Wednesday, August 29, 2007

 

Dagskrá í fæðingu

Það er svo margt hægt að gera í London og erfitt að velja úr. Ég er að reyna að setja saman smá dagskrá, því ég er svo hrikalega mikið fyrir að skipuleggja.

Fimmtudagur: Við lendum um hádegi og áætlað að fara á Prince tónleika kl. 6. Annað ekki planað ennþá.
Föstudagur: Covent garden, til að versla og skoða. Jafnvel hitta tvær enskar netvinkonur. Einnig farið á Oxford Street að versla. Síðan verður farið út að borða um kvöldið á austurlenskan stað sem heitir Hakkasan. Mjög fínn staður, sem lofar góðu.
Laugardagur: Skoðunarferð, ma. vaxmyndasafnið, London Eye og Westminister Abbey. Spurning um að fara í Notting Hill hverfið og kíkja á markaðinn á Portobello Road. Það eru líka margir spennandi veitingastaðir í Notting Hill, ekki mjög dýrir.
Sunnudagur: Ekkert skipulagt ennþá. Flugið er um kvöldið þannig að það verður eflaust hægt að gera eitthvað skemmtilegt um kvöldið.

Ef þið hafið einhverjar góðar hugmyndir um veitingastaði eða eitthvað spennandi að skoða, þá endilega látið mig vita.

Saturday, August 25, 2007

 

London calling

Þá er búið að taka ákvörðun. Við mæðgurnar ætlum að skella okkur til London. Áætlað er að fara 6. sept. og heimkoma þann 9.sept. Ég sagði dóttur minni að þetta yrði meira skoðunarferð en verslunarferð, en við myndum nú samt kíkja í nokkrar búðir. Þetta verður í fyrsta skipti sem hún fer til London og þar sem ég hef ekki komið til London í 20 ár, þá verður þetta mjög spennandi fyrir okkur báðar.

OG ég er að fara á Prince tónleika. Ég er að vísu ekki komin með miða og það er uppselt, en ég er búin að lesa Leyndarmálið. Need I say more. :)

Friday, August 17, 2007

 

Lélegt hjá Bylgjunni/Nings

Ókei, ég veit að ég er að reyna að vera jákvæð, en ég bara get ekki sleppt því að skrifa um þennan vinning sem ég fékk í sumarleik Bylgjunnar og Nings. Þegar Ívar Guðmundsson talaði við mig "í beinni" sagði hann að ég hefði unnið borgarferð fyrir tvo til Evrópu. Borgarferð er skilgreind á heimasíðu Icelandair sem pakkaferð til borgar í Evrópu, með hóteli og flugi.
Þegar ég fékk gjafabréfið í hendurnar stendur á því að ég hafi unnið flugfar fyrir tvo til e-s áfangastaðar í Evrópu OG að flugvallaskattar og gjöld séu ekki innfalin.

Ég gat nú ekki annað en farið að hlæja þegar ég sá þetta. Það kemur sem sagt til með að kosta mig heilan helling að nota þennan vinning. Ég ætti kannski að hringja í Flugleiði og athuga hvort ég fái nú ekki örugglega far til baka.

Æ þetta var bara eitthvað svo hallærislegt að ég varð að deila þessu.

Thursday, August 16, 2007

 

Að vökva umbúðir

Þegar maður er vafin frá ökkla upp í nára, geta hversdagslega hlutir orðið ótrúlega flóknir. Eitt af þeim er að fara í sturtu. Það er nefnilega ekki auðvelt að komast hjá því að bleyta umbúðirnar. Til að koma í veg fyrir það, fjárfesti ég í svokölluðum laxapokum. Langir og mjóir pokar sem passa vel utan um fótleggina. Síðan "teipa" ég pokana fyrir ofan og neðan umbúðirnar. Ætti að vera mjög auðvelt... en er það ekki. Einhvern veginn nær vatnið alltaf að smokra sér undir laxapokana (þó að þær séu festir allan hringinn) og bleyta allar umbúðirnar. Það er alveg sama hvað ég reyni, þær blotna alltaf.

Þá er bara að þurrka þær vandlega með hárblásara. Eitthvað segir mér að það sé ekki gott að láta blautar umbúðir liggja á sárunum.

Sunday, August 12, 2007

 

Ég er á lífi

Ég lifði aðgerðina af og er núna vafin í umbúðir frá ökklum upp í nára. Ég hef það bara ágætt og bryð parkódín við verkjum. Aðgerðin tókst mjög vel, en ég má eiga von á því að verða frá vinnu í 1-2 vikur.

Þar sem ég má ekki sitja með fæturnar niður, læt ég þetta duga í bili. Verð helst að sitja eða liggja með lappir upp í loft, nú eða rölta um í rólegheitunum.

Enn og aftur kemur ferða DVD spilarinn sér mjög vel.

Friday, August 03, 2007

 

Ég vann!!!!!

Einhverra hluta vegna hefur heppnin verið að aukast hjá mér undanfarið. Ég sem var yfirleitt vön því að vinna aldrei í neinum happdrættum eða leikjum, hef verið að næla mér í vinninga hér og þar undanfarið.

Ég held samt að hápunktinum hafi verið náð í morgun, þegar Ívar Guðmundsson hringdi í mig og tilkynnti að ég hefði unnið í sumarleik Bylgjunnar og Nings. Ég vann borgarferð til Evrópu fyrir tvo. OG matarveislu fyrir tíu hjá Nings. OG sumaráskrift af Séð og Heyrt. Ég er ennþá hálf vantrúuð á að þetta hafi gerst í raun og veru og bíð eiginlega eftir því að einhver vekji mig.

Kannski ég skelli mér til Parísar...eða Róm...eða Stokkhólms...eða London... eða ...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?