Friday, June 27, 2008

 

Stayin' alive

Samkvæmt afmælisboðskorti sem ég fékk, eru 30 ár síðan eðalmyndin Saturday Night Fever var frumsýnd. Þar af leiðandi verður diskóþema í boðinu. Ég er næstum búin að setja saman dressið. Fann meira að segja ekta diskó skó á útsölu í dag. Þeir eru gylltir. Nú á bara eftir að redda glimmer-hárlakki og glimmer á líkamann og þá held ég að dressið sé komið. Þetta verður bara gaman.

Annars náði ég þeim merka áfanga í dag að klára að bera á blessaðan pallinn. Ég var farin að vera hálf örg yfir þessu verki, svo ég er mjög fegin að þetta er búið...í bili. Í tilefni þess að því er lokið, ætla ég að skála fyrir mér í afmælinu á morgun. Og svo skálar maður fyrir afmælisbarninu.. og góða veðrinu.. og lífinu.

Wednesday, June 18, 2008

 

Sagan endalausa

Það þarf varla að hafa mörg orð um það sem er helst að gerast í mínu hversdagslega lífi þessa stundina. Það virðist ætla að taka mjög langan tíma að bera á þennan blessaða pall og ekki finnst alltaf tíminn til þess. Ég hef verið að reyna að grípa þær stundir sem gefast. Ég get að vísu lítið kvartað yfir veðrinu, því það hefur hagað sér skikkanlega. Þetta er bara svo rosalega seinlegt. Dóttirin hefur verið virkjuð í málningavinnu þegar hún er heimavið, en annars hef ég verið að dunda mér ein við þetta.

Ég reyni bara að hugsa jákvætt og einblína á hvernig ég ætla að fegra pallinn minn þegar málningarvinnu er lokið.

Thursday, June 12, 2008

 

Þreyta í sumarfríi

Það er svo mikið að gera í sumarfríinu, en samt kemst ég ekki yfir að gera allt saman. Það þarf að útrétta ýmislegt, taka til í skápum og fleiru sem venjulega gefst ekki tími til, fara í heimsóknir út og suður OG pússa og bera á pallinn. Í gær leigði ég mér juðara hjá BYKO og svo var ráðist á pallinn og hann pússaður. Á morgun stendur svo til að bera á ferlíkið (rúmlega 50 fermetrar), helst að ná að klára tvær umferðir. Nágranni minn tjáði mér að þeir hefðu verið tveir að bera á samskonar pall og það hefði tekið þá 16 klst. Það þýðir að það mun taka mig eitthvað töluverð lengri tíma en það. Dóttirin ætlar að hjálpa mér, svo við verðum bara að vera duglegar.

Annars er ég í hálfgerðu sjokki. Haldið þið ekki að þegar á hólminn var komið, hafi dóttir mín valið MR (klukkan 23.15 í gærkvöldi). Hún átti í mestu erfiðleikum með að velja á milli MR og Versló, en valdi MR vegna sterkari möguleika á áframhaldandi námi í læknisfræði. Ég styð hana 100% í sínu vali og vona að hún verði glöð í sínum skóla, en ég neitaði því ekki að það fór aðeins um gamla Verslinginn. Ég hélt því í fínu bleiku búðina til hennar Elínar minnar í dag og fékk áfallahjálp (og rosalega gott latte).

Wednesday, June 04, 2008

 

Stolt móðir part 2

Ég er svo stolt af börnunum mínum. Þau stóðu sig bæði svo vel í prófunum. Sonurinn kom heim með þessa fínu einkunn, 10 í stærðfræði, 10 í lesskilning og 9,5 í málfræði. Gerði eina villu í stafstetningunni.

Í kvöld var svo útskrift hjá 10. bekkingnum mínum. Hún var að kveðja skólann sinn og gerði það með stæl. Var kölluð upp á sviðið, þrisvar sinnum, til að taka við verðlaunum. Hún hlaut verðlaun fyrir bestan árangur í íslensku og samfélagsfræði og svo fyrir hæðstu einkunn í samræmdu prófunum. Ég varð svo stolt og hrærð að það munaði minnstu að ég brysti í grát.

Ég sagði við dótturina, að minningar kvöldsins yrðu vistaðar í langtímaminninu. Það eru svona stundir sem gefa lífinu lit.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?