Monday, July 31, 2006

 

Undir berum himni

Ég var ein af þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína á Klambratúnið í gærkvöldi. Ég bara varð að upplifa stemmninguna sem myndaðist. Ég hafði nefnilega lítið heyrt af tónlist Sigur Rósar og fannst kominn tími til að breyta því.

Ég verð að segja að tónlistin þeirra er mjög sérstök. Lögin eru mörg keimlík, en mjög seiðandi. Ég var mjög hrifin og á örugglega eftir að hlusta miklu meira á þessa hrífandi tónlist. Hún veitir manni einhvern veginn sálarró.

Saturday, July 29, 2006

 

Samviskubit

Ég varð fyrir óþægilegri lífsreynslu áðan. Ég get engum kennt um nema sjálfri mér. Stundum gerir maður sér ekki grein fyrir hvað netið er opið og aðgengilegt og hvað heimurinn er í raun lítill.

Í júni skrifaði ég pistil, þar sem ég var orðin mjög hvekkt yfir hljóðmengun í húsinu mínu. Það heyrðist svo mikið á milli hæða og ég vildi athuga hvort þetta væri normal. Aldrei hvarflaði að mér að pistilinn myndi lenda í höndunum á nágrönnunum á efri hæðinni. Aldrei hvarflaði að mér að orð mín gætu verið gróf og bara hreinlega dónaleg. Ég hef áður þurft að biðjast afsökunar á skrifum mínum á þessu bloggi og það var þegar ég var farin að móðga kennarastéttina í verkfallinu um árið. Ég tók það ekki nærri mér. EN þetta blogg var vel fyrir neðan beltisstað og þegar ég las þennan pistil sem ég skrifaði í júní, varð ég hreinlega skömmustuleg.

Voðalega hef ég verið örg og pirruð þennan dag og látið allt flakka sem var að angra mig. Ég bara vona að þetta verði ekki til að nágrannarnir hati mig. Orðunum í pistlinum var ekki beint til þeirra, heldur var ég að spá í gæðunum á húsinu. Þau eru ekkert hávaðsamari en aðrir og ég hef ekkert nema gott af þeim af segja. Ég get samt alveg skilið ef þau eru fúl út í mig, ég væri brjáluð í þeirra sporum.

Thursday, July 27, 2006

 

Labbidi labb

Maður tekur upp á ótrúlegustu hlutum þegar maður hefum nógan tíma. Þessa viku er börnin í útlöndum með pabba sínum og þá hef ég allt í einu miklu meiri tíma aflögu. Á þriðjudagskvöldið dundaði ég mér við að smyrja á mig brúnkukremi og í gær, datt mér í hug að labba bara heim úr vinnunni. Mér lá ekkert á, þurfti ekki að sækja neinn, svo ég gat rölt heim í rólegheitunum. Ég valdi að fara í gegnum Elliðarárdalinn, því það er bæði fallegt og róandi.

Ég er að hugsa um að endurtaka gönguferðina á morgun. Þá ætla ég að vísu að vera í hentugri fötum. Ég var nefnilega í skósíðu þröngu pilsi og það hentar ekkert mjög vel til gönguferða. Svo er spurning hverju maður tekur upp á um helgina.

Tuesday, July 25, 2006

 

Working Girl



Í morgun fílaði ég mig soldið eins og Melanie Griffith í Working Girl. Ég þurfti að nota almenningssamgöngur til að komast í vinnuna OG ég fór í strigaskóm og bómullarsokkum, með sandala og nælonsokka í poka.

Nú verð ég með "Nine to five" á heilanum í allan dag.

Sunday, July 23, 2006

 

Allir hvolparnir farnir

Það reyndist ekki erfitt að finna heimili fyrir hvolpana hennar systur minnar, enda allir hin mestu krútt. Ég eyddi eftirmiðdeginum, ásamt móður minni, bróðursyni, Kristínu og ítalskri vinkonu hennar, á heimili systur og mágs í Dalnum. Við vorum úti í góða veðrinu og lékum við hvolpana. Það er líka eins gott að nota tækifærið því eftir verslunarmannahelgi verða þeir allir farnir.

Friday, July 21, 2006

 

Heitt, heitt, heitt

Það er ekki hægt að kvarta yfir veðrinu þessa dagana, tja nema kannski þegar maður þarf að hanga inni á skrifstofu. Það verður vonandi svona gott veður um helgina, þegar maður getur farið að njóta þess.

Ég á von á sex litlum, svörtum, ferfættum dúllum í heimsókn í dag. Systir mín ætlar að koma með hersinguna, aðallega svo dóttir mín geti fengið að knúsa þá. Við ætlum að sleppa þeim lausum úti í garði og leyfa þeim að ærslast, þe. dótturinni og hvolpunum.

