Monday, October 27, 2008

 

Frábær helgi að baki

Þessi helgi var alveg frábær. Ég skellti mér á tónleika með Nýdönsk á laugardagskvöldið og skemmti mér mjög vel. Þeir voru þrusugóðir og spiluðu bæði ný og gömul lög.

Sunnudagurinn var bara einu orði sagt frábær, frá upphafi til enda.

Og í dag, er ég sönglandi nýjasta lagið með Nýdönsk, þó að ég kunni textann ekki fullkomlega og það er ekki hægt að finna hann á netinu. Ég held að hann sé einhvern veginn svona:

Alla tíð
Engu skiptir þó að allt
Í kringum okkur virðist kalt
Því þú veist, hvað við eigum
Núna virðist krepputíð
Ekki skaltu kvíða því
Við eigum hvort annað

Alla tíð

Í þúsund ár, heila eilífð
Það er __________?
(þarna vantar mig orðið, heyri ekki alveg hvað Daníel Ágúst segir)

Saturday, October 25, 2008

 

Aftur komin helgi

Mikið líður tíminn alltaf hratt. Það er bara skollin á önnur helgi.

Ég byrjaði helgarfríið á heimsókn til hennar Elínar minnar. Hún er búin að ganga í gegnum ýmsilegt undanfarið og því rík ástæða til að hitta hana og knúsa soldið. Hún leit bara mjög vel út og fallega brosið hennar var ekki langt undan. Alger hetja þessi stelpa.

Vaknaði snemma í morgun og var að sjálfsögðu sest fyrir framan tölvuna. Þessi Facebook er svo skemmtilega ávanabindandi. Verð nú samt að reyna að þrífa eitthvað og svo verður stefnan tekin upp í Dal eftir hádegi. Ég er í virkilegri þörf fyrir gott kaffi og ennþá meiri þörf fyrir spjall og þá er engin betri en hún systir mín. Að sjálfsögðu er líka mjög gaman að leika við litlu frænku. Hún brosir alltaf til Veigu frænku og þá bráðna öll vandamál bara einhvern veginn.

Svo er bara spurning hvort maður skellir sér á tónleika með Nýdönsk í kvöld.

Monday, October 20, 2008

 

Stjörnuspá dagsins

Það er nú ekki oft sem ég les stjörnuspánna mína. En það var bara eitthvað í þessum orðum sem hitti einkar vel í mark.

Hún hljómar svona, skv. Morgunblaðinu:

Hrútur
Þú ert meira virði og veist af því. Hugrekkið felst í því að fara fram á meira. Þegar þú ert búinn að ganga frá fjármálunum getur þú haldið áfram að láta þig dreyma.

Thursday, October 16, 2008

 

Önnur helgi framundan

Mér finnst alveg ótrúlegt, að önnur viku sé liðin og aftur sé að koma helgi. Það er greinilega nóg að gera í mínu lífi þessa dagana, vikurnar bara hreinlega fljúga áfram. Þessa helgi er ætlunin að gera eitthvað skemmtilegt með syninum og hver veit nema maður fái litla dömu lánaða.

Annars er þetta lag mikið sungið á mínu heimili þessa dagana. Við mæðginin erum alveg að "fíla" það:

Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér.
Ég þori að mæta hverju sem er.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér

Á diskóbar ég dansaði frá sirka tólf til sjö.
Við mættumst þar, með hjörtun okkar brotin bæði tvö.
Ég var að leita að ást, ég var að leita að ást.

Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér
Ég þori að mæta hverju sem er.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér.

Það er munur á að vera einn og vera einmanna.
Ég gat ei meir, var dauðþreyttur á sál og líkama.
Ég var að leita að ást, ég var að leita að ást.

Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér.
Ég þori að mæta hverju sem er.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér.

Sem betur fer þá fann ég þig hér.

Sem betur fer þá fann ég þig hér.

Sem betur fer þá fann ég þig hér.

Sunday, October 12, 2008

 

Venda!

Ég prófaði svolítið nýtt um helgina. Ég fór að sigla á seglskútu. Ég hafði aldrei prófað það áður, þe. að sigla fyrir seglum. OG mér fannst það rosalega gaman.

Ég komst að vísu að því að það getur verið hörkupúl að losa og festa kaðla og bönd, nákvæmlega á rétta augnablikinu. Ég varð gjörsamlega að treysa á skipstjórann, enda hafði ég engar áhyggjur af því að hann vissi ekki nákvæmlega hvað hann væri að gera. Ekki held ég nú að ég hafi gert mikið gagn í þessari sjóferð, enda hafði ég enga hugmynd út á hvað þetta gengi. Ég leysti bara bönd og herti bönd, nákvæmlega þegar mér var sagt að gera svo og svo stýrði ég víst eins og drukkinn sjóari.

Eins gott að Landhelgisgæslan var hvergi nærri.

EN þetta er eitthvað sem mig langar að gera aftur...og aftur. Það er svo stress-losandi að vera úti á sjó.

Friday, October 10, 2008

 

Skítt með kerfið

Ég er að reyna að sporna gegn því að smitast af fólki í kringum mig, sem heldur að allt sé að fara til fjandans. Ég vinn hjá lífeyrissjóð og eyði miklum tíma í símanum þessa dagana, að reyna að hughreysta aðra. Ég hef líka lent í að hughreysta fólk í kringum mig, bæði vini og vandamenn. Auðvitað veit ég að ástandið er mjög alvarlegt, en það er bara lítið sem ég get gert til að breyta því.

Þess vegna ætla ég mér að búa á bleiku skýi og halda í bjartsýnina. Ég ætla að njóta þess sem ég á og vera þakklát fyrir að hafa heilsu, eiga hraust og falleg börn, frábæra fjölskyldu og góða vini.

Um helgina á svo að taka lífinu létt og gera eitthvað skemmtilegt.

Er það ekki bara málið??

Sunday, October 05, 2008

 

Kjarklaus

Á þessum tíma árs verð ég alltaf mjög stressuð. Ástæðan fyrir þessu stressi er einfaldlega sú að ég er á báðum áttum hvort ég eigi að setja nagladekk undir núna eða seinna. Ég reyni að fresta því eins lengi og ég get, en lendi þá stundum í aðstæðum eins og á föstudaginn. Þá þorði ég hreinlega ekki að keyra í hálkunni og þurfti að senda MR-inginn með leigubíl. Ég tók sjálf strætó og fannst það bara í góðu lagi.

Ég held að þetta megi rekja til ársins 1997, þegar ég lenti í árekstri á þessum árstíma. Hann var töluvert harður, bíllinn gjörónýtur og ég rotaðist. Eftir þennan árekstur missti ég bara kjarkinn og hef ekki þorað að keyra á sumardekkjum, ef það er minnsta hálka úti.

En svona er ég nú bara.

Bis bald.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?