk ákvað hún að gera sprell í leitaranum og stökkva fram úr felustaðnum með miklum látum. Það var mikil mildi að líkmennirnir misstu ekki kistuna út úr höndunum á sér.


Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?