Monday, October 29, 2007

 

Lítil prinsessa er komin í heiminn


Fullkomin lítil prinsessa kom í heiminn í morgun. Hún fæddist klukkan 4.50 í morgun og var 3053 gr. og 49 cm. Ég á soldið mikið í henni, því þetta er systurdóttir mín. Fæðingin gekk mjög vel, systir mín þurfti engin verkjalyf (þessi hetja) og fæðingin fór fram í vatni. Það þarf varla að taka það fram að foreldrarnir og nánustu ættingjarnir eru alveg dolfallnir yfir þessu litla kríli, sem á örugglega eftir að vefja öllum um fingur sér.

Lífið er yndislegt!

Sunday, October 28, 2007

 

Aumingja kisa

Það er yfirleitt mjög einfalt og auðvelt líf að vera kisa. Einu sinni á ári þarf hún samt að leggja á sig erfitt ferðalag. Það er þegar hún þarf að fara í sprautu til dýralæknisins. Þar sem hún er ekki sátt við að ferðast í bíl er hún sett í búr. Það þarf hreinilega að troða henni í búrið, því ekki fer hún þangað inn sjálfviljug. Síðan skelfur hún af hræðslu, alla leiðina til dýralæknisins. Þegar þangað er komið og henni hleypt úr búri, reynir hún yfirleitt að flýja. Að lokum, eftir sprautuna tekur við önnur ferð í bíl sem er jafn löng.

Þessi ferð var sérstaklega slæm. Hún reyndi eins og hún gat að ýta með hausnum, í hurðina á búrinu, til að sleppa út. Tók svo upp á því að krafsa í búrið, svona eins og hún væri að reyna að grafa sig út úr búrinu. Að lokum varð hræðslan svo mikil að hún pissaði í búrið. Aumingja kisa var alveg búin á því þegar við komum heim, skreið út úr búrinu og lagðist flöt á gólfið.

Við erum strax farnar að kvíða fyrir ferðinni á næsta ári.

Monday, October 22, 2007

 

Ergelsi dagsins

Það getur verið þrautinni þyngri að eiga viðskipti við Landspítalann við Hringbraut. Þrautin felst aðallega í því að finna bílastæði. Þó að það séu fullt af bílastæðum við þann ágæta spítala, eru þau alltaf stöppuð. Bílum er hreinlega lagt út um allt, upp á alla kanta og jafnvel á miðjum akreinum, svo það getur stundum reynst hið mesta völundarhús að keyra þar í gegn.

Þetta getur verið sérstaklega slæmt þegar maður þarf að fylgja gamalli fótalúinni ömmu í blóðrannsókn. Eina lausnin er að byrja á því að keyra hana upp að dyrum, fá lánaðan hjólastól og láta hana svo bíða í andyrinu meðan maður fínkembir svæðið í leit að bílastæði. Þetta er síðan endurtekið þegar maður yfirgefur svæðið.

Ég veit hreinlega ekki hvernig væri hægt að leysa þetta vandamál. Ein hugmynd væri að láta starfsfólkið leggja lengra frá og bjóða svo upp á hópferðir upp að spítala, svona svipað og þeir gera í stóru skemmtigörðunum í Ameríkunni. Þá væri bara rúta á rúntinum fram og til baka, sérstaklega í kringum vaktaskipti. Hmm hvar þessi bílastæði ættu svo að vera, væri svo aftur á móti annar höfuverkur.

Wednesday, October 17, 2007

 

Samræmd próf

Sonur minn er að fara á límingunum þessa dagana. Ástæðan er að hann er að fara í samræmd próf í íslensku og stærðfræði. Hann er í 4. bekk og hefur því aldrei farið í nein stór próf áður. Ég veit ekki hvort hann er sérstaklega slæmt tilfelli, þar sem hann er með ADHD og höndlar illa breytingar, eða hvort þetta sé þekkt vandamál á öðrum heimilum. Breytingarnar eru svo augljósar, hann er skapmikill og það er stutt í grát. Þar að auki talar hann um prófin eins og heimsendir sé í nánd. Ég veit ekki hvort þetta er eitthvað andrúmsloft sem myndast í skólanum, því ég tala alltaf um þessi próf eins og þetta sé ekkert stórmál.

Ég er persónulega ósátt við að setja níu ára gömul börn í svona strembin próf. Próftíminn er allt of langur fyrir svona ungan aldur. Ég prentaði út gamalt stærðfræði próf, það fyrra er 8 blaðsíður og það seinna 12 blaðsíður. Mér hefði fundist nóg að láta þau taka annan hlutann af prófinu, þ.e. vera helmingi styttri tíma en 7.bekkur. Það hlýtur að vera hægt að prófa getu svona ungra barna á styttri tíma.