Wednesday, July 19, 2006

 

Strætó blús

Ég þarf að ferðast með strætó þessa dagana. Mér var nefnilega ráðlagt að keyra ekki bíl næstu sex mánuðina. Ég get alveg skilið að það ferðist fáir með strætó. Það tekur mig heilan klukkutíma að komast niður á Suðurlandsbraut. Það er vegna þess að strætóinn sem gengur upp í Vatnsendahverfi, er alltaf of seinn, og þar af leiðandi missi ég af S2 við Smáralind. Undir eðlilegum kringustæðum ætti leið 28 að vera 2 mínútum á undan og ferðin að taka rúman hálftíma. Það finnst mér miklu eðliegri tími, klukkutími er bara soldið tú möts. Ég ætla nú ekki einu sinna að tala um hvað ég væri fljót á mínum rauða eðalvagni.

O jæja, er ekki bara bráðum að koma 15. desember.

Tuesday, July 18, 2006

 

Nei sko

er ekki bara farið að rigna úti. Það var nú líka búið að vera þurrt svo lengi.

Thursday, July 13, 2006

 

Hver vill eiga mig????



Hver getur staðist svona krútt. Ef einhvern langar í hvolp, alveg ókeypis, þá er um að gera að tala við mig. Það eru sex hvolpar sem eru að leita að eigendum og ef þeir líkjast móður sinni eitthvað, þá verða þetta yndislegir og ljúfir hundar.

Tuesday, July 11, 2006

 

Fingur í kross

Á morgun fer ég að hitta taugasérfræðinginn. Þá fæ ég vonandi einhver svör. Ég er eiginlega að vonast eftir því að fá leyfi til að keyra aftur, því ég hef gert eins og mér var ráðlagt og ekki snert bílinn.

Nú krossleggur maður fingur og leggst á bæn.

Monday, July 10, 2006

 

Hvað sagði Materazzi?

Ég er ennþá að furða mig á framkomu Zidane í leik Frakka og Ítala. Hann átti rauða spjaldið fyllilega skilið eftir svona framkomu, en mikið vildi ég fá að vita hvað Materazzi sagði við hann.

Sorglegt að Zidane skyldi enda ferilinn á þennan hátt.

Thursday, July 06, 2006

 

Ekki nógu ofvirkur

Ekki gat nú barnalæknirinn fundið neitt athugavert við son minn. Hann "skoraði" bara 18 stig, en hefði þurft að vera með 23 til að teljast ofvirkur. Hann vildi ekki prófa að setja hann á lyf, en talaði bara um að hann þyrfti stífan ramma (döh!) og að kennarinn ætti alveg að geta ráðið við hann. Hann taldi samt gott að drengurinn fengi stuðningsaðila og vildi láta á það reyna fram að áramótum.

Ég lét hann hafa ljósrit af umsögnum kennara hans, þar sem allir voru á sömu skoðun. Nemandinn leysir verkefni sín; ef hann er rólegur, lætur ekki truflast, sýnir stillingu, er ekki með fíflalæti og svo framvegis. Ég hef áhyggur af því að hann geti farið að dragast aftur úr í námi, þar sem hann gerir stundum lítið sem ekkert heilu kennslustundirnar. Faðir hans hafði nú svar við því. Kennararnir eru bara aular. Hann hefur nú líka alltaf haldið því fram að drengurinn sé bara soldið fjörugur og tekur alltaf fram í öllum viðtölum að hann sjái ekki vandamálið sem ég sé að lýsa.

Wednesday, July 05, 2006

 

Þetta er fallegur dagur

Hvað er annað hægt að segja, þegar maður er búin að fá úrskurð um að vera hvorki með heilaæxli né flogaveiki. Ég var sem sagt að fá fyrsta úrskurð úr rannsóknum og það fannst ekkert athugavert. Ég gæti jafnvel fengið að keyra aftur.

Í dag er lífið yndislegt.

Monday, July 03, 2006

 

Á hvolpavakt



Á laugardaginn gisti ég í Dalnum hjá systur og mági. Ég svaf í stofunni, ásamt nýjustu fjölskyldumeðlimunum. Ég fílaði mig svona hálfpartinn eins og ljósmóður á vöggustofu. Þar sem ég sef ekki mjög fast, vaknaði ég nokkrum sinnum við ámátlegt væl. Þá var einhver ævintýra-hvolpur búinn að festa sig eða fann ekki restina af hópnum.

Æ þeir eru svo mikil krútt og auðvelt að gleyma sér við að knúsa þá. Læt mynd fylgja með, en tek það fram að hún er ekki nýleg. Ég fæ örugglega nýrri bráðum, þegar ég fer að auglýsa þá af fullum krafti, því svo ótrúlega vill til að þessum krúttum vantar öllum heimili.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?