Wednesday, May 31, 2006

 

Votir vordagar

Það eru alls staðar rútur í umferðinni í dag, fullar af skólabörnum. Ég held að kennslu sé lokið í langflestum skólum og nú á að gera eitthvað skemmtilegt þessa síðustu daga skólaársins. Það væri bara óskandi að veðrið væri betra. Það var svo hvasst í fjöllunum hjá mér í gær, að sólstólar flugu um allar trissur. Ég þurfti að hlaupa á eftir einum, langt út á tún og koma þeim svo inn í skjól.

Unglingurinn liggur veik heima, eftir ævintýraferð gærdagsins. Það var bara of kalt og blautt. Vonandi verður betra veður á morgun.

Tuesday, May 30, 2006

 

Álög

Ég er allveg fullviss um að það hvíla álög á bókinni sem ég var að klára. Ég ákvað að lesa "Draumaveröld kaupalkans" af því að ég hafði heyrt að hún væri létt og skemmtileg. OG hvað gerði ég svo. Jú, ég fór á útsölu og verslaði föt fyrir 18 þúsund krónur. Það er langt síðan ég hef eytt svona miklu í sjálfa mig.

Og eins og Rebecca réttlætir alltaf gjörðir sínar í bókinni, þá ætla ég að réttlæta þetta með því að það hvíli álög á þessari bók. Ég ætla bara rétt að vona að þau séu ekki langvarandi.

Tuesday, May 23, 2006

 

Leikfimispróf

Ég fékk martröð í nótt. Mig dreymdi að ég væri komin aftur í skóla og væri að taka leikfimispróf. Ég stóð mig jafn hörmulega og ég gerði á mínum skólaárum. Ég vaknaði í sjokki.

Það rifjaðist upp fyrir mér, hversu mikil martröð leikfimispróf voru þegar ég var í skóla. Ég var alla tíð í þéttari kantinum og aldrei góð í leikfimi og þar af leiðandi kveið mig alltaf fyrir leikfimisprófum.

Svo varð ég örg. Ég hugsaði um það hvað leikfimispróf eru í raun og veru fáránleg. Ég styð það heilshugar að börn og unglingar séu í leikfimi, því öll hreyfing er bara góð. En að þau séu látin taka próf í þessu, sem getur haft áhrif á meðaleinkunn finnst mér út í hött. Það væri miklu nær að byggja leikfimiseinkunn á ástundun og áhugasemi. Sumir sluppu nefnilega við mætingu allan veturinn, en fengu svo tíu á prófinu. Ég mætti samviskusamlega, fékk lágt á prófi og lækkaði með því meðaleinkunn. Algert óréttlæti.

Thursday, May 18, 2006

 

20 ára stúdent!



Mér finnst alveg ótrúlegt að ég eigi 20 ára stúdentsafmæli. Það bara geta ekki verið 20 ár liðin síðan þessi mynd var tekin. Þegar ég horfi á myndina, sé ég ungar stúlkur, sætar og hamingjusamar. Fyrir 20 árum síðan var lífið svo skemmtilegt og framtíðin svo björt. Mér finnst ég alveg geta lesið það út úr andlitunum okkar á þessari mynd.

Núna erum við allar 20 árum eldri og reynslunni ríkari. Við höfum gengið í gegnum ýmisleg og alltaf haldið "jólakortasambandi". Við hittumst reyndar líka einu sinni á ári, ásamt restina af bekknum okkar og þykir það víst frásagnarvert. Við vorum ekki samrýmdur bekkur í den, en verðum greinilega miklu samrýmdari með árunum.

Á morgun er sem sagt komið að því að sameina allan árganginn í heilmiklu partíi. Þar á eftir verður svo farið í formlegan stúdentafögnuð, ásamt fleiri afmælisárgöngum.

Viva Versló!

Monday, May 15, 2006

 

Unglingavinna

Dóttir mín er 14 ára gömul. Hún hefur mikinn áhuga á því að vinna smávegis með skólanum, bara svona til að eiga pening fyrir fötum og snyrtivörum. Hún er búin að fara á nokkra staði til að athuga með vinnu, en fær alls staðar neikvæð svör. Svörin eru yfirleitt sú að hún sé of ung. Hún má sem sagt ekki vinna í Bónus, Hagkaup, Spar, Mekong, Nettó og fleiri stöðum. Það eina sem hún má gera, er að bera út blöð og passa börn. Hún hefur sem sagt þroska til að bera ábyrgð á börnum, en ekki til að raða í hillur.

Mér þykir þetta bara soldið skondið.

Tuesday, May 09, 2006

 

"Ég hugsa stöðuglega"

Ég er nú ekki mikill málfræðipælari. Ég get samt orðið ótrúlega pirruð þegar ég er að hlusta á morgunþáttinn á FM957. Dóttir mín, unglingurinn, stjórnar nefnilega stöðvarvalinu á morgnana og stillir alltaf á þennan morgunþátt.

Þetta var sem sagt orðalag sem var notað í gærmorgun. "Ég hugsa stöðuglega um..." (ekki man ég nú lengur hvað það var sem hún hugsaði svo stöðuglega um). Það virðist vera í tísku hjá ungu fólki að tala "lélega" íslensku. Maður þarf ekki annað en að skoða bloggsíður hjá unglingum til að sjá svona málfræðislátrun. OG ég trúi ekki öðru en að þau viti betur.

Friday, May 05, 2006

 

Ég á nýtt dót!

Ég fékk ammælisgjöfina mína frá Ammeríku í gærkvöldi. Glænýr I-pod. Hann er 60 GB og getur spilað tónlist, bíómyndir og fleira. Ég hef aldrei átt I-pod áður og er alveg himinlifandi yfir svona flottu dóti. Ég dundaði mér við að hlaða tónlist niður á I-tunes af þeim geisladiskum sem ég á og færði svo yfir á I-poddin og það er sko stuð í vinnunni hjá mér í dag.

Tuesday, May 02, 2006

 

Það er að verða uppselt!

Það er allt útlit fyrir að það sé orðið uppselt á föstudagstónleikana okkar, og miðarnir eru langt komnir fyrir tónleikana á fimmtudeginum. Miðasalan gengur rosalega vel og æfingarnar líka.

Maður er bara komin með fiðring í magann.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?