Tuesday, October 16, 2007

 

Hvenær kemur veturinn?

Ég verð alltaf örlítið kvíðin á þessum tíma árs. Ástæðan er sú að ég er skíthrædd um að það fari að frjósa og komi hálka, áður en ég er búin að setja bílinn á vetrardekkin. Þar sem ég er á nagladekkjum, má ég ekki setja dekkin undir fyrr en 1. nóvember og ég vil helst ekki gera það of snemma. Þess vegna vakna ég þessa dagana og byrja á því að kíkja út um gluggann með smá hnút í maganum.

Ég held að ástæðan fyrir kvíðanum hljóti að vera sú að fyrir 10 árum síðan lenti ég í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu, að lenda í árekstri. Þann vetur hafði byrjað að frjósa áður en tími nagladekkjanna var byrjaður og ég því ennþá á sumardekkjum. Ég get ekki sagt að ég muni mikið eftir árekstrinum, sem var frekar harður. Ég rankaði við mér í sjúkrabíl og það fyrsta sem ég sagði var “Keyrði ég á?”

Thursday, October 11, 2007

 

Góðra vina fundur

Ég fór út að borða í hádeginu með hóp af skemmtilegum konum. Það var mikið skrafað og mikið hlegið. Ég fékk margar góðar hugmyndir, sem ég ætla ekkert að fara nánar út í hérna. Við fórum á mjög góðan matsölustað sem heitir Gló og sérhæfir sig í hollum mat. Mæli með honum.

Á morgun verður síðan Reunion hjá gamla gagnfræðaskólaárgangnum mínum. Það eru orðin heil 25 ár síðan ég útskrifaðist úr grunnskóla. Heil 25 ár. Ég get ekki verið orðin svo gömul. Það verður gaman að hitta allt hitt gamla fólkið. Suma hef ég ekki séð síðan ég var rúmlega 16 ára ung. Það verður spennandi að hitta gamla vini og heyra hvað fólk hefur verið að bardúsa síðan síðast.

Tuesday, October 09, 2007

 

Hjá læknirinum

Ég hef alltaf verið frekar viðkvæm í maga. Allar tilfinningar endurspeglast í maganum á mér og þar að auki versnar hann þegar það er mikið álag á mér. Þegar ég var hætt að geta mætt í vinnu, ákvað ég að nú væri tími til að fara að hitta lækninn minn. Og þar sem ég var hvort eð er á leið til hans til að láta mæla blóðþrýsting, þá sló ég tvær flugur í einu höggi.

Ég var snarlega sett á lyf við magabólgunum og sagt að málið yrði endurskoðað ef þetta lagaðist ekki. Þá fer ég líklegast í magaspeglun. EN góðu fréttirnar voru þær að blóðþrýstingurinn er þokkalegur. Hann er í efri normal mörkunum, en ekki ástæða til lyfjagjafar. Hann á svo að endurskoðast í desember, því hann gæti lækkað ef ég er dugleg að mæta í ræktina. Ég á svo líka að hafa samband um miðjan nóvember, því þá verð ég send í kólesteról tékk.

Ekkert merkileg færsla, frekar en aðra daga, en þar sem ég er orðin svo kölkuð held ég utan um hlutina á blogginu.

Monday, October 08, 2007

 

Nú er mælirinn fullur!

Ég hef bara ekki fleiri jaxla til að bíta á. Ég hef þurft að hlusta á högg, dynki, hlaup, hopp, skóglamur, sjónvarpsfréttir, boltadrippl og ýmislegt fleira, en núna er mælirinn fullur. Þau eru búin að fá sér HEIMABÍÓ. Í gærkvöldi var styrjaldarástand í íbúðinni hjá mér.

Nei, ég er ekki paranoid. Fólk sem kemur í heimsókn til mín á yfirleitt ekki orð til að lýsa undrun sinni á hávaðanum sem berst af efri hæðinni. "Ertu ekki að grínast í mér" og "Þetta getur ekki verið eðlilegt", eru orð sem hafa verið látin falla. Ég talaði við Húseigendafélagið til að leita ráða og þeir sögðu sennilegast að ekki hafi verið sett nægjanleg hljóðeinangrun undir parketið. Þeir sögðu nú reyndar líka að þar sem fólk vissi af því að það væri mjög hljóðbært, sýndi fólk tillitssemi.

Já ég veit að ég er kannski að fara yfir einhverjar línur, en svona er það bara þegar maður er orðin argur. OG ef ég hefði komist í tölvuna í gærkvöldi, hefði þessi færsla varla verið birtingarhæf.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?